Ekki vera á bremsunni

Áskorandi Aldís Olga Jóhannesdóttir Hvammstanga

Þegar það liggur fyrir að skrifa hugrenningu í formi smápistils þá fyllist kona eldmóði og vill hafa pistilinn svo uppörvandi að hver og einn lesari er rifinn upp á rasshárunum til að fá sér slurk úr Lýsisflöskunni og svo beint út í heiminn í ofurhetjubúningnum. Þið vitið. Svona „pep talk“, ef við slettum eilítið.

Það eru reyndar margar hugrenningar sem mér eru hugleiknar. Þegar kona hefur lifað í nokkur ár (...og fleiri til) þá er eitt og annað sem hún telur sig hafa lært af lífinu. Ekki vera á bremsunni í þínu eigin lífi. Það er speki dagsins. Ég held reyndar að bankinn minn myndi pikka fast í mig ef það væri ekki einhver bremsa á kreditkortafærslunum mínum, en við erum líka ekki að tala um peninga í þessari hugrenningu. Alls ekki. Við erum meira að tala um það að vanmeta ekki sjálfið, mikla ekki hlutina fyrir sér og helst ekki hafa orðasambönd eins og „ég get ekki“ eða „ég kann ekki“ í hávegum. Þó svo að þú hafir ekki reynt við eitthvað, þá þýðir það ekki að þú getir það ekki.

Það eru til fullt af óskrifuðum samfélagsreglum um rétta leið að hinu og þessu. Ansi margar af þeim mega fara lengst út í hafsauga fyrir mér. Vissulega er erfitt að fara framhjá formlegri lögfræðimenntun, lögmannsprófi og fleiru sem krafist er af hæstaréttardómara, en það eru fullt af hlutum sem þú getur gert þó þú hafir ekki farið hina óskrifuðu, hefðbundnu og stundum forpokuðu leið. Hefur þig alltaf langað til að búa til eitthvað sjálf, eins og að þrykkja hönnun þína á textíl, semja smásögu, mála matarstell, koma upp gróðurhúsi, mála olíumálverk eða jafnvel hanna skartgripi? Hefurðu þá hugsað „ég kann bara ekki að gera það“ eða „ég held að ég geti það ekki af því að ég veit ekkert um svona“? Hér er ágætt að skella kartöflu í hálsinn og garga „NEJ, STOP NU!“. Þú þarft ekki að vera útlærð/-ur í fræðum til að uppfylla skilyrðin fyrir því að geta. Þú þarft bara að vera ekki á bremsunni. Þú þarft að henda þér í djúpu laugina. Þú þarft að vera óhrædd/-ur við að prófa og „google-a“. Þú þarft að læra af ferlinu. Ekki vanmeta það sem lærist á því að reyna. Á endanum geturðu þetta alveg. Það var allan tímann þannig. 

Ekki samt aka fararskjóta af því af þú getur það, ef þú ert ekki með prófið uppá það. Ok? 

Aldís Olga skorar á forvera sinn hjá HVE, Guðmund Hauk Sigurðsson, að koma með pistil.

Áður birst í 43. tbl. Feykis 2017.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir