Einar K í forystusætið
Sjálfstæðismenn í Norðvestur kjördæmi ganga að prófkjörsborði hinn 21. mars n.k.
Það er ánægjulegt að margir efnilegir frambjóðendur hafa gefið kost á sér í prófkjöri. Í þeim hópi má sjá margt efnið í stjórnmálaforingja framtíðarinnar. Tveir af þremur þingmönnum flokksins í kjördæminu gefa ekki kost á sér í prófkjörinu eins og kunnugt er. Einar Kristinn Guðfinnsson fyrrv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lýst því yfir að hann sækist eftir því að leiða lista sjálfstæðismanna í næstu kosningum. Ég styð hann heilshugar til forystu fyrir sjálfsæðismenn í næstu kosningum. Í allri umræðu um breytingar og endurnýjun í þjóðfélaginu megum við ekki gleyma þeim verðmætum sem felast í farsælum stjórnmálaferli, reynslu og þekkingu á sviði stjórnmálanna. Einar hefur sýnt það á löngum stjórnmálaferli að hann stendur vörð um atvinnlíf hinna dreifðu byggða. Ekki þarf að fara mörgum orðum um störf hans að sjávarútvegsmálum, svo þekkt sem þau eru. Við Borgfirðingar höfum notið ómetanlegs liðsinnis hans í erfiðum málum sem snerta okkar hérað. Það var ekki sjálfgefið að ráherra í ríkisstjórn svari kalli nánast hvenær sólarhrings sem er eftir öldurótið sem varð í kjölfar bankahrunsins mikla.
Ég vildi hins vegar víkja að öðru. Við myndun síðustu ríkisstjórnar var ákveðið að sameina ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar. Þessi áform sættu mikilli gagnrýni innan landbúnaðarins og áhyggur voru uppi um að við þetta setti stjórnsýsla í landbúnaði niður. Fyrrverandi landbúnaðarráðherra lýsti þessu á þann veg að nú væri niðurlæging landbúnaðarins alger þegar landbúnaðarráðuneytið yrði aðeins skúffa í sjávarútvegsráðuneytinu. Það kom í hlut Einars að móta samruna þessara tveggja ráðuneyta. Það varð strax ljóst, þegar Einar ákvað að ráða Sigurgeir Þorgeirsson fyrrverandi framkvæmdastjóra Bændasamtakanna sem ráðuneytisstjóra, að allar forspár um að hann stæði þannig að málum að landbúnaður yrði hornreka í sameinuðu ráðuneyti, voru innistæðulausar. Einar hélt þannig á þessu vandasama máli að báðum atvinnugreinunum er fullur sómi sýndur. Nú talar enginn um að landbúnaðarráðuneytið sé máttlaus stofnun. Þvert á móti hefur sameining ráðuneyta orðið til að stórefla æðstu stjórnsýslu sjávarútvegs og landbúnaðar.
Innleiðing matvælalöggjafar Evrópusambandsins í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið hefur verið á döfinni um nokkurt skeið frá því að matvælalöggjöfin fór að taka gildi í löndum sambandsins. Samningurinn kveður á um ótvíræðar skyldur Íslands í þessum efnum. Í ráðherratíð Guðna Ágústssonar var samþykkt í ríkisstjórn, að farið yrði að kröfum Evrópusambandsins og fallið frá undanþágum til handa Íslandi um að takmarka innflutning á landbúnaðarafurðum af heilbrigðisástæðum frá löndum Evrópusambandins og að reglur ESB um heilbrigði búfjárafurða skyldu teknar inn í íslenska löggjöf með örfáum fyrirvörum. Skuldbinding um þetta efni lá því í raun fyrir í ráðuneytinu þegar Sjálfstæðisflokkurinn kemur þar til valda í ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar. Málið hafði verið rætt á samningafundum með ESB, þar sem kynnt hafði verið sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að falla frá fyrirvara samningsins sem heimilaði m.a. að banna innflutningi á fersku kjöti. Breyting á boðuðum áformum af Íslands hálfu, um að opna fyrir innflutning á búvörum með innleiðingu matvælalöggjafarinnar, hefði sett EES samninginn í uppnám og væntanlega lokað fyrir frjálsan aðgang Íslands að mörkuðum fyrir sjávarafurðir innan ESB, sem hefði þýtt að útflutningur sjávarafurða frá Íslandi til Evrópusambandsins hefði þurft að fara fram um landamærastöðvar með þeim kostnaði og töfum sem það veldur ríkjum sem standa utan markaðssvæðis Evrópusambandsins. Það er því alrangt, sem sumir halda fram að Einar hafi í sinni ráðherratíð haft forgöngu um hið umdeilda matvælafrumvarp. Það hefur hinsvegar komið í hans hlut að vinna þetta mál áfram og við lagasmíðina hefur verið gengið til móts við vel ígrunduð sjónarmið Bændasamtakanna Íslands.
Óðinn Sigþórsson
Einarsnesi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.