Er ánægð að mamma hafi ekki viljað henda mér út um gluggann

 Áskorandapenninn - Þórdís Sigurðardóttir Sólheimagerði

Er heimavinnandi sauðfjárbóndi með 160 kindur og nokkur hross. Og get þakkað fyrir að vera á lífi.  Ég var nefnilega skelfilegt smábarn grenjaði stanslaust í eitt ár. Eitt sinn þegar svefnlaus móðir mín fór með mig til læknis með von um hjálp spurði læknirinn hana að því hvort hún vildi kasta mér út um gluggann hún neitaði því. Læknirinn bað hana endilega að koma aftur með mig ef hana færi að langa að skutla mér út. Þá mundi hann gera eitthvað fyrir hana. Takk fyrir það.

Þegar ég fór að koma norður var ég ekki nálægt lífshættu nema kannski einu sinni. Mér var auðvitað  fljótlega boðið á hestbak, ég  átti að fylgja stóðinu heim úr Staðarrétt. Tröllvaxin gangnahesturinn tók lítið mark á 49 kg afleggjara úr Lundarreykjadal, hann tók sig úr hópnum  og hljóp stjórnlaust langleiðina heim til sín. Steig ég af baki hálf skelkuð eftir 4 km roku meðfram þjóðveginum, þakklát fyrir að vera á lífi.

Veit ekki hvort það var þetta sem olli því að ég flutti ekki norður fyrr en 10 árum seinna eða bara gamli góði hrepparígurinn.  En á tímabili leit út fyrir að við þyrftum að byggja okkur hús á Holtavörðuheiði til að geta mæst á miðri leið. Enduðum svo á tiltölulega hlutlausum stað, í Akrahreppi.

Hef alltaf haft gaman af hrepparíg. Er einmitt svo heppin að náinn fjölskyldu vinur okkar í Borgarfirði er uppfullur af skemmtilegum hrepparíg sem hefur örugglega haft smitandi áhrif. Einu sinni í gamla daga vorum við í fjölskylduferðalagi með honum um suðurlandið. Heimsóttum gott fólk og var þetta hin skemmtilegast ferð. En á leiðinni tilbaka þegar við erum  ofarlega í Kömbunum skipar hann okkur snögglega að stöðva bílinn hann ríkur út girðir niður um sig og múnar vel og lengi á suðurlandið, þetta þótti okkur krökkunum verulega töff sjón sem seint gleymist.  Hef ég þó aldrei gengið svo langt í því að vanvirða aðrar sveitir.

Það er margt sem maður getur verið þakklátur fyrir.  Eina sterka minningu á ég frá æsku tengda miklu þakklæti, en það var tengt heimiliskettinum Músabrandi. Barnapían og tamningarkonan okkar til margra ára hafði farið út á lífið og kemur svo heim seint um kvöld í stuði.  Heyri ég í henni þar sem hún lætur móðan mása um gæði heimilis kattarins.

Ég og foreldrar mínir koma niður og þar stendur vinnukonan í miðju eldhúsinu að kjassa  Músabrand og búinn að vefja honum um háls sér.  Ég sé blóðtauminn leka niður kjólinn hennar og það er að myndast pollur á gólfinu.  Þetta var skelfileg sjón. Barnpían fer loks að átta sig á því að það er eitthvað ekki í lagi,  líklega af svipnum á foreldrum mínum og mér, og svo loks í talsverðri geðshræringu  rífur hún  í dýrið  og sveiflar því yfir höfði sér heilan hring í eldhúsinu með þeim afleiðingum að blóðið slettist um alla veggi en hinn meinti Músabrandur endar við búrhurðina.  

Mikið var ég krakkinn feginn og þakklát að barnapían hafði tekið feil á Músabrandi og dauðri tófu sem lent hafði fyrir bíl fyrr um daginn og lá úti við vegg.

Ég á hús og land, mjög gjöfult land. Alla vega þarf ég ekki í stærri kaupstað en Varmahlíð nema  á 3-4 mánaða fresti. Fólkið mitt er við ágæta heilsu, ég  á glaða krakka sem eiga hlý föt og svo eigum við fulla frystikistu af mat, í raun fullkomið. Kemur samt einstaka sinnum fyrir  að út úr mér læðist nöldur og væl yfir litlu, það verður alla vega lítið þegar maður hefur tíma til að horfa á fréttirnar og sér hvað er að gerast í hinum stóra heimi. Svo vita það orðið líklega flestir að lífið er núna.

 En svona í lokin verð ég kannski að biðjast afsökunar á blóði og berum rössum. Þetta er líklega ekki neitt sérstakur desemberpistil en maður verður að halda sér jarðtengdum og sjá grínið í öllu þessu furðulega og svo auðvitað gleðina í þessu hversdagslega þó það  sé stundum langt því frá að líta út eins og fallegt háglans jólakort.

 

Skora á Lindu í Árgerði að taka við pennanum

 Bestu kveðjur og góða skemmtun í lífsbaráttunni, Dísa í Sólheimagerði.

Áður birst í 47. tbl. Feykis 2017

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir