Sumarvæll í g-moll | Leiðari 23. tölublaðs Feykis

Í tvígang hefur Feykir birt sama textann ofan á forsíðumynd blaðsins síðustu vikurnar. Fyrst Sumarið er tíminn og stuttu síðar, örlítið kaldhæðnislegra, Sumarið er tíminn... yfir mynd af sumarhretinu mikla í byrjun júní.

Kannski má segja að íslenska sumarið sé kaldhæðnislegt, pínu eins og lélegur brandari jafnvel. Á hverju vori hlökkum við til að upplifa sumarið okkar með myndir af sóleyjum í túni og leikandi lækjar-sprænum í sinninu. Já, draumar um glampandi sól og hunangsslegnum grísakótelettum sprúðlandi á grillinu í næsta nágrenni við kartöflur í áljökkum. Freistum þess síðan að finna smá sumardreitil í góðu skjóli fyrir norðanátt og þokuslegnum fjöllum á veröndinni sunnan við vegg – kannski í ljúfum yl frá gashitara – og vonum að það byrji ekki að rigna svona rétt á meðan maturinn volgnar.

Okkur dreymir jafnvel hið fullkomna sumarfrí. Hugsið ykkur; fimm vikur af ábyrðarleysi og letilífi, seint í háttinn og sofið fram að hádegi. Hinn klassíski sumardraumur hins vinnandi manns. Það er reyndar til fólk sem getur bara alls ekki sofið lengur en til sex á morgnana. Höfum það utan mengis.

Það er veikur möguleiki að Feykisliðið hafi dreymt á þennan veg. Venju samkvæmt var auglýst eftir sumar-afleysingamanni og veik von breyttist í ljúfan draum þegar vanur maður og vaskur sótti um. Allt klappað og klárt, allir í góðum fíling og útlit fyrir sól í allt sumar. Hér setjum við kaldhæðnislega þrjá punkta.

. . .

Útlitið var gott þangað til Feykisliðið vaknaði upp við vondan draum. Afleysingamanninum fylgdu frú og barn. Frúin gat fengið vinnu á leikskólanum á Króknum enda alltaf verið að leita að starfsfólki á leikskólum. Vandamálið var hins vegar að barnið fékk ekki pláss á leikskóla í Skagafirði og þá var ekki lengur raunhæft að Skagfirðingarnir gætu snúið heim í hérað þetta sumarið.

Þó Feykir hafi ekki lagst í rannsóknarvinnu varðandi vöntun á leikskólaplássum er næsta víst að margir glíma við þetta vandamál og það víða um land. Hér kvörtum við yfir því að fólk sem fer úr héraði til að stunda nám skili sér ekki aftur heim. Hvaða skilaboð erum við að senda ungu fólki þegar við getum ekki tekið við börnum á leikskóla?

Við á Feyki verðum því að láta okkur dreyma um betri heimtur næsta sumar. Nema einhver hafi áhuga á að skella sér í skemmtilegt sumardjobb...

P.S. Okkur vantar líka prófarkalesara – einhver!?

Óli Arnar Brynjarsson, ritstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir