Atkvæðið þitt.

Oft var þörf, en ef einhvern tímann hefur verið lífsnauðsynlegt að kjósa, þá er það hinn  25. apríl næstkomandi. Ef einhvern tímann hefur verið nauðsynlegt að skila ekki auðum kjörseðli í kjörkassann þá er það 25. apríl næstkomandi. Ef einhvern tímann hefur verið möguleiki á því að gefa til kynna óánægju okkar með ástand mála, þá verður það 25. apríl næstkomandi.

Það er ekki hollt að hafa sama stjórnmálaflokk við völd í 18 ár. Það er ekki hollt fyrir okkur og það er ekki hollt fyrir þennan stjórnmálaflokk. Það er engum hollt að vera settur í þá aðstöðu að „eiga“ embætti. Við í Borgarahreyfingunni leggjum til að ekki verði hægt að sitja á þingi lengur en tvö kjörtímabil samfleytt til þess einmitt að hlífa þingmönnum við þeirri stöðu að festast á Alþingi. Allir hafa gott af því að komast í snertingu við „atvinnulífið“ til þess að láta reyna á afleiðingar þeirra ákvarðana sem teknar eru á þingi.

Þangað til að þessi tilhögun verður að lögum getum við kjósendur séð til þess að nýtt fólk komist inn á þing enda virðist það ekki vera trygging fyrir góðri stjórnsýslu að hafa sömu þingmenn ár eftir ár á Alþingi. Þeir virðast sofna á vaktinni, eins og best sést á atburðum síðustu ára og afleiðingum þeirra.

Borgarahreyfingin er barn okkar tíma og þegar ég ákvað að fara í framboð var það vegna þess að ég vil nota krafta mína, með hjálp allra þeirra sem hana skipa, til þess að tryggja að þær breytingar sem ég tel nauðsynlegar fyrir þjóðina nái í gegn á þingi. Við erum búin að fá okkur fullsödd á fólki sem virðist hafa haft eigin hagsmuni í fyrirrúmi, frekar en fólksins í landinu. Við erum venjulegt fólk sem höfum tekið þá ákvörðun að láta í okkur heyrast og teljum að besta leiðin til þess sé á Alþingi okkar.

Ábyrgð þeirra sem munu komast á þing í næstu kosningum verður meiri en nokkurn tíman fyrr. Þær ákvarðanir sem verða teknar eiga eftir að hafa afleiðingar á næstu kynslóðir til hins betra eða verra.

Stöndum vörðinn, upplýsum alla landsmenn um þær ákvarðanir sem verða teknar, leynum engu, við eigum skilið að fá að vita hvað bíður okkar.

Ég er í framboði í 2. sæti í NV- kjördæmi fyrir Borgarahreyfinguna. Kjóstu okkur, fyrir þig ! XO – Borgarahreyfingin – þjóðin á þing.

Lilja Skaftadóttir

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir