Eyrúnu Ingibjörgu til forystu.
Það velkist engin í vafa um það að framundan eru erfiðir tímar. Að baki er gervigóðæri, sem að vísu kom aldrei út á land nema þá eins og stressaður túristi á fljúgandi fart, algerlega ófær um að tylla niður fæti í smástund og njóta þess sem landsbyggðin hefur uppá að bjóða.
En nú eru nýir tímar og án efa er tími hinna gömlu dyggða aftur upp runninn, ekki af því að við höfum val þar um heldur vegna þess að án þeirra á íslenskt samfélag sér tæpast viðreisnar von. Okkur er brýn þörf á því að endurvekja með þjóðinni jákvætt viðhorf til hófstillingar, ráðdeildarsemi, samviskusemi og heiðarleika. Og ásamt þessu þarf hugrekki og áræði til að takast á við erfiðleikana sem ótvírætt eru allt í kring og munu ekki leysast af sjálfu sér.
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir hefur boðið sig fram til að vera í forystusveit sjálfstæðismanna í Norð-Vesturkjördæmi og er það vel, því hún hefur alla þá mannkosti til að bera sem sannarlega er spurn eftir og nauðsynlegir eru í þeim verkefnum sem framundan eru. Þó er ekki síður mikilsvert að hún á auðvelt með að hrífa aðra með sér til góðra verka.
Mikilvægt er að íslenskt samfélag fái að njóta krafta hennar til uppbyggingarstarfsins og þess vegna er nauðsynlegt að hún hljóti öruggt sæti á lista sjálfstæðismanna í Norð-Vesturkjördæmi. Hún hefur þekkingu og reynslu til þess. Hún hefur setið í mörgum nefndum á landsvísu og þekkir þess vegna vel til víða um land. Tengsl hennar við atvinnulífið eru sterk; reynsla hennar af sjálfstæðum atvinnurekstri og rekstri sveitarfélags mun ótvírætt nýtast í þeim erfiðu verkefnum sem ekki verður undan vikist.
Góðærið gerði fremur skamma dvöl í Tálknafirði og þess vegna hefur alltaf reynt á útsjónarsemi hvort sem um einkarekstur eða rekstur sveitarfélagsins var að ræða. Þar kom berlega í ljós að Eyrún var öllum þeim vanda vaxin sem þar mætti henni.
Hikum ekki við að velja Eyrúnu til forystu á lista sjálfstæðismanna á Norð-Vesturlandi.
Ásdís Auðunsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.