Feður, nýtum tækifærin! - Áskorandinn Karl Jónsson brottfluttur Króksari

Það að verða faðir krefst mikillar ábyrgðar en færir okkur jafnframt mikla gleði. Við þekkjum þetta með bleyjuskipti, pelagjafir og hvað þetta heitir nú allt saman. Þarna erum við að tala um kornabörn að sjálfsögðu og umönnun þeirra. Þegar fram líða stundir og börnin eldast kemur önnur samfélagsleg krafa til sögunnar. Krafa sem flestir geta staðið undir en þarfnast stefnumörkunar og áætlanagerðar. Það er nefnilega enginn pabbi með pöbbum nema kunna skil á því sem bókmenntafræðingar kalla „pabbabrandarar.“

Þetta eru brandarar sem allir hlæja að og það er leitun að annarri tegund skops eða spaugs sem hittir þannig í mark. Sumir hlæja af því að þeim finnst brandarinn virkilega fyndinn. Aðrir hlæja vegna þess hversu fáránlegur þeim finnst brandarinn og þriðji hópurinn hlær af því að hinir hlæja. Það er því leitun að öðru eins skopi sem nær til svo margra.

En hvað getur inntakið verið í stefnumörkun og áætlanagerð? Í fyrsta lagi er íslenskt mál einstaklega hentugt til að sjóða saman góðan pabbabrandara. Það er hægt að leika sér endalaust með málið. Dæmi um það varð til hjá mér um daginn þegar eiginkonan bað mig um að koma út og standa fyrir kindum svo þær álpuðust nú ekki eitthvað annað en þær áttu að gera. Ég leit á frú mína sposkur á svip og mælti: „Ja, ég sé nú ekkert því til fyrirstöðu.“ Þannig að íslenskt mál er gulls ígildi og endalaust hægt að búa til góða brandara í kring um það.

Flestir á miðjum aldri muna eftir Kaffibrúsaköllunum og Úllen dúllen doff skemmtihópnum. Þar má finna margan gullmolann sem hægt er að fleygja fram í fermingarveislum, skírnum og öðrum kristnum samkomum að ekki sé minnst á stórafmæli. Það eru nefnilega mjög fáir sem muna eftir t.d. Kaffibrúsaköllunum í dag. Þess vegna er eins og um sé að ræða nýja og ferska brandara sé slegið um sig með þeim.

Þriðja atriðið í stefnumótun er „að grípa orðið.“ Að nýta sér þegar fólk mismælir sig, nú eða segir eitthvað sem getur haft tvíræða merkingu í för með sér. Þá er hægt að skjóta inn fyndnum athugasemdum sem venjulega slá í gegn, með vísan til þess sem fram kemur hér að ofan að öllum þyki pabbabrandari fyndinn.

En gamanið nær fyrst hápunkti eftir að börnin vaxa eilítið úr grasi og ná það sem kallast unglingsárunum. Þá er ákveðin áskorun falin í því að ganga fram af unglingunum. Best er að gera það í fjölmenni, t.d. í veislum eða öðrum samkomum og eftir því sem unglingurinn roðnar meira og lýtur höfði dýpra, því betri er árangur gjörningsins. Og besta einkunn sem hægt er að fá fyrir góðan pabbabrandara er; „Æi pabbi!!“ Þá vitum við að við erum að gera eitthvað rétt í uppeldi unglingsins.

Eins og áður segir felst í því mikil ábyrgð að verða faðir. Þau eru mörg verkefnin sem við þurfum að sinna og eitt af því er þetta stóra að taka að sér að halda uppi góðum húmor meðal barna og samtíðarfólks . 
Feður, við skulum  nýta hvert tækifæri til að vera skemmtilegir!!

Ég skora á Sigurð Jóhann Hallbjörnsson að koma með pistil.

Áður birst í 17 tbl. Feykis 2019

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir