Af hverju ByggðaListinn?

ByggðaListinn er listi sem ekki er háður hefðbundinni flokkspólitík og getur því virkjað mannauðinn og skapað hugmyndir með frelsið að leiðarljósi. Á listanum er fólk af öllu hinu pólitíska litrófi sem á það sameiginlegt að brenna fyrir hagsmunum íbúa Skagafjarðar.

ByggðaListinn hefur heiðarleika að leiðarljósi, og fulltrúar hans seinustu fjögur ár hafa lagt sig fram við að eiga gott samstarf við aðra sveitarstjórnarfulltrúa.Við teljum farsælast fyrir íbúa sveitarfélagsins að málefnin ráði för, en ekki hver fær að setja nafn sitt á vörðuna.

Við viljum móta skýra framtíðarsýn og skorumst ekki undan því að taka þátt í fjárfestingum sem bjóða íbúum betri lífsgæði til lengri tíma, án þess þó að missa sjónar á fjárhagi og fjárhagsörðugleikum. Þegar farið er í stórar framkvæmdir teljum við mikilvægt að slíkt sé gert að vel ígrunduðu máli. Að fyrir liggi ítarlegar þarfagreiningar og raunhæfir kostnaðar- og rekstarútreikningar sem taka mið af verðlagsþróun.

Aðal áherslumál ByggðaListans er og verður að styrkja grunnstoðir samfélagsins.
Það sem við teljum mest aðkallandi í þeim málaflokk eru framkvæmdir vegna leik- og grunnskóla.

Við viljum að öll börn í Skagafirði hafi jafnt aðgengi að íþrótta og tómstundastarfi og að aðstaða til list- verk- og raungreina sé í takt við þarfir og kröfur nútímans um allan fjörð.

Byggðalistinn vill skapa aðstæður sem hvetja sem flesta til að setjast hér að. Við viljum stefna að íbúafjölgun umfram spár.
Til þess að það geti orðið mega atriði á borð við húsnæðisskort eða skort á leikskólaplássum ekki vera takmarkandi þáttur. Fjölga þarf skipulögðum lóðum, og húsnæðisframboð þarf að vera nógu fjölbreytt til þess að sem flest geti fundið húsnæði við sitt hæfi. Sveitarfélagið ætti einnig að verða leiðandi í að taka á móti einstaklingum af erlendum uppruna, með skilvirkri þjónustu sem leiðbeinir þeim um réttindi sín og hvaða þjónustu sveitarfélagið hefur upp á að bjóða.

Fjölmennara og fjölbreyttara samfélag skilar sér í auknum mannauð, og mannauðurinn er auðvitað okkar helsta auðlind.
ByggðaListinn leggur einmitt áherslu á að vernda mannauð sveitarfélagsins sem best. Við teljum mikla möguleika felast í að skipa teymi sem veitir ráðgjöf og stuðning fyrir starfsfólk sveitarfélagsins og hugar að alhliða heilsu þess, jafnt líkamlegri, andlegri og félagslegri.

Við viljum einnig hvetja til almennrar lýðheilsu með því að tryggja gott aðgengi að útivist um allt héraðið með stefnumótun og framtíðaráætlun fyrir útivistarsvæði.

ByggðaListinn leggur mikla áherslu á að jafna þjónustu við íbúa um allt sveitarfélagið eins og framast er unnt, til dæmis við eldri borgara í formi aksturs og fæðisþjónustu, í málefnum fatlaðs fólks og aðgengismálum.

ByggðaListinn vill að sveitarfélagið sé tilbúið til þess að taka á móti fyrirtækjum og einstaklingum sem vilja hefja hér starfsemi eða færa starfsemi sína út á land. Á sama tíma viljum við styðja við þá starfsemi sem þegar er til staðar og standa vörð um opinber störf.

Til þess að að þetta geti orðið þurfum við skilgreindar atvinnulóðir og endurbætur á lagnakerfi og ljósleiðaravæðingu þar sem þess er þörf.

Við viljum við einnig kanna hvort möguleikar felist í því að nýta húsnæði í eigu sveitarfélagsins í þessum tilgangi, til dæmis sem aðstöðu fyrir frumkvöðla, undir matvælaframleiðslu og sem samvinnurými.

ByggðaListinn telur ákaflega mikilvægt að fjölbreyttar raddir sveitarfélagsins fái að heyrast og hafa vægi. Til þess að tryggja það viljum við koma á fót sérstökum íbúa- og hverfisráðum um allan fjörð. Við leggjum einnig áherslu á gagnsæja og ábyrga stjórnsýslu og teljum að opið bókhald sé góð leið til þess.

Að lokum hvetjum við alla til þess að fagna lýðræðinu og nýta sinn kosningarétt.
Byggðalistinn er tilbúinn í meirihlutasamstarf, en er að öðru leyti óbundinn.

Merkið X við L á kjörseðlinum 14. maí

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir