Eftirlegukindur Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga :: Vísur og botnar sem skiluðu sér ekki á réttan stað

Nætursól í Skagafirði. Mynd: Atli Freyr Kolbeinsson.
Nætursól í Skagafirði. Mynd: Atli Freyr Kolbeinsson.

Það óheppilega atvik varð í Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga að nokkrar sendingar lentu ekki á réttum stað í tölvupósti og uppgötvaðist ekki fyrr en eftir að keppnin hafði verið gerð upp. Er þetta harmað mjög og viðkomandi beðnir afsökunar.

Reynum við að klóra aðeins yfir mistökin með birtingu þeirra botna og vísna sem fengu ekki inni en eftir stendur að ekki verður metið hvort þær hefðu breytt úrslitum keppninnar.

Þátttakendur áttu að botna fyrirfram gefna fyrriparta og eða semja vísu um ákveðið málefni. Ekki var nauðsynlegt að botna allt og einnig í lagi að senda bara inn vísu.

Fyrripartarnir að þessu sinni voru eftirfarandi:

Enginn tregar einangrun
eftir Covid fárið.

Merlar ekki mosabreið
í Meradölum lengur.

Ungum þykir eflaust góð
augnablik í leynum.

Röðull skín á Skagafjörð
skaparinn er kátur.

Reynir Hjörleifsson á eftirfarandi botna:

Merlar ekki mosabreið
í Meradölum lengur.
Um hraunið svarta heljarskeið
hrekjast rótarlengjur.

Ungum þykir eflaust góð
augnablik í leynum,
ekki síst ef gefur glóð
gull sem endist tveimum.

Röðull skín á Skagafjörð
skaparinn er kátur.
Vorið aftur yfir jörð
ymur gleði og hlátur.

Þessi sending er frá Önnu Jónsdóttur í Mýrakoti:

Enginn tregar einangrun
eftir Covid fárið.
Í sælli gleði syngja mun
um sæluviku árið.

Merlar ekki mosabreið
í Meradölum lengur.
Hraun og aska hefta leið
hætt er þeim sem gengur.

Ungum þykir eflaust góð
augnablik í leynum.
Augu kvika, örvast blóð
ekki er hik á neinum.

Röðull skín á Skagafjörð
skaparinn er kátur.
Gulli slær á gróna jörð
glitrar sjór við látur.

Röðull skín á Skagafjörð
skaparinn er kátur.
Vindar hlýna, vaknar jörð
úr vetrar grímu fangi.

Höfundur að næstu botnum heitir Magnús Halldórsson.

Enginn tregar einangrun,
eftir kóvid fárið.
Þó var talin fjölföldun,
í fæðingum það árið.

Merlar ekki mosabreið,
í Merardölum lengur.
En þar er komin gata greið,
göngumóðum fengur.

Ungum þykja eflaust góð,
augnablik í leynum.
Þar má ekki heyrast hljóð,
né hark í möl og greinum.

Röðull skín á Skagafjörð,
skaparinn er kátur.
Glitra vötn og grænka börð,
glæðist vorsins hlátur.

Og Magnús sendi einnig inn eftirfarandi vísu:

Senn mun skarta sumarkjól,
að sönnu Glóðafeykir.
Töfraglóð við Tindastól,
tíðum röðull kveikir.

Sævar Lýðsson botnar á eftirfarandi hátt:

Enginn tregar einangrun
eftir Covid fárið.
Þó er eins og annað hrun
ýfi á manni hárið.

Merlar ekki mosabreið
í Meradölum lengur.
Eigum við að skella á skeið
og skreppa þangað drengur?

Ungum þykja eflaust góð
augnablik í leynum
þá í æðum byltist blóð
hjá blómarós og einum.

Röðull skín á Skagafjörð
skaparinn er kátur.
Ljóma slær á lambaspörð
leika rolluskjátur.

Þá lét Sævar eftirfarandi limrur og stöku fljóta með:

Útreið
Á einhverju rófi rófanna
riddarinn spýtir í lófana
í sig hámar hrátt hakkið
en rétt kýs ekki pakkið
sem hjá hesturinn leitaði hófanna.

Kata skrifar
Kötu finnst krúttlegt að skrifa
í kollinum hugmyndir tifa
og klæjar í lófana
um bjarnabófana
söguna sína að skrifa.

Maddaman
Bíræfinn stal hér bíl frá prest´
er bar sig eftir vonum.
Forljótt mál en finnst þó verst
að frúin var ekki í honum.

Áður birst í 19. tbl.  Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir