Áhrif lútherskrar siðbótar á samfélagið - Áskorendapenni Magnús Magnússon - sóknarprestur á Hvammstanga og meistaranemi í kirkjusögu

Þakka bekkjarbróður mínum úr grunnskóla, Sigurði Hólmari Kristjánssyni, fyrir áskorun þess efnis að skrifa pistil í Feyki um sjálfvalið efni. Í ljósi þess að undirritaður er í námsleyfi frá prestsskap í vetur og stundar mastersnám í kirkjusögu með áherslu á siðbreytinguna þá kom varla annað til greina en að skrifa stuttan pistil um áhrif siðbótar á íslenskt samfélag.

Í gegnum tíðina hefur öðru hvoru verið tekist á um það hvort áhrif siðbótar hafi verið til góðs fyrir samfélagið eður ei. Lútherskir guðfræðingar hafa oft farið framarlega í því að lofa siðbótina á meðan fræðimenn úr hópi sagnfræðinga hafa verið háværari í hópi gagnrýnenda. Stundum hafa komið fram viðhorf í hérlendri sagnfræði þess efnis að með siðbótinni hafi byrjað allsherjarhnignun á flestum sviðum. Þetta viðhorf var einkum þekkt á fyrri hluta 20. aldar og tengdist þá gjarnan þjóðernislegri sagnaritun og var stunduð í tengslum við sjálfstæðisbaráttuna og raunar löngu eftir að henni lauk.

Viðhorfið er stundum nefnt Aldasöngsviðhorfið og kennt við ljóðið ,,Aldasöng“ eftir Bjarna Jónsson Borgfirðingaskáld en þar kemur fyrir hendingin: ,,Allt hafði annan róm / áður í páfadóm“. Aldasöngsviðhorfið virðist leggja áherslu á of víðtækt rof á mörgum sviðum og taka lítið mið af þróun hins miðstýrða ríkisvalds með konunginn í öndvegi. Í þeim ranni er líka um að ræða ofmat manna á pólitískum afleiðingum siðbreytingar. Þannig virðist íslensk saga, sérstaklega á fyrri hluta 20. aldar, vera skrifuð í tómarúmi og hvorki tekið tillit til Evrópusögu né kirkjusögu Evrópu. Í þessu ljósi má minna á að hin lútherska Danmörk og hið kaþólska Frakkland eru mjög hliðstæð að því leyti að þar var einveldi lögfest sama ár.

Nú er nýkomin út bók eftir dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra, sem heitir Uppreisn Jóns Arasonar. Andi þessarar bókar virðist litaður af Aldasöngsviðhorfinu ef tekið er mið af höfuðatriðum bókarinnar sem eiga að fanga athygli lesandans og slegið er upp á baksíðu bókarkápu. Þar segir að lokinni stuttri umfjöllun um siðaskipti og aftöku Jóns: ,,Við tóku hinar myrku aldir Íslandssögunnar með fátækt og einangrun“.

            Nú vill höfundur þessa pistils taka skýrt fram að hann hefur ekki lesið nefnda bók um Jón Arason enda er ekki ætlunin að taka hana til umfjöllunar hér heldur að fjalla í stuttu máli um lúthersk áhrif á íslenskt samfélag. Í framhaldinu fer vel á því að biðja dr. Ásgeir að gera grein fyrir helstu niðurstöðum bókar sinnar þannig að fólk geti vegið og metið hvort hún falli í flokk með öðrum sagnfræði- og bókmenntaritum sem kennd eru við Aldasöngsviðhorfið.

 

Augljósustu áhrif siðbótarinnar á Íslandi eru siðaskiptin sjálf og siðbreytingin sem fylgdi í kjölfarið. Mikilvægt er að hafa í huga að hvort tveggja mótaðist af þróun miðstýrðs ríkisvalds. Annars voru áhrif siðbótar fyrst og fremst á sviði kirkju- og trúmála. T.d. með útgáfu á postillum, húslestrarbókum, sálmabókum og uppfræðslukverum og síðar með menntun presta í siðbótarfræðum. Tveir menningarheimar voru að mætast og alþýðan tók öllum tillögum að breytingum með fyrirvara. Það á einnig við í dag og nægir þar að nefna tillögur að sameiningu sveitarfélaga bæði fyrr á tíð og í dag. Ofan á íhaldssamt samfélag þá var landið strjálbýlt og því gengu breytingar hægt fram. Auk þess voru allnokkrir prestar innvígðir á kaþólskri tíð og héldu áfram störfum fram undir 1600.

Allnokkuð samhengi í kristnihaldi virðist haldast á siðaskiptatímanum og má þakka litlum breytingum á rekstrargrundvelli kirkjunnar. Konungur tók reyndar til sín eignir klaustranna og breytti þeim í veraldleg lén, sem orsakaði vissulega breytingu á stöðu þeirra sem trúarlegra stofnana, en þau gegndu samt sem áður ýmsum félagslegum og jafnvel kirkjulegum hlutverkum. T.d. voru settir djáknar á öll klaustur í Hólabiskupsdæmi sem áttu að aðstoða presta við uppfræðslu og mjög líklega komið að fátækrahjálp því til viðbótar. Ekkert allsherjar eignarnám átti sér stað þannig að hagkerfi sókna og prestakalla hélst óbreytt. Við siðaskipti var yfirlýst stefna að setja biskupsembættinu þrengri ramma. Átti biskupinn að breytast úr því að vera alvaldur kirkjuleiðtogi í að verða nokkurs konar yfirprófastur m/titilinn superintendent. Þessi breyting virðist ekki hafa náð fram að ganga hér á landi eftir að mesta óróleikatímabilinu sleppti og sést best á því biskupar á 16. og 17. öld voru síst valdaminni en kollegar þeirra á miðöldum.

Kirkjubyggingar og guðsþjónusturými breyttust ekki mikið við siðaskiptin. T.d. hélst kórþil milli kórs og framkirkju alveg fram á 19. öld en það átti sér alfarið kaþólskan grundvöll. Sér þess t.a.m. stað í tveimur skagfirskum kirkjum, Hóladómkirkju vígð 1763 og Víðimýrarkirkju vígð 1834. Litlar líkur eru á að markvisst myndbrot helgra mynda hafi átt sér stað eftir siðaskipti og kaþólskar dýrlingamyndir og helgigripir hafa sennilega fremur gengið úr sér og hrörnað í tímans rás fremur en þeim hafi verið úthýst. Þó verður því ekki á móti mælt að dýrgripir úr góðmálmum voru fluttir utan til að mæta stríðsútgjöldum Danakonungs þegar þannig stóð á stríðsspori.

Heimilisguðrækni virtist ekki breytast mikið við siðaskipti. Hún þróaðist í aðalatriðum úr bænum kvölds og morgna auk sjö annarra bænastunda á dag yfir í kvöld- og morgunbænir til viðbótar við húslestur sem þróaðist í takt við aukið læsi. Eftir siðaskipti var ætlast til þess að fólk sækti sínar sóknarkirkjur þegar þar væri messað svipað og áður var. Áherslan í messunni færðist hins vegar úr dulúðlegri helgiathöfn þar sem fórn Krists var endurnýjuð í altarissakramentinu yfir í safnaðarguðsþjónustu með prédikun sem þungamiðju. Hlutverk prestsins færðist þá úr því að vera líturgískur helgiþjónn yfir að verða boðandi og fræðari. Guðsþjónustan færðist yfir á íslensku fyrst og fremst eftir að grettistaki var lyft í bókaútgáfu undir stjórn Guðbrands biskups Þorláksson, þ.e. Guðbrandsbiblíu 1584, sálmabókinni 1589 og messusöngsbókinni ,,Grallaranum“ 1594.

Félagsleg staða presta breyttist töluvert við siðaskipti. Á kaþólska tímanum virðist fjöldi presta hafa haldið fylgikonur þar sem kaupmáli var gerður líkt og um óvígða sambúð eða borgaralegt hjónaband væri að ræða. Prestsheimilið var því ekki nýjung á siðaskiptatímanum. Í lútherskum sið varð það hins vegar að formlegri og félagslegri stofnun. Um leið varð staða prestskonunnar öruggari og virðingarverðari. Þar með varð til nýtt kirkjulegt hlutverk fyrir konur; hin lútherska prestsfrú. Þegar frá leið siðaskiptum festi prestastéttin sig í sessi að nýju og öðlaðist sterka stöðu sem millilag í samfélaginu. Þá var kirkjan viðamikill þáttur í innviðum samfélagsins og prestarnir embættismenn hins opinbera út í dreifðum byggðum landsins.

Lútherskri siðbót hafa stundum verið eignaðir þættir sem ekki eiga þar heima. Eru það atriði sem rekja má fremur til siðaskipta, sem trúarpólitískrar þróunar eða siðbreytingar sem langvarandi menningarmótunar. Varðandi bæði þessi viðhengi siðbótarinnar verður að taka með í reikninginn vægi og þróun hins miðstýrða konungsríkis á siðbreytingartímanum. Ýmislegt sem þannig hefur verið tengt siðbót Lúthers ætti fremur heima undir þróun ríkisvalds. Stóridómur er dæmi um þetta en veraldlegir valdsmenn áttu þungavigtarþátt í samningu hans og fyrirmyndir sóttar til eins helsta verndara rómversk-kaþólsku kirkjunnar Karls V. Þýskalandskeisara. Því kom Stóridómur fremur fram til eflingar ríkisvalds í kjölfar siðaskipta en síður fyrir áhrif siðbótar.

Hér að ofan hefur verið stiklað á stóru varðandi áhrif siðbótar á íslenskt samfélag en  meðvitað ekki verið fjallað um kólnandi veðurfar, pestir, drepsóttir, eldgos og jarðskjálfta og annað sem hefur mikil áhrif á hagræna þætti í hverju samfélagi en telst tæplega til lútherskra áhrifa.

Loks skal hér skorað á dr. Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóra, að skrifa næsta pistil og gera þar sérstaklega grein fyrir þeirri hnignun, sem hann telur að hafi orðið í kjölfar siðaskipta og gerð er að umtalsefni á baksíðu nýútkominnar bókar hans Uppreisn Jóns Arasonar.

Áður birst í 44. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir