Áhrifavaldar á samfélagsmiðlum

Áskorandi Dagný Úlfarsdóttir Ytra-Hóli A-Hún
Samfélagsmiðlar eru furðulegt fyrirbæri sem hafa þróast mjög hratt undanfarin ár. Flest okkar þekkjum og notum miðla eins og Facebook, Snapchat, Twitter og Instagram. Þessir miðlar  eru frábærir hver á sinn hátt til ýmissa hluta. Flestir notendur þessara miðla fara þarna inn daglega og tíminn sem fer í slíka notkun er sífellt að verða meiri og meiri.  Notendur þessara miðla eru á öllum aldri. Þetta vita auglýsendur og hefur orðið sprenging í notkun þessara miðla til auglýsinga. Kostaðar auglýsingar eru áberandi á miðlunum en svo er líka mjög auðvelt að finna duldar auglýsingar. Oft er ekki augljóst hvort um auglýsingu er að ræða. Á Facebook og Snapchat er þetta t.d. að verða sífellt meira áberandi. Notendur þessa miðla eru á öllum aldri en ég ætla að leyfa mér að halda að unglingar landsins séu stór hluti notenda Snapchat hérlendis.

Fyrir nokkru skutu upp kollinum svokallaðir Áhrifavaldar.  Það eru samfélagsmiðlanotendur (sérstaklega á Snapchat) sem hafa atvinnu af því að auglýsa vörur og koma fram á viðburðum til að sýna sig og sjá aðra. Þessir áhrifavaldar hafa jafnvel tugþúsunda fylgjendur á öllum aldri og gerir það málið örlítið flóknara.  Þeir hafa jafnvel umboðsmenn sem koma þeim á framfæri og allt sem gert er, er auglýst á samfélagsmiðlunum. Of oft eru skilin milli auglýsingar og kynningar/umfjöllunar mjög óskýr og það er kannski sett í hendur okkar sem notenda þessa miðils að greina þarna á milli. Við erum misgóð í slíku og ég set spurningarmerki við slíkar umfjallanir/kynningar/auglýsingar sem beinast að börnum og unglingum, sérstaklega þar sem áfengi kemur við sögu.

Það er ekki að ástæðulausu sem þessi starfsgrein er kölluð Áhrifavaldar, þeir sem þar starfa hafa áhrif. Í mörgum tilfellum hafa þeir góð áhrif, fjalla um mikilvægi góðrar heilsu, hreyfingu og mataræði. En viljum við að þeir hafi neikvæð áhrif? Eiga þeir að auglýsa hvað sem er, þó það sé bara á Snapchat. Það finnst mér ekki og ég tel að það þurfi að gera með einhvers konar samkomulag í þjóðfélaginu um þetta. Hvort sem það er auglýsing um áfengi, þvottaefni, snyrtivörur eða fatnað, að þá þarf að liggja ljóst fyrir hver er markhópur auglýsingarinnar og hvar á að birta hana. Snapchat hentar ekki fyrir allt, þar eru jú börn og unglingar notendur og við fullorðna fólkið eigum að passa þau og leiðbeina þeim. Ég stórefa það að allir foreldrar séu að ritskoða Snaphcat hjá börnunum sínum og margir horfi því á efni sem þeim er ekki ætlað.

Snapchat er frábær miðill sem og aðrir samfélagsmiðlar en ég held að við þurfum að fara að taka okkur tak varðandi auglýsingar þar inni, bæði beinar og duldar. Því bið ég Áhrifavaldana að nýta sín áhrif til góðs.

Ég skora á Þóru Margréti Lúthersdóttur að koma með næsta pistil.

Áður birst í 1. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir