Allt í rusli í Skagafirði?

Ýmislegt hefur áunnist í endurvinnslumálum síðustu áratugi. Flokka á Sauðárkróki hefur verið miðstöð endurvinnslu fyrir okkur Skagfirðinga síðan starfsemi hófst árið 2008. Stefna Flokku vegna endurvinnslu er skýr; við flokkum til að halda umhverfi okkar hreinu, til að fullnýta efnivið, spara orku, „draga úr sorpi og ruslahaugum úti í náttúrunni [...] til að auka líkurnar á því að við getum skilað komandi kynslóðum jörð sem er enn lifandi, rík af auðlindum og velmeð farin” (af heimasíðu Flokku).

Hér eru göfug markmið á ferð. Ef unnið væri að þeim markvisst með sorphirðu værum við sannarlega vel sett, en raunveruleiki er sannarlega ekki í takt við markmiðið. Nú er rúmur áratugur síðan endurvinnslustöðin var tekin í notkun og sorphirðu í þéttbýli hefur fleytt fram, en dreifbýlið hefur af einhverjum ástæðum orðið alveg eftir í þessum málaflokki (að undanskildri hirðingu á rúlluplasti og hræjum).

Nú er gámurinn- ég meina mælirinn, fullur!
Íbúum í dreifbýlinu er ætlað að nota gámasvæðin í sínu nærumhverfi eða gera sér ferð til Sauðárkróks og nýta sér aðstöðuna þar. Raunveruleikinn er þó sá að skynsamlega hönnuð og aðgengileg gámasvæði finnast gott sem hvergi í Skagafirði nema á Sauðárkróki. Skipulag svæðanna, stærð og/eða fjöldi gámanna miðað við íbúafjölda og merkingar þeirra er víðast hvar mjög ábótavant. Þá er víða ekki boðið upp á fullnægjandi flokkun. Eins og staðan er í dag eru ruslagámar oft á tíðum yfirfullir og bið eftir að þeir eru tæmdir þannig að sorp flæðir ýmist upp úr þeim eða er skilið eftir við gámana. Þurfi fólk að leggja upp í langferð til að skila af sér sorpi, er ljóst að hvorugur kosturinn er sérstaklega aðlaðandi eða hagkvæmur fyrir íbúa.

Íbúar sveitafélagsins borga fyrir sorphirðu (sjá Gjaldskrá á heimasíðu Sveitarfélagsins). Þetta gildir bæði um íbúa í þéttbýli og dreifbýli. Það er óforsvaranlegt að íbúar í dreifbýlinu borgi fyrir sorphirðu en fái hvorki sæmilega aðstöðu né aðstoð við að standa sómasamlega að frágangi.

Meirihluti sveitarstjórnar hefur verið aðgerðalítill í umhverfismálum og hefur verið fátt tíðinda af þeirra hálfu í umhverfis- og samgöngunefnd. Umbætur í sorphirðu og flokkun hefur rekið nokkuð á reiðanum síðustu ár og hefur ástand farið hratt versnandi. Samningar við ÓK gámaþjónustu hafa t.d. verið lausir frá því í haust. Nú rétt fyrir kosningar er að sjá einhverja hreyfingu í fyrirhuguðum lagfæringum á gámasvæðum, þó enn sé bið eftir að framkvæmdir verði að veruleika. Hætt er við að málin sofni aftur ef ekki verða breytingar á stjórn Sveitarfélagsins. Þá má í framhaldinu spyrja: hvað með öll hin gámasvæðin? Verður biðin eftir úrbótum á öðrum gámasvæðum í Skagafirði annar áratugur eða tveir? Þetta þolir enga bið.

Hvað er til ráða?
Endurvinnslumál eru sameiginlegt verkefni íbúa og sveitarstjórnar. Ábyrgð íbúa felst í að ganga um gámasvæði af virðingu og samviskusemi. Ábyrgð kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn felst í að útbúa gámasvæði sem bjóða upp á að gengið sé vel um þau og að sjá til þess að sorphirða sé ásættanleg. Þessi vegferð verður að hefjast hjá sveitarfélaginu. Þörf er á að setja saman langtímaáætlun og vinna markvisst að endurbótum um allt héraðið.

Húsgögn eru ekki endurunnin í Skagafirði. Þeim húsgögnum sem skilað er til Flokku eða eru skilin eftir við gámana eru urðuð. Hvergi er boðið uppá að húsgögn séu hýst. Hér væri hægt að leggja til að settur væri yfirbyggður gámur þar sem fólk gæti stungið húsgögnum í, svo þau væru varin fyrir veðri. Húsgögnin mætti eflaust nýta á einhvern hátt eða gefa til framhaldslífs.

Nú hefur einnig borið á því að talsverð bið er eftir að ónýtir bílar og annað stórvægilegt sé fjarlægt að ósk íbúa. Til að aðstoða íbúa frekar væri hægt að efla samstarf milli sveitarfélags, sorphirðuverktaka og endurvinnslustöðvar. Hægt væri að vinna með íbúum að áætlanagerð, þ.e. efla samstarf við þá sem málin varða, og ganga skipulega til verks.

Ég vill beita mér fyrir því að gámasvæðin, sorphirða og endurvinnsla verði okkur Skagfirðingum til sóma. Ég hlakka til að sjá þjónustu við dreifbýlið aukið, með bættri aðstöðu víðsvegar um Skagafjörð.

Inga Katrín D. Magnúsdóttir

Höfundur skipar 6. sæti á lista VG og Óháðra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir