Endurheimt Brimnesskóga þarf stöðuga umönnun

Í Sauðárkróksbakaríi áður en ráðist var í verkefni dagsins á ræktunarsvæði Brimnesskóga. F.v. Vinicius Tragante do Ó, Saga í fanginu á ömmu sinni Helgu Ottósdóttur, Stefán S. Guðjónsson, Steinn Kárason, Líf Magneudóttir, Styrkár Flóki Snorrason í horninu er Snorri Stefánsson og Hólfríður Helga í fanginu á honum. Fremstar á myndinni eru Bríet Magnea Snorradóttir og Guðrún Stefánsdóttir lengst til hægri. Mynd úr bakaríi: PF, en myndir af vettvangi Brimnesskóga eru aðsendar.
Í Sauðárkróksbakaríi áður en ráðist var í verkefni dagsins á ræktunarsvæði Brimnesskóga. F.v. Vinicius Tragante do Ó, Saga í fanginu á ömmu sinni Helgu Ottósdóttur, Stefán S. Guðjónsson, Steinn Kárason, Líf Magneudóttir, Styrkár Flóki Snorrason í horninu er Snorri Stefánsson og Hólfríður Helga í fanginu á honum. Fremstar á myndinni eru Bríet Magnea Snorradóttir og Guðrún Stefánsdóttir lengst til hægri. Mynd úr bakaríi: PF, en myndir af vettvangi Brimnesskóga eru aðsendar.

Vinna við endurheimt Brimnesskóga hefur staðið yfir frá árinu 1995 en í því verkefni hafa eingöngu verið notaðar trjátegundir, einkum birki og reynir, sem vaxið hafa í Skagafirði frá ómunatíð. Á heimasíðu verkefnisins steinn.is/brimnesskogar kemur fram að birki, ættað úr Geirmundarhólaskógi í Hrolleifsdal, hafi verið kynbætt og fræ af því notað til ræktunar. Landið sem Brimnesskógar hefur til afnota er um 23 ha, við ána Kolku skammt frá Kolkuósi og er í eigu Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Á dögunum fékk Feykir veður af því að hópur „skógarmanna“ sæti í Sauðárkróksbakaríi og væri að næra sig fyrir verkefni dagsins en til stóð að bera áburð á trjáplönturnar á ræktunarsvæðinu við Kolku. „Þetta er Skagfirskt birki, upprunnið í Hrolleifsdal, Gljúfurárgili og Fögruhlíð. Við erum líka með í ræktun vefjaræktaðan reynivið úr Hrolleifsdal. Einnig þarf að fylgjast með girðingunni og lagfæra hana árlega. Við njótum aðstoðar „okkar manns“ í Hjaltadalnum og garðyrkjustjóra Skagafjarðar,“ segir Steinn Kárason, garðyrkjumeistari og frumkvöðull að endurheimt Brimnesskóga.

Hann segir stöðuna á verkefninu góða en heita má að fullplantað sé í þá u.þ.b. 20 ha lands sem félagið hefur til ráðstöfunar. „Plönturnar eru sem óðast að vaxa úr grasi og er hæð þeirra nú frá nokkrum tugum sentimetra upp í tvo til þrjá metra. Fáein ágrædd fræ-móðurtré á svæðinu eru um þrír til fjórir metrar á hæð. Á næstu árum verður unnið við áburðargjöf og viðhald á girðingu. Við höfum í ræktun plöntur af völdu Geirmundarhólabirki en María Ingiríður Reykdal á Starrastöðum annast ræktunina. Eftir því sem þörf krefur er ætlunin að gróðursetja birkið á næstu þremur til fjórum árum í eyður. Leyfi aðstæður munum við rækta meira af reyniviði, en það er vandkvæðum bundið að ná fullþroskuðum berjum til sáningar í Hrolleifsdal.“

Vilji til staðar að útvíkka verkefnið
Steinn segir að þau sem að endurheimt hinna fornu Brimnesskóga standa, hafi lýst yfir vilja sínum við fulltrúa sveitarfélagsins til að útvíkka verkefnið ef aðstæður leyfa. „Umhverfisráðuneytið hefur staðið fyrir Bonn-áskoruninni sem líkist hugmyndafræði Brimnesskógaverkefnisins um að nota innlendar trjátegundir til að endurheimta náttúruleg landgæði og tengja fjölbreyttri landnýtingu s.s. ferðaþjónustu. Bonn-áskorunin er alþjóðlegt átak um útbreiðslu eða endurheimt náttúruskóga á stórum samfelldum svæðum eða landslagsheildum,“ segir Steinn, sem sér verkefnið fyrir sér stækka og dafna í framtíðinni.

En hann er ekki einn því eins og fyrr kemur fram var hann í hópi glaðbeittra sjálfboðaliða sem hófu ferðina með viðkomu í bakaríinu. Með honum í þessari ferð voru börn, makar og barnabörn hjónanna Helgu Ottósdóttur og Stefáns S. Guðjónssonar, en afi og amma Helgu voru Jón Þ. Björnsson fyrrv. skólastjóri á Sauðárkróki og fyrri eiginkona hans Geirlaug Jóhannesdóttir.

„Bakaríið á Sauðárkróki er sæluríki þeirra sem vilja gleðja bragðlaukana með ljúffengu góðmeti sem veitir orku til góðra verka. Í bakaríinu getur maður líka gengið að því vísu að hitta og spjalla við Króksara sem margir eru manni kærir.

Þau hjónin Helga og Stefán sækja ekki Sauðárkrók heim án þess að fá í bakaríinu sérpöntuð og sérbökuð marsipanstykki merkt Helgu. Börn og fullorðnir bókstaflega elska marsipanstykkin í Sauðárkróksbakaríi,“ segir Steinn sem vill að lokum koma á framfæri miklum þökkum til allra sem lagt hafa lið við endurheimt Brimnesskóga í gegn um tíðina en of langt mál væri upp að telja. „En við sendum okkar bestu kveðjur til Helgu Gunnlaugsdóttur, garðyrkjustjóra, og Harðar á Hofi.“

Endurheimt Brimnesskóga er sjálfboðaliðastarf og byggir starfsemi félagsins á frjálsum fjárframlögum og er þeim sem styrkja vilja verkefnið bent á reikning Brimnesskóga í Kringluútibúi Arion; banki 323, Hb13 reikningur 700706 kt 491204-4350. Stjórn félagsins skipa Steinn Kárason, Stefán S. Guðjónsson, Vilhjálmur Egilsson, Jón Ásbergsson og Sölvi Sveinsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir