Ferðahestar – Kristinn Hugason skrifar
Hvergi reis hlutverk íslenska hestsins sem þarfasta þjónsins öllu hærra en í hlutverki ferðahestsins.
Í Dýravininum árið 1895 birtist mergjuð frásögn sem er á þessa leið:
„Sveinn læknir Pálsson sagði svo sjálfur frá, að hann hefði eitt sinn farið úr Reykjavík svo drukkinn af spönsku brennivíni, að hann vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Það var um vetur, og frost mikið; en hann ætlaði austur yfir fjall og var einn síns liðs. Þá er hann var kominn eitthvað nálægt Lyklafelli, datt hann af baki og vissi ekki af sér um hríð. Hann raknaði við við það, að hestur hans stóð yfir honum og var að nugga sér við hann til að vekja hann. Ætlaði Sveinn þá upp að standa, en gat ekki, því hann var kalinn mjög á fótum.
En er hesturinn sá það, að hann gat ekki upp staðið, lagðist hann niður hjá honum svo haganlega, að Sveinn gat bröltað á bak. Heldur hesturinn nú áfram sem leið lá austur Dyraveg; en ekkert vissi læknirinn, hvað hann fór, og lét hestinn ráða. Fór klárinn nú svo hratt sem hann gat, svo að lækninum væri óhætt á baki hans, og létti ekki ferðinni fyrr en hann kom á hlað á bæ. Ekki komst læknirinn af baki, en hesturinn fór þá fast upp að bæjardyrunum, svo að læknirinn gat náð til að berja í þilið með svipu sinni. Var þá komið út og Sveinn borinn inn og látinn upp í rúm og þíddur. Þetta var í Grafningi, en ekki man ég á hverjum bæ. Svo vildi til, að þar bjó yfirsetukona, sem Sveinn læknir hafði áður kennt og þótti góð að hjúkra veikum. Þótti honum það hafa happalega tiltekizt, úr því sem gjöra var, og þakkaði það hesti sínum. Kvaðst hann eftir það seint mundi heyra þær sögur af viti hesta, sem hann ekki tryði.“
Rétt er að hafa í huga hvað frásögn þessa varðar að útgefandi ritsins var Dýraverndunarfélag danskra kvenna en það kom út hér á landi fyrir tilstyrk Hins íslenska þjóðvinafélags á árunum 1885 til 1916; kvennahreyfingin var á þessum tíma mjög áfram um bindindismál. Svo sagan af hinum stórmerka manni, Sveini Pálssyni (1762-1840) lækni og náttúrufræðingi þjónaði eflaust tvennum tilgangi: Lofsöngur til skynsemi, dugnaðar og tryggðar íslenska hestsins í hlutverki ferðahestsins og að vara við ógnum ofdrykkjunnar.
Ferðahestarnir urðu að vera ýmsum kostum búnir, þeir urðu að búa yfir skynsemi, tryggð og dugnaði eins og frásögnin hér að framan ber með sér en þessir kostir urðu að standa á ómældri innistæðu þreks og seiglu. Eðlisþáttum sem dregnir eru fram með ógleymanlegum hætti, hvað menn jafnt sem hesta varðar, í vestranum frábæra: True Grit, þar sem John Wayne leikur, í einu af sínum síðustu hlutverkum, hinn einstaka Robert Cogburn. Eitt höfðu íslensku hestarnir þó framyfir hina amerísku frændur sína en það er að þeir fóru vel með. Að fara vel með knapann er hinn stóri eðliskostur íslenska hestsins, það er arfur gagnhestsins kominn langt aftur úr öldum og viðhélst hér á landi, ekki hvað síst vegna þeirra krafna sem gerðar voru til eðliskosta góðra ferðahesta. Það er jafnframt arfur sem við verðum að viðhalda þó að við gerum auknar kröfur til glæsibrags hestsins á gangi og getu hans á grunngangtegundum þremur, þ.e. feti, brokki og stökki, einkum þó hægu stökki, eins og nú er efst á baugi.
Íslenski hesturinn telst til svokallaðra gagnhestakynja heimsins og hefur búið yfir tölti og skeiði alla tíð, þó svo að töltreið, a.m.k meðvitað, eigi sér tiltölulega skamma sögu, skeiðið var hins vegar í hávegum haft frá örófi alda. Þessar gangeigindir, sem eru raunar svo skyldar að nálgast að vera tvær útfærslur á sama lagi, eru taldar eiga uppruna sinn í austurvegi (Mongólíu) og hestar með þessa gangeiginleika hafi verið til í Noregi og þar um kring um landnám. Þangað hafi þeir komið með víkingum sem herjuðu í austurveg (Rússlands).
Áður en ég slæ botnin í þessa umfjöllun um ferðahestinn er svolítið gaman að velta fyrir sér ólíkum eiginleikum hrossa eftir uppruna þeirra. Mestur hefur breytileikinn þótt vera á milli skagfirskra hrossa og þeirra hornfirsku. Á sýningu í Sögusetri íslenska hestsins má sjá þróunina hvað þetta varðar síðustu áratugina, sjá hér http://www.sogusetur.is/static/files/pdf/1-upprunikostanna_upphaf_42x30sm.pdf
Einnig fjallaði ég ögn um þetta í skrifum hér í Feyki á sl. ári. Í þessum gömlu stofnum þóttu takast á léttleiki og hlaupagleði gammsins léttvíga annars vegar en seigla og festa þrekhestsins hins vegar. Í kvæðum tveggja af höfuskáldum fyrri tíðar má segja að þetta komi skýrt í gegn. Annars vegar léttleikinn í Spretti Hannesar Hafstein en þar hljóða tvö fyrstu erindin sem svo:
Ég berst á fáki fráum
fram um veg.
Mót fjallahlíðum háum
hleypi ég.
Og golan kyssir kinn.
Og á harða, harða spretti
hendist áfram klárinn minn.
Það er sem fjöllin fljúgi
móti mér;
sem kólfur loftið kljúfi
klárinn fer,
og lund mín er svo létt,
eins og gæti eg gjörvallt lífið
geysað fram í einum sprett.
Þjóðskáldið og stjórnmálamaðurinn Hannes Hafstein (1861-1922) orti Sprett í eða á grunni minninga frá ferð sinni norður um land er hann var einhverju sinni hér heima á námsárum sínum í Kaupmannahöfn. Heldur kveður við annan tón í kvæðinu Sveinn Pálsson og Kópur eftir hið stórbrotna skáld Grím Thomsen (1820-1896), skáld karlmennsku og æðruleysis. Kvæðið er byggt á sönnum atburði er hinn sami Sveinn Pálsson læknir og fyrr hefur komið hér við sögu reið yfir Jökulsá, ófæra af jakaburði en Hestamannafélagið Kópur heitir einmitt í höfuð þessa stórmerka ferðahests. Hér á eftir fara fyrsta, fjórða, fimmta, sjötta og sjöunda erindi kvæðisins.
Ófær sýnist áin mér,
állinn þessa verstur,
stóra jaka straumur ber,
stendur hann enginn hestur.
Hér er ort í orðastað margreynds bónda, sem lýsir svo staðháttum og eðli árinnar og hvetur lækni að á hjá sér og bíða morguns, þá verði úr fljótinu mesti ofsinn. Læknir neitar og segir að hann verði yfir fara „kona í barnsnauð bíður mín / banvæn hinumegin“. Segir bóndi þá að hann skuli ljá lækninum Kóp og feli þá báða í Guðs hendur: „honum, sem fljóði fóstrið skóp, / fel eg ykkur báða“. Síðan segir í kvæðinu:
Vandlega kannar Kópur straum,
í kvíslina drepur grönum;
slakan lætur læknir taum
leiðratanda vönum.
Var í srengnum stríðast fall, -
straums í ólgu halla
jakabólgin bylgjan svall
blakk þó hrakti varla.
Óð hægt Kópur, yfir skall,
æðar jökuls þjóta,
drengs þó hjarta drap ei stall,
drösull missti ei fóta.
Reyndi á beinin föst og fim
flaums í þriðja svipnum;
líkt og á skeri brýtur brim,
braut á stólpa-gripnum
Í niðurlagi kvæðisins segir svo frá farsælum lokum þessarar svaðilfarar sem gekk nærri hestinum og að lækninum auðnaðist ætlunarverk sitt. Þannig var þetta á okkar fagra en harðbýla landi, á ýmsu gekk í ferðum en þar skiptu sköpum ferðahestarnir, þrek þeirra og þróttur.
Á Sögusetri íslenska hestsins á Hólum í Hjaltadal er sögu ferðahestsins gerð nokkur skil en á neðri hæð sýningarhúsnæðisins í eftirlíkingu af gamalli skemmu sem þar er, er sýnd kvikmynd sem sýnir m.a. bæjarferð bænda sem fóru ríðandi langan veg, allt fer þó mjög skaplega fram, húsfreyja enda með í för. Hlutverk ferðahesta og reiðhestanna skaraðist þó mjög sem fyrr er fram komið en í næstu grein verður fjallað nokkuð um reiðhesta eða það sem kalla mætti eins konar sporthesta fyrri tíðar.
Áður birst í 9. tbl. Feykis 2019.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.