Alexandersflugvöllur á Sauðárkróki sem varaflugvöllur - Bjarni Jónsson skrifar

Treysta þarf stöðu Alexandersflugvallar á Sauðárkróki í grunnneti samgangna með því að skilgreina hann sem varaflugvöll og ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir og fjárfestingu í búnaði svo að flugvöllurinn geti orðið vottaður varaflugvöllur fyrir millilandavélar sem ekki geta lent á öðrum flugvöllum landsins. Í því skyni þarf að uppfæra mögulegt þjónustustig Alexandersflugvallar hvað varðar viðhald, aðstöðu, búnað, flug- og lendingaröryggi og viðbragðstíma gagnvart almennum lendingum og sjúkraflugi.

Í liðinni viku mælti ég á Alþingi fyrir þingsályktunartillögu um Alexandersflugvöll sem varaflugvöll.  Lengi hef ég haft þá skoðun að Alexandersflugvöllur sé hinn ákjósanlegasti kostur þegar litið er til varaflugvalla og lagði ég m.a. fram fyrirspurnir þess efnis á sínum tíma sem varaþingmaður NV kjördæmis. Flestum er ljós heppileg landfræðileg lega Alexandersflugvallar með tilliti til jarðhræringa og/eða eldgosa sem hamlað geta flugsamgöngum, en við höfum verið rækilega minnt á eldfjallavirkni í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og á Reykjanesi og þá áhættu sem það skapar fyrir millilandaflug á undanförnum árum.

Mikil þörf á varaflugvelli þar sem aðstæður til lendingar og flugtaks eru sem bestar, ekki mjög fjarri Keflavíkurflugvelli og einnig flugvellinum á Akureyri og ljóst að aðrir flugvellir uppfylla þau skilyrði ekki eins vel. Alexandersflugvöllur á Sauðárkróki er aðeins 120 km frá Akureyri. Á milli Sauðárkróks og Reykjavíkur eru um 295 km. Milli Akureyrar og Reykjavíkur eru um 390 km, milli Reykjavíkur og Egilsstaða um 650 km og milli Akureyrar og Egilsstaða um 265 km. Það er því töluverður munur á vegalengdum og ferðatíma á milli Egilsstaða og Reykjavíkur annars vegar og Sauðárkróks og Reykjavíkur hins vegar.

Í gögnum frá Vegagerðinni frá árinu 2019 kemur fram að þjóðvegurinn frá Sauðárkróki til Reykjavíkur hafi aðeins verið lokaður í 0,7 daga á ári frá árinu 2011 en á sama tíma hafi þjóðvegurinn frá Egilsstöðum til Reykjavíkur lokast í 2,5 daga á ári á syðri leiðinni en 9,7 daga ef norðurleið var farin. En færð á vegum hlýtur að teljast mikilvæg í þessu samhengi. Flugvöllurinn sjálfur er vel staðsettur þar sem aðflug er gott, fjörðurinn víður og lítið um hindranir. Flugvöllurinn vísar í norður og suður, sem eru einnig ríkjandi vindáttir í Skagafirði, og þá er staðsetning vallarins hagstæð með tilliti til snjóa og álags á flugbrautum.

Öryggi samgangna þarf að tryggja með sem bestum hætti, hvort sem um er að ræða samgöngur á jörðu, sjó eða í lofti. Nú eru fjórir meginflugvellir á Íslandi, Reykjavíkurflugvöllur, Keflavíkurflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur og Akureyrarflugvöllur. Þessir flugvellir gegna allir mikilvægu hlutverki í samgöngum innan lands og milli landa sem farþega- og vöruflutningavellir og sem öryggistæki. Einsýnt er að verulegur ávinningur yrði af uppbyggingu við Alexandersflugvöll og ljóst að slíkur flugvöllur muni þjóna landinu öllu vel sem varaflugvöllur.

Bjarni Jónsson
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna í NV kjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir