Ekkert verkefni er of stórt til að hjóla í það og ná árangri. Eftir Reyni Grétarsson
Framundan eru miklir umbrotatímar í Íslensku samfélagi, prófkjör og í framhaldi kosningar til Alþingis. Ég hef lítið skipt mér af þeim drullupolli sem mér hefur sýnst pólitík vera. Síðustu mánuðir hafa sýnt að það er mikil þörf á nýjum hugsunarhætti og nýrri nálgun í íslenskum stjórnmálum. Nú er ég ekki íbúi í þessu kjördæmi, en ég á samt við ykkur erindi.
Ég vil hvetja þau ykkar sem hyggjast kjósa í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins til að veita Sigurði Erni Ágústssyni brautargengi. Það geri ég vegna þeirrar vissu sem ég hef um að hann muni gera okkur öllum gagn, aldrei taka þátt í spillingu né láta beygja sig til að hafa aðra skoðun en sannfæring hans segir til um.
Ég hef unnið meira með Sigga en nokkrum öðrum, fyrst í byggingavinnu sem unglingar en síðar hjá Creditinfo Group hf., við uppbyggingu erlendrar starfsemi. Ekki var mikið um lognmollu eða leiðindi enda báðir framtakssamir og gefnir fyrir að sjá árangur. Ég er stoltur af því sem við náðum að skapa á þessum árum hjá Creditinfo og þakklátur Sigga fyrir hans hlut, án hans ekki er víst að svo vel hefði gengið.
Við vorum að gera hluti sem ekki höfðu verið gerðir áður og oft á erfiðum mörkuðum. Við tókumst á við margvísleg erfið verkefni sem fylgja uppgangi alþjóðlegs fyrirtækis í mörgum löndum. Siggi hefur bakgrunn og reynslu sem henta mjög vel fyrir hann, verði hann valinn á Alþingi.
Stórborgarlíf og skítmokstur standa honum ámóta nærri; hann hefur mikla reynslu úr stjórnun í alþjóðlegu farsælu fyrirtæki, á sama tíma og áhugamálin eru sveitamennska. Ekkert verkefni er of stórt til að hjóla ekki í það og ná árangri. „Af því bara“ –svör eru ekki tekin gild og Siggi lætur það ekkert halda vöku fyrir sér þótt hann strjúki einhverjum öfugt.
Á sama tíma vill hann ávalt vel og er mjög traustur drengskaparmaður. Siggi er akkúrat maðurinn sem við þurfum að senda á þing núna. Ég hvet þig til að stuðla að því.
Reynir Grétarsson
Forstjóri og stofnandi Creditinfo Group hf.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.