Ég treysti Bjarna best

Snemma í vor kom mér nokkuð á óvart þegar Bjarni Jónsson, oddviti Vg og óháðra, bauð mér að vera á framboðslista með sér. Vissulega höfðum við þá nýverið staðið þétt saman um áframhaldandi uppbyggingu Byggðasafns Skagfirðinga og gegn því að safnið yrði sett á hrakhóla með óábyrgri leyndarsamningagerð  núverandi meirihluta við einkahlutafélagið Sýndarveruleika ehf.

Engu að síður kom þetta boð á óvart sem ég samþykkti með þökkum nánast samstundis.  Ástæðan fyrir því hve skjótur ég var til svars er sú að ég hef haft afar góða reynslu af störfum Bjarna Jónssonar síðan ég hóf þátttöku af sveitarstjórnarmálum í Skagafirði, bæði sem samherja sl. 4 ár í minnihluta og sömuleiðis sem sanngjarns forseta Sveitarstjórnar Skagafjarðar sem náði að skapa breiða sátt um mikilvæg mál. Má þar nefna sársaukafullar en nauðsynlegar sparnaðaraðgerðir Sveitarfélagsins Skagafjarðar og að standa vörð um opinber störf í héraðinu sbr. lögregluembættið, héraðsdóm og Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks, en mjög var sótt að öllum þessum stofnunum í kjölfar hrunsins.

Bjarni býr yfir reynslu og hefur yfirsýn yfir málaflokka og góð tengsl inn í stjórnkerfið og velflesta stjórnmálaflokka landsins. Hann hefur reynst okkur Skagfirðingum ötull málafylgjumaður á opinberum vettvangi, m.a.  sem varaþingmaður á Alþingi Íslendinga.

Framboðslisti Vg og óháðra í Skagafirði er skipaður hæfileikaríku fólki sem ber hag héraðsins fyrir brjósti –  atkvæði sem greitt er Vg og óháðum er lóð á vogarskálar framfara í Skagafirði.

Sigurjón Þórðarson, líffræðingur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir