Borðspil - Majesty: For the Realm

Majesty: For the Realm er nýlegt tveggja til fjögurra manna spil Þar sem leikmenn eru að byggja upp sitt konungsdæmi í samkeppni við konungsdæmi hinna leikmannana. Leikmenn nota peð til kaupa persónur til að vinna fyrir sig. bruggari, verti, bakari og hefðarfólk er meðal þeirra sem leikmaður kaupir til sín. Hver leikur tekur 20 til 40 mínútur.
Hannað af Marc André og myndskreytt af Anne Heidsieck, Majesty: For the Realm kom út 2017 og hefur verið tilnefnt til fjölda verðlauna og vann Vuoden Peli Family Game of the Year árið 2018. Kassinn fyrir spilið er frekar stór miðað við innihaldið og plássið í honum gefur til kynna að mögulega hafi átt að gefa út einhverja aukapakka fyrir spilið. Þar sem engin aukapakki hefur komið út enn, verður að teljast ólíklegt að það gerist héðan af.

Spilið spilast þannig að allir spilarar fá bæjarspil, útdeilt er af handahófi, og sá sem fær bæjarspilið með riddaranum með rauða flaggið byrjar leikinn. Á bæjarspilið eru sett fimm peð. Allir leikmenn fá líka ríkisspil sem eru byggingarnar í í ríkinu. Í þessar byggingar setur leikmaður borgarana sína til að virkja þær og fá þannig stig. Því næst er búinn til stokkur úr tvennskonar borgaraspilum og sex efstu spilin dregin og lögð á borðið þannig að borgararnir á þeim sjáist, stokkurinn er svo settur vinstra megin við spilin.
Leikmenn skiptast svo á að taka einn af þessum borgurum og setja hann í viðeigandi byggingu, við það virkjast sú bygging og gefur stig. Að velja borgarann lengst til hægri er frítt en fyrir hvert spil sem hoppað er yfir (frá hægri) þarf að setja eitt peð á það. Þannig að ef leikmaður ætlar að taka spilið sem er lengst til vinstri þarf hann að setja peð á öll hin fimm spilin
Þeim mun fleiri borgarar sem eru í byggingu þeim mun fleiri stig gefur hún þegar hún er virkjuð. Sem dæmi að ef leikmaður setur bruggara í brugghúsið og er fyrir með tvo bruggara þar, þá yrði þetta þriðji bruggarinn og fengi leikmaðurinn þá sex stig (tvö fyrir hvern bruggara), ásamt því að fá eitt peð (óháð fjölda bruggara). Einnig mundu allir leikmenn sem eru með að minnstakosti einn malara í millunni sinni fá tvö stig.
Hægt er að gera árás á aðra leikmenn með því að setja riddara í herbúðirnar sínar og er styrkur árásarinnar miðaður út frá fjölda riddara í herbúðunum. Vörn annarra leikmann miðast út frá fjölda varða í varðhúsinu. Ef leikmaður með einn riddara gerir árás mundu þeir sem ekki eru með neinn varðmann taka þann borgara sem er lengst til vinstri og setja hann í sjúkratjaldið, allir sem eru í sjúkratjaldinu í lok leiks gefa eitt mínusstig. Hægt er að ná aftur spilum úr sjúkratjaldinu með því að setja norn í kotið (sem gefur líka stig fyrir hvern malara, norn og bruggara sem leikmaðurinn er með), þá fer efsta spilið í sjúkratjaldinu aftur á sinn stað en virkjar þó ekki þá byggingu sem það fer í.

Byggingarnar eru með eftirfarandi virkni;

Millan – Gefur tvö stig fyrir hvern malara
Brugghúsið – Gefur tvö stig fyrir hvern bruggara, leikmaður fær eitt peð og allir leikmenn sem eru með að minnst kosti einn malara í millunni sinni fá tvö stig
Kotið – Læknar spil sem er í sjúkratjaldinu og gefur tvö stig fyrir hvern malara, bruggara og norn sem leikmaðurinn er með í bænum sínum
Varðhúsið – Fjöldi varða segir til um varnargetu bæjarins og gefur tvö stig fyrir hvern verta, riddara og vörð sem leikmaðurinn er með í bænum sínum
Herbúðirnar – Fjöldi riddara segir til um styrk árásar og gefur þrjú stig fyrir hvern riddara
Kráin – Gefur fjögur stig fyrir hvern verta og allir leikmenn sem eru með að minnsta kosti einn bruggara fá þrjú stig
Kastalinn – Gefur fimm stig fyrir hverja hefðarmannseku og gefur eitt peð
Sjúkratjaldið – Gefur eitt mínusstig fyrir hvern borgara sem er hér í lok leiks


Leikmenn: 2-4
Ætlað fyrir: 14 ára og eldri
Hönnuður: Marc André
Útgefandi: Z-Man Games
Útgáfuár: 2017




Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir