Ef þú átt kindur þá eru jól oft á ári

Þegar ég var að alast upp í Bolungarvík voru kindur ekki ofarlega á vinsældarlistanum hjá mér. Pabbi var með nokkrar kindur í hesthúsinu og fóru þær frekar mikið í taugarnar á mér, fannst þær vera endalaust jarmandi og hafði ekki nokkurn áhuga á þeim.

Seinna fór ég svo að temja í Skagafirðinum, kynntist þar manninum mínum og eftir það jókst heldur betur áhuginn. Mér fannst fjöllin hérna samt ekki vera merkileg í fyrstu, bara svona hólar og hæðir, miðað við fjöllin fyrir vestan. Tindastóll, Glóðafeykir og Mælifellshnjúkur gerðu lítið annað en að minna mig á ósléttu túnin fyrir vestan. En það hefur heldur betur breyst. Staðarfjöllin toga í mig og eru fjöllin mín núna. Náttúran og kindurnar er samofið og að vera upp á fjöllum að eltast við eftirlegukindur finnst mér erfitt að lýsa. Held að það sé á við marga sálfræðitíma.

Ég náði einu sinni að villast í fjöllunum og þá fann ég hvað maður er hrikalega smár þegar náttúran er annars vegar. En þá var bara að hafa hestaskipti og leggja á Glampa og gefa honum lausan tauminn. Tók hann strax rétta stefnu og kom mér heim.

Ef þú átt kindur er alltaf eitthvað til að hlakka til. Það eru nefnilega jól oft á ári í sauðfjárræktinni. Að fá Hrútaskrána í hendurnar er alltaf jafn spennandi og að velja sæðishrútana. Á að nota reyndan hrút eða veðja á efnilegan? Og hvaða ær eru svo að ganga, vonandi einhverjar af þeim allra bestu og hvernig á að para saman. Mikil spenna er svo í febrúar þegar það er fósturtalið. Hvernig hefur fengieldið gengið, hver er væntanleg frjósemi og er hún að aukast.

Það að geta byrjað daginn á því að gefa kindunum finnst mér vera forréttindi. Það gefur manni aukinn kraft inn í daginn. Ekki er verra ef maður hefur svo tíma til að setjast á garðabandið og  horfa á kindurnar.  Njóta og lifa! eins og segir í laginu.

Þá er það sauðburðurinn sjálfur sem byrjar um mánaðarmótin apríl maí. Rosalega skemmtilegur og krefjandi tími, sem gefur manni mjög mikið þegar vel gengur og svo bætist í reynslubankann þegar verr gengur.

Aðalhátíðin er svo í september; þá er uppskerutími. Hann byrjar með (gleði)göngum og réttum en mjög spennandi er að fá lömbin heim af fjalli og sjá hvernig þau hafa þroskast um sumarið og hvað tíðarfarið hefur haft mikið að segja. Svo er það eftirvæntingin við að sjá fyrsta vigtarseðilinn, hvernig hafa lömbin flokkast, hver er vigtin og hafa orðið framfarir. Dagurinn þegar lömbin eru ómmæld og stiguð er einn af jóladögunum. Svo þarf að velja ásetningsgimbrarnar og hrútana. Hrútakaupaleiðangur á Strandirnar kórónar svo tímabilið.

Nú  þegar lægð er í sauðfjárræktinni er gott að hugsa um allt það jákvæða og skemmtilega í fjárbúskapnum. Ég er þakklát fyrir að vera sauðfjárbóndi. Ég veit ekki um ykkur en ég vil frekar eiga fé frjálst á fjalli sumarlangt en safna því saman inn í banka.

Ég skora á Maríu í Huldulandi að taka við pennanum.

Áður birst í 3. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir