Burt með sjálftöku og spillingu : Sigurjón Þórðarson skrifar

Sigurjón Þórðarson. MYND AF FB
Sigurjón Þórðarson. MYND AF FB

Flokkur fólksins er með í mótun almennar framsæknar breytingar á úthlutunarreglum um sértæka byggðakvóta Byggðastofnunar. Tillögurnar munu setja fólkið í sjávarbyggðunum í fyrsta sæti og verða vítamínsprauta til að efla frumkvæði heimamanna. Við viljum aftengja þá undarlegu kröfu að forsenda samnings um úthlutun á veiðiheimildum sé aðkoma sykurpabba sem tilheyra kvótaaðlinum.

Núverandi útfærsla á úthlutun veiðiheimilda Byggðastofnunar, fyrir fleiri milljarða kr. á ári, byggist á samningum við aðila sem hafa margir hverjir lítil eða jafnvel engin tengsl við þær byggðir sem fá úthlutun en hafa þeim mun sterkari tengsl inn í stjórnkerfið.

Sumir þessara samninga sem samþykktir hafa verið til nokkurra ára hafa orðið að verðmætri söluvöru um leið og blekið þornaði á undirskriftunum. Síldarvinnsla Samherja, sem hefur sett atvinnulíf Seyðisfjarðar í uppnám, fær t.d. árlega megnið af byggðakvótanum sem ætlaður er Þingeyri, en landar ekki einum einasta sporði í þorpinu!

Í nokkrum byggðum fer ekki fram nein vinnsla á þeim afla sem veiddur er á grundvelli byggðasjónarmiða og í enn öðrum fer fram einhver málamyndavinnsla, sem verður hætt um leið og ekki verður framhald á úthlutun á byggðakvótum.

Við í Flokki fólksins viljum treysta frumkvæði íbúanna sjálfra með eftirfarandi tillögum:

Koma þarf á löndunarskyldu á byggðakvóta í brothættu byggðunum, en taka af vinnsluskyldu.

Allur fiskur taki verð á frjálsum markaði, þó þannig að 20% af andvirðinu renni til uppbyggingarsjóðs í viðkomandi byggðarlagi.

Fiskvinnslur í viðkomandi sveitarfélagi hafa forgang að aflanum á 15% afslætti af meðalverði á markaði, en þá færi aðeins 5% til uppbyggingarsjóðs í byggðarlaginu.

Skipting á milli báta í hverju byggðarlagi en jafnframt yrði gerð krafa um að meirihluti áhafnarmeðlima væri með lögheimili í viðkomandi byggð.

 

Flokkur fólksins vill frelsa sjávarþorpin undan kvótaaðlinum, og um leið skapa fjármagn til sóknar í öðrum atvinnurekstri. Við fordæmum með öllu þá aðför sem tíðkast hefur að áður blómlegum sjávarbyggðum allt í kringum landið. Það er löngu tímabært að vinda ofan af þeirri óheillaþróun sem hér hefur fengið að viðgangast. Snúum þessari öfugþróun til betri vegar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir