Hápunkturinn að spila Blindsker með Bubba og Dimmu á Bræðslunni / ÁSKELL HEIÐAR

Áskell Heiðar er til hægri, Ásbjörn til vinstri.
Áskell Heiðar er til hægri, Ásbjörn til vinstri.

Það er ávallt viðburðaríkt hjá Áskeli Heiðari Ásgeirssyni, enda kappinn með fyrirtæki undir því nafni sem þeytir upp viðburðum af ýmsu tagi og oftar en ekki tónlistartengdum. Má þar til dæmis nefna Drangey Music Festival og svo er hann einn Bræðslubræðra. Heiðar er fæddur þegar hraun ran á Heimaey og uppalinn á Borgarfirði eystra, kom hingað á Sauðárkrók í fjölbrautaskóla, kynntist frábærri skagfirskri konu af úrvalsættum og er hér enn, fjórum dætrum síðar, eins og hann segir sjálfur.

Hann er bassaeigandi og á reyndar líka kassagítar en spurður út í helstu afrekin á tónlistarsviðinu svarar hann: „Hef tekið eitt og eitt lag á bassann með stórsveitinni Á móti sól við ótrúlegustu tækifæri, t.d. í hinum viðfræga Cavern Club í Liverpool, en hápunkturinn er að spila Blindsker með Bubba og Dimmu í smekkfullri Bræðslu fyrir tveimur árum!“

Hvaða lag varstu að hlusta á? Sunny Road með Emiliönu Torrini.

Uppáhalds tónlistartímabil? Festist svolítið í nýbylgju og rokki síð 80‘s (Smiths, Cure, REM, U2, Sting, Springsteen, Lloyd Cole) en kann líka vel að meta eldra rokk frá 70´s (Zeppelin ofl.)

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Alltaf veikur fyrir góðum melódíum með góðum bassalínum og smá gítar. Of gamaldags fyrir mikið rafpopp og lítið fyrir rappið, ef frá er skilinn Úlfur Úlfur sem ég fíla.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var svakalegur grautur, allt frá Presley og Bítlum yfir í Dr. Hook, Steina spil og Lúdó og Stefán.  Lítið var þó spilað af klassískri tónlist.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér?  Ég pantaði The Unforgettable Fire og eldri skífur U2, Boy og October á póstkröfu frá Gramminu 1984 eða 85. Sumarið 1985 keypti ég svo Brothers in Arms með Dire Stratis í skólaferðalagi á Akureyri, það eru eftirminnileg kaup, enda eðalgripur.

Hvaða græjur varstu þá með?  Ég fékk sambyggða TEC samstæðu með tvöföldu kassettutæki í fermingargjöf, fram að því var það heimilisplötuspilarinn. Walkman vasadiskóið kom líka um svipað leiti og litlu síðar Walkman ferðageislaspilari í bílinn!

Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf? Ég er alinn upp við bókajól, músík var aldrei á jólagjafalistum.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Aðeins örfáir tónlistarmenn sem ég á erfitt með, er almennt frekar umburðalyndur.  En ég legg t.d. óhikað niður störf og legg nokkuð á mig til að slökkva á útvarpinu þegar Ólöf Arnalds hljómar.  

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Danska lagið sem vann ekki, heitir það ekki I never ever let you?  Svo er Nína auðvitað klassík.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð?  Veltur aðeins á samsetningu hópsins, en Born to be Wild klikkar sjaldan og ef aldur og samsetning er rétt og austfirðingar í hópnum þá er Blindsker alltaf klassískt!  Blame it on the Boogie virkar líka alltaf!

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra?  Eitthvað ljúft, til dæmis Sting.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér?  Fyrir tveimur árum hefði ég sagt U2 með Völu konu minni, en svo sáum við U2 saman í Glasgow.  Þeir voru frábærir en mig langar ekki að gera það aftur.  Ætli ég tæki ekki alla fjölskylduna með mér á tónleika með Ed Sheeran og Taylor Swift, þau eru miklir fjölskylduvinir og hafa verið lengi.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkomin með bílpróf?  1990 var skrítið músíkár, mér dettur í hug Black Velvet, flott lag og mikill bassi.  Svo var þetta auðvitað gullöld sveitaballsins og Síðan skein sól, Todmobile, Sálin og Stjórnin fyrirferðamikil á rúntinum enda ferðinni oftar en ekki heitið á ball!

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera?  Hef nú lítið fantaserað í þá áttina, en sé svolítið eftir að hafa ekki haldið áfram með hljómsveitadrauminn, var bassaleikari í skólahljómsveit 17 ára og lagði svo slíka drauma á hilluna.  Væri mest til í að hitta Adam Clayton úr U2, hef reyndar rekist á hann en kunni ekki við að trufla hann, myndi gera það ef ég rækist á hann aftur.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli?  U2 plöturnar The Joshua Tree sem kom út fermingarárið mitt og Achtung Baby sem kom út þegar ég var 18 höfðu mikil áhrif á mig, kann þær afturábak og áfram.  

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Þessa dagana stendur yfir undirbúningur fyrir Drangey Music festival og Bræðslu sumarsins, þetta litar aðeins listann:

Hafið er svart – Jónas Sig.
Every Breaking Wave – U2
Castle on the Hill – Ed Sheeran
Stingum af - Mugison
O Sleep – Lisa Hannigan
Ég stend á skýi – Síðan skein sól

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir