Er Skuldahlutfall mikilvæg tala?

Umræður hafa verið í gangi um skuldir sveitarfélagsins Skagafjarðar að undanförnu og hafa þær umræður snúist um krónutölur skulda en ekki getu sveitarfélagsins til að standa undir þessum skuldum eða tilurð þeirra.  Skuldahlutfall er einmitt mælikvarði á getu sveitarfélagsins til að standa undir skuldum sínum og það gerir okkar sveitarfélag mjög vel og má benda á, því til staðfestingar, að í skýrslu Íslandsbanka um fjármál sveitarfélaganna frá 2017 segir um sveitarfélagið Skagafjörð: „Lítil skuldsetning og rekstur stendur vel undir núverandi skuldsetningu“.

Það má líka nálgast samanburð skulda með að framreikna skuldir sveitarfélagsins með vísitölu í krónutölu og þá kemur í ljós að skuldir hafa verið svipaðar í framreiknaðri krónutölu um langt skeið en það sem hefur breyst er geta sveitarfélagsins til að standa undir sínum skuldum og hvernig þessar skuldir eru til komnar.

Skuldahlutfall Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur lækkað hratt á líðandi kjörtímabili og er nú 117,1%

 

Það er staðreynd að tilurð skulda skiptir líka miklu máli í þessu samhengi en á undanförnum árum hafa helstu fjárfestingar Sveitarfélagsins verið í hitaveituframkvæmdum í dreifbýli Skagafjarðar en veituframkvæmdir hafa langan afskriftatíma og skila jafnframt tekjum til greiðslu skulda.

Það er líka staðreynd að lífeyrisskuldbindingar sveitarfélagsins voru árið 2010 705 milljónir en eru núna 1146 miljónir, en þessar skuldbindingar eru áætluð skuldbinding vegna greiðslu lífeyris starfsmanna sveitarfélagsins næstu 40 árin, eigi að síður eru þessar skuldbindingar hluti skulda á efnahagsreikningi, þær koma þó ekki að nema litlum hluta til greiðslu árlega.

Skuldahlutfall er því mikilvæg tala og er okkar stefna á lista Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði að halda áfram að styrkja fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og lækka skuldahlutfall.

Gunnsteinn Björnsson
Sveitarstjórnafulltrúi og skipar 3. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir