Algjör draumur að fá að spila fyrir landið sitt - Íþróttagarpurinn

Landsliðsbúningur Íslands fer Jóni Gísla afskaplega vel og vonandi eigum við eftir að sjá hann keppa fyrir Íslands hönd í framtíðinni. Mynd af FB.
Landsliðsbúningur Íslands fer Jóni Gísla afskaplega vel og vonandi eigum við eftir að sjá hann keppa fyrir Íslands hönd í framtíðinni. Mynd af FB.

Jón Gísli Eyland Gíslason hefur vakið mikla athygli fyrir hæfileika sína á knattspyrnuvellinum og náði að sanna sig, þrátt fyrir ungan aldur, sem meistaraflokksleikmann hjá Tindastóli en hann spilar sem hægri bakvörður. Jón Gísli, sem er á 16. aldursári, er enn skráður leikmaður í 3. flokki og er, eins og gefur að skilja, lykilmaður þar. Þá hefur hann verið leikið átta U17 landsleiki frá því í haust, fyrst í undankeppni EM og nú í janúar í umspili fyrir sömu keppni. Jón Gísli er Íþróttagarpur Feykis að þessu sinni.

 Árgangur: -Fæddur árið 2002.

 Hvar ólstu upp? -Ég er alinn upp á Sauðárkróki.

 Hverra manna ertu? -Ég er sonur Ingunnar Ástu Jónsdóttur og Gísla Eyland Sveinssonar.

 Íþróttagrein: -Knattspyrna og svo hef ég alveg gaman af því að leika mér í körfubolta.

 Íþróttafélag: -Tindastóll.

 Helstu íþróttaafrek: -Helsta afrekið er þegar ég spilaði minn fyrsta meistaraflokksleik og fyrsta landsleik mundi ég segja.

 Skemmtilegasta augnablikið: -Þegar ég var að labba inn á völlinn í mínum fyrsta landsleik fyrir U17 og heyra þjóðsönginn. Það var algjör draumur og að fá að spila fyrir landið sitt.

 Neyðarlegasta atvikið: -Það var frekar neyðarlegt þegar ég náði að klobba pabba þrisvar sinnum í reitabolta á meistaraflokksæfingu, þá 14 ára.

 Einhver sérviska eða hjátrú? -Já, ég borða alltaf það sama fyrir leikdag, kjúklingapasta og fyrir leiki þá klæði ég mig alltaf fyrst í vinstri sokkinn og vinstri legghlífina.

 Uppáhalds íþróttamaður? -Gylfi Sigurðsson er minn uppáhaldsleikmaður því að mér finnst hann vera góð fyrirmynd, góður leikmaður, sem leggur mikið á sig.

Ef þú mættir velja þér andstæðing, hver myndi það vera og í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur? -Lionel Messi í fótbolta því mig langar að fá að vita hversu erfiður hann er.

Hvernig myndir þú lýsa þeirri rimmu? -Þegar hann er búinn að sóla mig fjórum sinnum upp úr skónum og í þá aftur, þá dúndra ég hann niður!

Helsta afrek fyrir utan íþróttirnar? -Að hafa sigrast á kvíðanum sem ég hef glímt við síðustu fimm ár.

Lífsmottó: -Winners never quit but quiters never win!

Helsta fyrirmynd í lífinu: -Pabbi, Gísli, er fyrirmyndin mín í lífinu. Hann er gaurinn sem hefur ýtt mér áfram til að verða betri og hvert ég ætla mér. Það er mér mjög mikilvægt að getað talað við hann um allt hvað ég get gert betur, hvað ég gerði vel. Pabbi er mjög rólegur og yfirvegaður og það er mjög gott að hann haldi mér á mottunni þegar ég fer (stundum) hátt upp.

Hvað er verið að gera þessa dagana? -Æfa eins og brjálæðingur.

Hvað er framundan? -Undirbúa mig fyrir næstu átök í fótboltanum.

Áður birst í 8. tbl. Feykis 2018.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir