Endurreisn atvinnulífsins

Eydís Aðalbjörnsdóttir

Helsta ógnun við þjóðfélagið núna er atvinnuleysið.  Þvi verður að afstýra umfram allt annað.  Við sem höfum verið svo lánsöm að búa við nær ekkert atvinnuleysi í svo langan tíma erum óvön því að takast á við svona aðstæður.  Ljóst er að forsenda fyrir atvinnu er að fyrirtækin geti starfað áfram og því verður að tryggja vöxt og viðgang þeirra.  
Það sem er helst að valda fyrirtækjunum búsifjum er eitthvað eða jafnvel allt af eftirtöldu: vaxtaáþján, gengisfall, takmarkanir á gjaldeyri og framboði fjármagns. 

Með því að aflétta gengishöftum að undangengnum samningum við eigendur jöklabréfa er von til þess að hægt sé að koma gjaldeyrismálum í þolanlegra horf.  Verðbólgan er á lítilli hreyfingu núna og sú verðbólga sem mælist er aðallega vegna fyrri áfalla.  Einnig er ljóst að verðbólguþrýstingur innanlands er í lágmarki svo að mikil lækkun stýrivaxta er möguleg nú þegar og að því skal unnið strax.  Þegar gengis og vaxtamál eru komin í eðlilegra horf léttist verulega á mörgum fyrirtækjum. 

Þjónusta bankanna er takmörkið núna, því aðgangur þeirra að lánsfé er stórlega skertur.  Leita þarf leiða til að erlendir lánadrottnar bankanna geti komið inn með peninga og líti Íslendinga betri augum. Langan tíma tekur að byggja upp traust á Íslandi erlendis eftir allt sem á undan er gengið.  Með því að fá erlenda banka til að breyta ónýtum kröfum sínum í hlutafé væri möguleiki til þess að umheimurinn fái aukna trú á okkur, náum þannig að kaupa okkur eitthvert traust á fjármálamarkaðnum.og þannig verði hægt að útvega lánsfjármagn og það jafnvel á hagstæðari kjörum,  Þetta eru forgangsatriði sem gagnast öllum fyrirtækjum í landinu. 

Við verðum að grípa fyrst til almennra aðgerða áður en hægt er að fara út í sértækar aðgerðir sem bera að forðast í lengstu lög.  Sama er að segja hvað varðar heimilin.  Engu að síður verður að hafa augun opin fyrir því að til sértækra aðgerða þurfi jafnvel að grípa í einstaka tilvikum.  Við getum hrósað happi yfir því í öllum vandræðunum núna að áður en ósköpin dundu yfir þá var ríkissjóður nær skuldlaus og því hafði hann ráðrúm til að skuldsetja sig eins og gert hefur verið.  Annars hefði nauðsynleg skuldsetning undanfarinna mánaða reynst mun erfiðari.

Eydís Aðalbjörnsdóttir frambjóðandi í 2. sæti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir