Af hverju er þrúgandi þögn? - Kári Gunnarsson skrifar

Í ágætri grein í Feyki setur Jón Eðvald Friðriksson fram þá kenningu að þögn ríki í Skagafriði um ástæður þess að þeim fari fækkandi sem vilja hér búa, það gengur ekki, og set ég hér fram nokkrar hugdettur varðandi landbúnaðarþáttinn. Má vera að ástæðan sé að einhverju leyti drottnandi staða KS í héraði, að viðbættri óskilvirkni pólitíkur síðustu áratuga?

Hvað á ég við? Spyr einhver. Ég á við það sem allir sjá, að tengsl stjórnenda KS við eigendur fyrirtækisins, eru ekki eins og þau ættu að vera. Hvenær var leitað álits héraðsbúa þegar KS Varmahlíð var selt? Bjóðast skagfirskum bændum sömu kjör hjá Afurðastöð KS og öðrum afurðastöðvum fyrir slátrun ársins 2022? Er áburður dýrari hjá KS en Líflandi? Getur verið að hyggilegra hefði reynst að nota þá fjármuni innleggjenda, sem eytt var í markaðsmál í Rússlandi, til að byggja kjötvinnslu á Sauðárkróki?

Gæti verið í fordæmalausum fjölda erlendra ferðamanna, að betra væri að beina kröftum að því að selja þeim kjötrétti hér, heldur en að senda kjötið með ærnum kostnaði og kolefnisspori heim til þeirra? Hvers vegna eru afurðir ekki seldar fullunnar úr heimabyggð?, heldur seldar að hluta í gegnum Kjötmarkaðinn ehf., sem hirðir framlegðina, fyrirtæki í eigu fyrrverandi starfsmanns Afurðastöðvar KS. Hvers vegna fær smásalinn, flutningsaðilinn, kjötvinnslan, afurðastöðin og starfsmenn hennar, allt sitt greitt með fullum skilum, en bóndinn, sem leggur til hráefnið, fær það sem eftir verður, sem er lítið og fer minnkandi? Gæti verið að KS hefði átt að fara hægar í að sendast austur og vestur til að sækja sláturgripi, niðurgreitt af heimabændum, frekar en að kappkosta að framleiðendur í héraði sæju sér hag í að auka sína framleiðslu?

Gæti verið að ef á Sauðárkróki væri glæsilegt nýtt hótel, en ekki sýndarveruleikasafn, stoppuðu fleiri beturborgandi ferðalangar í Skagafirði og nýttu sér þá vöru úr héraði sem í boði er? Gæti verið að hluta þeirra tugmilljóna sem hafa verið lagðar í skíðasvæði, hefðu betur verið settar til að gefa ungum knöpum á Sauðárkróki tækifæri til að byggja upp sýningahald í hestamennsku?

Svona mætti endalaust spyrja sig, en líklega er fátt um svör, og stundum gott að vera vitur eftir á. Eitt er þó víst, eins og Jón Eðvald bendir á, þessa hluti þarf að ræða, til að hér endi ekki með því að nota megi starfsmannalista KS og sveitarfélagsins sem íbúaskrá, sem er nú kannski óþarfa svartsýni. Ekki svo að skilja að finna eigi KS og stjórnendum þess allt til foráttu, síður en svo. En það er sagt að vinur sé sá er til vamms segir og nú þegar nálgast kynslóðaskipti á stóli kaupfélagsstjóra, er mikilvægt að muna að fyrirtækið var stofnað til að vinna fyrir eigendur sína, en ekki öfugt. En nú er um að gera að sem flestir komi með hugmyndir, sem nýst gætu til að gera okkar frábæra hérað fýsilegri kost til búsetu.

Kári Gunnarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir