Er ég leiðindaskjóða að vilja viðhalda 2ja metra reglunni ?

Ekki ætla ég að leggja mat á hvort ég sé almennt leiðinleg manneskja, en að undanförnu hef ég upplifað mig sem ferlega leiðindaskjóðu.

Forsaga þessarar leiðinda upplifunar er að ég kom erlendis frá fyrir um tveimur vikum síðan eftir að hafa dvalið þar í Covid-19 storminum. Þar varð ég að dvelja í 60 daga fjarri mannabyggðum í algjörri einangrun, því þar var útgöngubann og almenningur virti það í einu og öllu. Eftir að því lauk voru sett fjarlægðarmörk og var grímuskylda. Síðan breyttust þessar reglur eftir því hvernig útbreiðsla Covid-19 þróaðist.

Allan þann tíma sem ég dvaldi erlendis upplifði ég mig örugga, það tóku allir tillit hver til annars og er ennþá grímuskylda í öllum verslunum og víðar. Það var alveg sama hversu rými voru lítil, það var alltaf fundin lausn á að viðhalda fjarlægðarmörkum fyrir bæði viðskiptavini og starfsfólk.

Hálftóm flugvél og við vorum sett hjá ókunnugri manneskju. Flugfreyjan tjáði mér að stafsfólk í innritun raðaði niður í sæti. Við fyrirframpöntuðum okkar sæti hjá flugfélaginu. Strax þegar ég flaug heim fannst mér ekki farið eftir þeim reglum sem voru við lýði á Íslandi, í flugvélinni sat ég við hliðina á alls ókunnugri manneskju þrátt fyrir að fjöldi sæta var laus í vélinni.

Eftir að hafa farið í Covid-19 sýnatöku í Leifsstöð var brunað beint heim norður í land. Þar fór ég algjörlega eftir þeim reglum sem settar voru um heimkomusmitgát og lauk henni þegar SMS-ið frá smitrakningu kom, eftir seinni sýnatökuna, um að ég reyndist vera neikvæð.

Þá fór ég að fara út á meðal fólks, í göngutúra og verslanir. Nýlega varð ég fyrir hálfgerðu áfalli, ég hef margoft orðið þess vör að það er engan veginn verið að virða mannréttindi mín og þær reglur sem settar hafa verið vegna 2ja metra reglunnar.

Á covidvefnum segir: „Vinnustaðir, opinberar byggingar, verslanir og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi skipuleggja starfsemi sína í samræmi við ofangreint og tryggi að ekki séu fleiri en 100 einstaklingar í sama rými og að í minni rýmum séu ekki fleiri en svo að hægt sé að tryggja 2 metra fjarlægð milli einstaklinga.“

Þegar ég maldaði í móinn í eitt sinn upplifði ég mig sem nöldrandi leiðindaskjóðu. Því í ósköpunum á ég að þurfa að upplifa leiðindi vegna þess að ég vil fara eftir þeim reglum sem settar hafa verið til að verja okkur? Er bara alls ekki sátt við það.

Ég er ekki tilbúin til að forðast það að fara út á meðal fólks, sækja verslun, þjónustu og lifa eins eðlilegu lífi og hægt er þessa dagana, af því að sumum samborgurum mínum finnst þeir ekki þurfa að fara eftir reglum!

Á covidvefnum segir: „Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga með fjöldatakmörkun verði krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn.“

Auðvitað er hægt að finna lausn á öllu, förum bara eftir tilmælum á meðan þessar takmarkanir eru í gildi. Ég ætla að taka ábyrgð á mér og gera allt sem í mínu valdi stendur til að viðhalda öryggi mínu og minna.

Get alls ekki sætt mig við að vera litin hornauga þegar ég bið fólk vinsamlega að taka tillit til 2ja metra reglunnar. Vil einnig þakka þeim sem virða hana.

Vinsamlega takið tillit til mín.

Ást og friður,
Kristín Sigurjónsdóttir

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir