Ávarp Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur í tilefni opnunar sýningarinnar Á söguslóð Þórðar kakala

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir hlustar af athygli á sagnameistarann og Sturlungasérfræðinginn Sigurð Hansen útskýra söguna sem eitt listaverkið túlkar á sýningunni Á sagnaslóð Þórðar kakala. Mynd: PF.
Þórdís Kolbrún Gylfadóttir hlustar af athygli á sagnameistarann og Sturlungasérfræðinginn Sigurð Hansen útskýra söguna sem eitt listaverkið túlkar á sýningunni Á sagnaslóð Þórðar kakala. Mynd: PF.

Forseti Íslands, sæmdarhjónin Sigurður Hansen og María Guðmundsdóttir, og aðrir góðir gestir jafnt úr goðorðum Ásbirninga, Sturlunga, Haukdælinga og annars staðar frá af landinu. Það var fyrir 120 dögum – og 773 árum betur – að hér við Haugsnes var háð mesta orusta Íslandssögunnar, þar sem að Ásbirningar undir forystu Brands Kolbeinssonar lutu í lægra haldi fyrir liði Þórðar Kakala af ætt Sturlunga, sem fyrir vikið náði yfirráðum yfir Norðurlandi öllu. Þetta var hörð orusta og óvægin þar sem um eitt þúsund og þrjú hundruð menn börðust svo hatramlega að vel rúmlega eitt hundrað þeirra féllu í valinn.

Ég skal viðurkenna, að þegar að ég áttaði mig á stærðargráðu orustunnar - og því að það voru vandfundnir þeir einstaklingar á Íslandi sem ekki tengdust bardaganum með einum eða öðrum hætti – að þá fór kaldur sviti um dómsmálaráðherrann, þegar ég hugsaði til þess ef álitamál af viðlíka stærðargráðu kæmi upp í dag. Ég efa að við gætum fundið einn einasta óvilhalla dómara sem teldist uppfylla hæfiskröfur dagsins í dag sökum fjölskyldutengsla, vináttu, hagsmunaárekstra eða annarra tengsla við málsaðila.

Þessir órar dómsmálaráðherrans voru þó fljótir að víkja fyrir gleði og stolti ferðamála- og nýsköpunarráðherrans yfir þessu magnaða framtaki og frumkvæði Sigurðar Hansen og allra þeirra sem lagt hafa honum lið.

Af mannanna verkum þá er líklega ekkert sem hefur haldið merki Íslands hærra á lofti í samfélagi þjóðanna en íslenskar bókmenntir. Gullöld íslenskrar ritlistar var 13. öldin en þá voru flestar Íslendingasögurnar skráðar á skinn sem og sögur af Noregskonungum, Norrænni goðafræði, fyrstu landnámsmönnunum, lögbækur sem enn er stuðst við í íslenskum rétti að ógleymdri sjálfri Sturlunga-sögu þar sem að Sturla, frændi Þórðar kakala, segir frá þeim miklu og hörðu samtímaatburðum sem jafnan eru kenndir við Sturlungaöld og leiddu að lokum til Gamla sáttmála þar sem að Íslendingar gerðust þegnar Noregskonungs.
Þessar bókmenntir hafa alla tíð verið veigamikill hluti af sjálfsmynd okkar Íslendinga – og úti í hinum stóra heimi erum við þekkt sem sögueyjan.

Það sem er kannski mikilvægast af öllu, er að þessi bókmenntaarfur lifir góðu lífi í hjörtum okkar og skiptir okkur enn þann dag í dag alvöru máli. Hann segir okkur hvaðan við komum og úr hvaða efni við erum gerð.

Þess vegna er Kakalaskáli og framtak Sigurðar Hansen svona dýrmætt. Hann gefur okkur tækifæri og tilefni til að endurupplifa söguna, fræðast og kveikja forvitni.

Og sannarlega kviknar á öllum skynfærum þegar maður gengur hér um glæsilegt sýningarsvæðið. Hér er teflt saman staðreyndum þar sem sagan er sögð með berum orðum - og listaverkum sem gefa ímyndunarafli hvers og eins lausan tauminn. Það er hreinlega magnað til þess að vita að það alþjóðlega herútboð sem Sigurður og listamaðurinn Jón Adolf sendu út á meðal listamanna um heim allan hafi fengið jafn miklar og góðar undirtektir og raun ber vitni - og við fáum að njóta hér á sýningunni.

Þá var nú annað hlutskipti Þórðar kakala fyrst eftir að hann kom til Íslands frá Noregi árið 1242 og leitaði eftir liðsinni til að rétta hlut ættarinnar – þá var hann varla virtur viðlits og fáir sem treystu sér til að ganga í lið með honum.

En eins og sagan sannar þá var Þórður kakali ekki þeirrar gerðar að hann gæfist upp við fyrstu hindrun - og mikið dæmalaust sem lýsingin sem ég rakst á af honum á einnig vel við um Sigurð Hansen: Þórður kakali var maður baráttunnar, naut hennar, og var mestur þegar hún var sem erfiðust og hann virðist ekki hafa þolað aðgerðaleysi.

Stíll Sturlungu og Íslendingasagna er jafnan knappur og sjaldnast hlaðinn tilfinningasemi - og í anda þess þá held ég að við getum öll verið sammála um þá mannlýsingu að Sigurður Hansen er ekki illa haldin af aðgerðaleysi. Það að hafa hugmyndaflug, úthald og kraft til að byggja upp jafn glæsilegt safn og raun ber vitni tekur af öll tvímæli um það.

Kakalaskáli mun um langa tíð halda á lofti nöfnum fóstbræðranna, Þórðar kakala og Sigurðar Hansen – því eins og alkunna er, þá deyr orðstír aldrei þeim er sér góðan getur.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir
dómsmálaráðherra
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir