Áskorun um skrif :: Áskorandapenninn - Rúnar Örn Guðmundsson bóndi á Síðu A-Hún.

Satt er það, að ekki leyst mér á þá áskorun Viktoríu frænku minnar um að skrifa orð í Feyki, og hugmyndin um hvað skyldi skrifa hvergi sjáanleg. En ekki fer ég nú að láta það hefta för mína, og var ósjálfrátt búinn að samþykkja þessa aðför að mér áður en ég vissi af.

Til að byrja þessi skrif (hugmyndalaus) hef ég ákveðið að fara aðeins inn á nýlega yfirstaðna sameiningu Húnavatnshrepps og Blönduóss í fáum orðum. Ég hef verið hlynntur sameiningu í mjög langan tíma og verið á þeirri skoðun að losna þurfi við allt neikvætt umtal um náungann og hans störf, af nægu er að taka og svolítið ríkjandi að finna frekar að en hrósa fyrir það sem vel er gert ( allt A-Hún ). Gaman hefði verið að hafa Skagabyggð og Skagaströnd með en þau sem það vildu, náðu ekki brautargengi og þurftu að lúta í lægra haldi fyrir þeim sem höfnuðu.

Litlu munaði í Skagabyggð og hefur maður heyrt getgátur um að flestir þeir sem höfnuðu, vilji lítið eða ekkert koma að rekstri eða stjórn sveitarfélagsins. Ekki veit ég. Meiru munaði á Skagaströnd en eftir að ryk hefur sest og lífið heldur áfram, hefur maður heyrt að ansi margir nagi sig í handarbökin og jafnvel sjái pínulítið eftir því að hafa hafnað. En hvað veit maður, vonandi farnast öllum sem best í sínu. Við vorum að mínu mati mjög heppin með nýjan sveitastjóra sem vonandi farnast vel í starfi.

Ég held ég þurfi nú ekki að fara að rausa í fólki sem les Feyki muninn á því að búa úti á landi eða á höfuðborgarsvæðinu, en það er nú samt svolítið gaman að koma aðeins inn á þessi fríðindi sem við búum við, því við þurfum jú oft að minna okkur á hvað við höfum það gott og erum oft á tíðum svo frjáls og fljót í förum. Ég til dæmis búandi í A-Hún sæki af og til þjónustu á Sauðárkrók og er bara líklega í mörgum tilfellum fljótari þangað heldur en tekur að fara frá Reykjavík til Hafnarfjarðar/Mosfellsbæ.

Það er margt sem við á þessum litlu stöðum úti á landi fáum í verslunum í okkar heimabæ, en alls ekki allt og þá fæst það með hverskyns pöntunum annars staðar frá og í flestum tilfellum í höfuðborginni. Það sem hins vegar mörgum hættir til að gleyma, er að kanna stöðuna í sínu nærumhverfi því þar getur einmitt verið til það sem uppá vantaði og oft ekkert endilega dýrara. Sjálfur leita ég töluvert eftir aðföngum frá Sauðárkróki sem ég ekki fæ á Blönduósi og finnst að fleiri ættu að gera það líka, því það eykur líkurnar á því að hægt sé að bjóða upp á vörur á viðráðanlegu verði og hægt að eiga á lager.

Það sem ég kom inná varðandi aukin viðskipti, um verð og framboð á því miður ekki alltaf við. En þó ég hafi ákveðið að reyna að vera ekki mjög neikvæður verð ég aðeins að koma því frá mér hvað við erum að verða ólánsöm með Kjörbúðina hérna á Blönduósi. Hún er í mörgum tilfellum mjög dýr og dagvörur á tíðum ekki fáanlegar. Þetta ætti ekki að þurfa að gerast þar sem gríðarlegur fjöldi ferðamanna á ársgrundvelli stoppar þarna og verslar. Þarna kemur Skagfirðingabúð mun betur út að mér skilst því þar fæst nú flest allur fjandinn er mér sagt og verðið mun skárra, en ekki sendum við ferðamanninn sem prikar hérna í gegn þangað, eða hvað?

Sjálfur fer ég nú helst aldrei í búð og verð því að styðjast við frásagnir að hluta en ég lendi mjög oft í að borga og þar finn ég mun. Annars erum við nú lagerfólk á mínum bæ og þyrftum sjálfsagt alls ekki eins oft í búðina og farið er. Hefðum líklega átt auðveldar hlutfallslega með að fóðra strandaglópa en raunin varð á Keflavíkurvelli fyrir stuttu.

Ég er bóndi, þjónusta bændur, og reyni að sinna sjúkraflutningum eftir þörfum ásamt ýmsum öðrum verkefnum sem oft verða að fleirum en upphaflega stóð til að taka að sér. Hef oft þótt yfirdrifinn í því sem mér dettur í hug (ótakmarkaðar hugmyndir) og veit fátt verra en annars flokks hugsun í lífinu öllu. Það tekur jú yfirleitt jafn langan tíma að gera vel og illa í flestu.

Göngur og réttir eru stórir viðburðir á mínu heimili og má segja að um nokkurs konar árshátíð búsins sé að ræða og mikið gert úr, er mannmargt á bænum á þeim tímum og engu til sparað í vellystingum og skemmtun. Kemur fólk af Suðurlandi og Eyjafjarðarsvæðinu, ásamt heimafólki sem og öðrum velunnurum, saman til þessa hátíða. Oft hefur heyrst að ekki gangi nægjanlega vel að manna göngur á bæjum og kann ég ágætis ráð handa þeim kollegum mínum.

Ég gæti skrifað mjög mörg orð um flugvöllinn á Blönduósi fyrst ég nefndi sjúkraflutninga, brýna þörf hans og tilverurétt. En þá gæti ég einnig leiðst út í ljót orð og jafnvel sum hver sem venjulegt fólk hefur ekki heyrt áður, svo ég hægi á mér. Mér er málið hugleikið til langs tíma, verið viðloðandi sjúkraflutninga á Blönduósi í um 15 ár. Ég veit að það tekur mun styttri tíma fyrir flugvél að koma frá Akureyri til Blönduóss, heldur en þyrlu frá Reykjavík eftir að báðar eru komnar í loftið. Flugvélin er fljótari til Reykjavíkur, mörgum sinnum minni hávaði fyrir sjúklinginn, og mér er sagt að kostnaður við flugvél sé helmingur af kostnaði við þyrluflug. Svo er flugvélin jafnþrýst en þyrlan ekki.

Þyrla er frábært björgunartæki og við værum illa sett án hennar, en flugvélin er það einnig og oft á tíðum betri á stað sem Blönduós þegar hún fæst á staðinn. Tíminn sem tekur að keyra sjúkling til Sauðárkróks í flug, er betur varið í að keyra til móts við þyrlu suður ef um þann alvarleika er að ræða. Gallinn er sá að oft hefur ekki komið í ljós fyrr en of seint að vakthafandi flugmenn treysta sér ekki, eða vilja ekki af einhverjum orsökum lenda á Blönduósi og þá er of seint að hætta við. Það eru flugmenn hvers flugs sem ráða hvar er lent.

Ég hef svolitla skoðun á stýringu landsins og finnst að þar megi gera betur. Upp til hópa er þetta eflaust ágætis fólk sem vill öllum og landinu vel, en hefur því miður að mér virðist tæpa getu til. Allt of mikið er um eitthvert þras og kjaftæði sem engum er til gagns og bara til þess fallið að fólk missir trú á hinum ýmsum málsstað. Mér finnst að banna ætti gersamlega með öllu þetta takmarkalausa flæði upplýsinga í fjölmiðla, þar til mál eru afgreidd og niðurstaða kynnt. Mér finnst margt þessa fólks algerlega búið að tapa virðingu almennings með tómu rugli og málþófi þar sem engin virðing er borin fyrir málsstaðnum eða því starfi sem það var kosið til.

Mér finnst einnig í alvörunni að þetta fólk sem kosið er til þess að stýra þessu landi og þjóð, geti bara alveg drullast til þess að vera í jakkafötum með bindi og í kjólum, eftir kyni. Því það Á að vera munur á þeim sem stjórna landinu og þeim almenna borgara sem gerir það ekki. Ef þetta fólk getur ekki hundskast til þessa, finnst mér það einfaldlega ekkert hafa inn í ráðahús landsins að gera. Fólk sem mætir í peysu eða stendur í pontu, gjammandi hálf skammyrt einhverja þvælu, jafnvel með jakkann á handleggnum ætti umsvifalaust að vísa á dyr og skrá fjarverandi (til launalækkunar). Það er einnig galið að hver sem með, tárum eða annars konar brögðum kemur sér í hóp þessa 63 aðila sem stjórna, kemst upp með að standa hálfpartinn á orginu aftur og aftur eins og frekur krakki, skammandi allt og alla, skuli ekki vera gert að hundskast heim til sín og koma bara aftur á morgun (launalaus á meðan).

Virðing fyrir náunganum og sér eldri fer virkilega aftur í landinu og bara almenn virðing einnig og hefur gert um of langa hríð. Þarna í ríkisstjórninni skulum við byrja, og innleiða svo í fólkið í landinu. Flestum ef ekki öllum gengi betur í sínum störfum ef vinnufriður fengist. Vinstri sinnuðum líka. Ég hef verið á þeirri skoðun að fækka eigi ráðamönnum um allavega helming sem fengju til viðbótar laun hinna. Þá kannski gæfu kost á sér, fleiri alvöru einstaklingar til að stjórna. Í dag hafa þeir það mikið betra í öðrum störfum og gefa því ekki kost á sér.

Jæja, þetta var nú ekkert sérvalið efni, heldur frekar pælingar líðandi stundar svo ég gæti haldið endalaust áfram en læt staðar numið.
Ég skora á Jón Kristófer á Hæli að koma með næstu orð.

Góðar stundir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir