Auðlindin til sveita - Grímur Atlason skrifar

Grímur Atlason

Á fjárlögum síðasta árs var vísitölutenging niðurgreiðslna til bænda afnumin. Það var afskaplega vond ákvörðun og lýsti í raun þekkingarleysi á stöðu og mikilvægi landbúnaðarins. Þetta þurfti í sjálfu sér ekki að koma á óvart þar sem að hugmyndafræði stjórnvalda mörg undanfarin ár hefur snúist um eitthvað allt annað en undirstöðugreinar atvinnulífs á Íslandi.

 

 

 

Þessi afstaða náði hámarki á árunum 2002 til 2007 en þá fengu margir þá flugu í höfuðið að sjávarútvegur væri 4. flokks útflutningsgrein og landbúnað mætti jafnvel hætta að stunda á Íslandi. Röfl um að bændur væru baggi á þjóðarbúinu og ölmusulið mátti greina í kaffihúsaspjalli, í þingsölum og í fjölmiðlum.

Að afnema vísitölutenginguna og þannig velta verðhækkunum yfir á neytendur og jafnframt hækka verðbólguna er óskiljanlegt í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi voru.  Beingreiðslur og niðurgreiðslur verður að skoða fyrir hvað þær eru – þær eru niðurgreiðslur á vörum til neytenda. Upphrópanir um að innflutningur matvöru sé lausn allra mála standast ekki nánari skoðun. Landbúnaðarafurðir út um allan heim njóta sambærilegra styrkja og hér og ívið meiri á mörgum stöðum. Það er þannig í rauninni verið að niðurgreiða vörur til neytenda út um allt land – og aftur: þessu er ekki öðruvísi farið í t.d. Evrópusambandinu. Ákvörðun íslenskra stjórnvalda var þannig beinlínis verðbólguhvetjandi.

 

Núverandi landbúnaðarráðherra hefur verið að skoða stöðu bænda í tengslum við þessa misráðnu ákvörðun. Menn verða að átta sig á hversu gríðarlega mikilvæg matvælaframleiðsla er í landinu í dag. Bændur hafa staðið veikt í mörg ár. Þeir hafa búið við kreppu mun lengur en frá því í október 2008. Aðföng hafa hækkað gríðarlega eins og hjá öðrum en í ljósi erfiðrar stöðu vigtar sú hækkun meira hjá bændum en mörgum öðrum.

Auðvitað verður að viðurkenna að miðstýrt kvótakerfi og undarlega saman skrúfað beingreiðslukerfi er ekki til að bæta stöðuna og er gríðarlega mikilvægt að endurskoða kerfið frá grunni. Það er reyndar svo að bankakerfið græðir mest, því beingreiðslurnar fara gjarnan í afborganir á kvótanum.

Bregði bændur búi er hætt við keðjuverkun sem ómögulegt er að sjá fyrir endann á. Þjónustukjarnar, matvöruverslanir, mjólkurbú, sláturhús, kjötvinnslur, innflytjendur, útflytjendur o.fl. gætu þurft að draga verulega saman. Þetta snýst ekki bara um byggð í landinu – bændur hafa áhrif á verslun, viðskipti og þannig störf út um allt land, líka í höfuðborginni. 

 

Þessa mynd verður að skoða í heild sinni. Með rétta menn í brúnni og endurskoðað almenningsálit erum við loksins aftur á réttri leið eftir áratug(i) í eyðimörk frjálshyggjunnar...

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir