Áskorun tekið!

Ég veit ekki hvað fékk Daníel Þór, þennan unga og efnilega mann til að skora á gamla kallinn mig að rita ykkur pistilinn. En svona fór það nú bara og þið lesendur góðir verðið bara að fletta áfram ef ykkur hugnast ekki að lesa lengra. Djók - Eftirfarandi er beinlínis skyldulesning!

Það sem mér datt helst í hug að skrifa um er mikilvægi samstöðu og einingar íbúa í litlum samfélögum, sem er, að mér finnst lykillinn að eftirsóknarverðu samfélagi til að búa í.

Nærtækast mér er að sjálfsögðu hið dásamlega Húnaþing vestra, sem er að öðrum svæðum ólöstuðum; best í heimi er kemur að fórnfýsi og jafnvel uppátækjasemi íbúa til að halda uppi stuðinu í héraðinu. Það er hreint með ólíkindum hve margir hafa í gegn um árin verið tilbúnir að leggja sitt á vogarskálarnar til að hafa gaman og að halda uppi býsna fjölbreyttu og öflugu menningarlífi, án þess (í langflestum tilfellum) að þiggja annað fyrir en bros og kannski klapp á bak.

Allt í nafni þess að hafa gaman saman.

Eins og jafnan gerist, hvort sem er í vélhjólaklúbbum, skemmtinefndum, á kennarastofum, í íþróttafélögum, hljómsveitum og kvenfélögum, er tilhneigingin sú að hægt og rólega færist fjörið yfir á færri herðar og það verður „bara þægilegt“ fyrir hina að sitja á kantinum og bíða eftir næsta „giggi“.

Þetta er eins óumflýjanlegt og skiljanlegt og að Gummi á Ósi týni símanum sínum reglulega, því sumt er bara illa við ráðið!

Það er auðvelt fyrir mig að standa fyrir utan og æpa og biðja um aukalag, eins og það er jafn erfitt að standa í sömu fjarlægð og horfa upp á fækkandi herðar sem nenna að standa í (og/eða geta staðið í) brasinu við að snúa maskínunni og telja í “eitt lag enn” , því það er óendanlega óeigingjarnt starf og krefst fórna að standa í slíku brasi, jafnvel ár eftir ár.

En, elskurnar mínar, það er ekkert eins auðvelt og að sleppa beislinu og henda sér út í óvissuna í eitt augnablik- og segja bara „já- ég er til“.

Eins og  Elísabet Sif Gísladóttir negldi naglann svo lóðbeint í höfuðið með þessum orðum, hér í þessum sama dálki fyrir fáeinum vikum síðan: „Þú þarft ekki nema örfáar sekúndur af hugrekki til að taka ákvörðun um að gera eitthvað nýtt“.

Þessi orð draga saman það sem mér hefur þótt íbúar Húnaþings vestra hafa (jafnvel ómeðvitað) haft að leiðarljósi undanfarin ár.

Lifum lífinu lifandi, blindfull af áræðni og meðvitund um mikilvægi menningar.

 

Ég skora á Kristínu Guðmundsdóttur stórsnilling að hræra í næsta pistil.

Áður birst í 31. tbl. Feykis 2017

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir