Ekki fresta vandanum - Lausnir strax
Nú eru um sjö mánuðir síðan fjármálakerfið hrundi og enn hefur ríkisstjórninni ekki tekist að koma á eðlilegum bankaviðskiptum. Fyrir um tveimur mánuðum lögðu framsóknarmenn fyrir ríkisstjórnina efnahagstillögur í átján liðum. Þeim var ýtt út af borðinu án þess að aðrar kæmu í staðin. Enn er þjóðin án lausna þó ríkisstjórnin hafi þær í hendi sér.
Þær hugmyndir sem Vinstri græn (VG) hafa lagt fram gera flestar ráð fyrir því að ríkið yfirtaki rekstur fyrirtækja, stofnana og jafnvel heimila með því að setja þeim tilsjónarmann. Innköllun veiðiheimilda án þess að segja hvernig eigi þá að úthluta honum aftur þýðir ríkisvæðingu fiskveiðanna. Frambjóðandi VG á austurlandi hefur sagt að ríkið skuli kaupa allar jarðar og þar með er búið að ríkisvæða landbúnaðinn. Ríkið á nú þegar alla helstu banka landsins. Draumur VG er að stofna eigarhaldsfélag um þau fyrirtæki er fara í þrot og teljast „mikilvæg“.
Fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon samþykkti að afskrifa þrjá milljarða af skuldum Moggans. Sami ráðherra ákvað að skipta um kennitölu á Pennanum – Eymundsson og reka áfram sem ríkisfyrirtæki í samkeppni við einakaðilana. Hvað með heimilin? Hvað með önnur fyrirtæki?
Ríkisvæðing þjóðfélagsins er ekki lausn á þeim vanda sem blasir við. Hin austur-evrópska hugmyndafræði VG féll líkt og frjálshyggjan hefur nú fallið.
Lausnin á vanda þjóðarinnar felst í að virkja þann kraft sem í henni býr. Það gerum við með því að skapa umhverfi sem hvetur til sköpunar, virkjun hugmynda og vinnusemi. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram tillögur er lúta að því að skapa þetta umhverfi. Við teljum að fyrsta skrefið sé að leiðrétta skuldastöðu heimila og fyrirtækja með 20% leiðréttingu skulda. Sú aðgerð tryggir fleirum húsnæði, minnkar líkur á hruni á fasteignamarkaði og lágmarkar fjölda fyrirtækja sem annars fara í þrot.
Leið þessi kostar ríkissjóð og skattgreiðendur ekki neitt þar sem gert er ráð fyrir samningum við erlenda eigendur skuldanna um leiðréttingu. Þeirra hagur felst í því að gefa eftir hluta af skuldunum þannig að fleiri geti greitt. Allir tapa á því að gera ekki neitt og láta fjöldann fara í þrot.
Forsenda þess að komast út úr kreppuni er að bjarga heimilum og fyrirtækjunum. Aðeins þannig getum við náð landi. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram tillögur um lausnir. Til þess að þær nái fram að ganga þarf flokkurinn góða kosningu á laugdardaginn.
Gunnar Bragi Sveinsson
Höfundur skipar 1. Sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.