Ferðaþjónusta til framtíðar

Ferðaþjónustan hefur verið að stóreflast á Íslandi undanfarin ár og þar hefur landsbyggðin tekið stökk fram á við í framboði og gæðum með fjölbreyttri þjónustu og svæðisbundinni afþreyingu fyrir ferðafólk. Gjaldeyrisskapandi störf eru þau störf sem við þurfum að leggja mikla áherslu á við endurreisn efnahagslífsins og þar fléttast saman grunnatvinnuvegir okkar sjávarútvegur, landbúnaður og ferðaþjónusta. Á þessum traustu stoðum þurfum við að byggja á þar sem þekking og kunnátta er til staðar. Samtvinna þarf þessar greinar í markaðssetningu innanlands sem og erlendis.

 

Ávinningur af sköpun starfa í ferðaþjónustu mikill

Hvert starf sem verður til í ferðaþjónustu er margfalt ódýrara en störf t.d. í stóriðju svo ríkið á hiklaust að beina stuðningi sínum í auknum mæli til ferðaþjónustunnar í gegnum þær stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga sem við höfum í dag. Þekkingarsetur og háskólar á landsbyggðinni hafa verið að þróa með heimamönnum rannsókna, mennta og nýsköpunarstarf sem nýtist í fjölbreyttri hugmyndasmiðju í tengslum við hvert svæði. Við í Vinstri grænum teljum að hægt sé að skapa skilyrði fyrir allt að 4000 störfum til viðbótar á næstunni í ferðaþjónustu og tengdum greinum og að vaxtarmöguleikarnir séu miklir. Stuðningur ríkis og sveitarfélaga við ferðaþjónustu á eftir að skila sér margfalt til baka.

 

Frumkvæði heimamanna

Krafturinn og frumkvæðið verður alltaf að koma frá heimamönnum sjálfum en veita þarf nauðsynlegan bakstuðning og tryggja efnilegum verkefnum brautargengi. Tækifærin liggja í þeirri auðlind sem hvert svæði hefur upp á að bjóða t.d. í sögu, menningu og mat og öðrum hlunnindum svæðisins.

Sífellt fleiri ferðaþjónustuaðilar hafa verið að sækja sér meiri menntun t.d. til Háskólans á Hólum og eru þar með öflugri til að takast á við ný verkefni í ferðaþjónustu. Uppbygging í sjóstangveiði er einn af vaxtarbroddunum á landsbyggðinni og einnig móttaka farþega af skemmtiferðaskipum svo dæmi séu tekin. Víða eru tækifæri sem opinberir aðilar og heimamenn þurfa að þróa áfram með atvinnulífinu og nýta til þess þá möguleika sem við höfum í þeim mannauði og þekkingu sem byggst hefur upp í þekkingarsetrum víðsvegar um landið.

 

Búið verði vel að ferðaþjónustu sem atvinnugrein

Takmarkað aðgengi að fjármagni, háir vextir og verðbólga hafa gert mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum sem og öðrum erfitt fyrir á undanförnum mánuðum. Þess vegna er það mjög brýnt að stöðugleika verði komið á, vextir lækki og að bankar fari aftur að veita almenningi og fyrirtækjum eðlilega fyrirgreiðslu. Það gæti reynst ferðaþjónustunni dýrkeypt ef fyrirtæki í greininni komast ekki í gegnum þessar hremmingar sem fjárglæframenn og fyrrum stjórnvöld hafa komið okkur í. Við það tapast þekking, mannauður og markaðssetning sem tekur tíma og fjármuni að byggja upp aftur og  langan tíma getur tekið að endurheimta. Vinstri græn telja það eitt af brýnustu verkefnum stjórnvalda að stuðla með markvissum hætti að stórátaki í uppbyggingu ferðaþjónustu vísvegar um landið og skjóta þannig styrkari stoðum undir eina af grunnatvinnugreinum þjóðarinnar. Við skulum óhikað vinna að framgangi ferðaþjónustu í landinu í sátt við umhverfið og náttúruna enda tækifærin óþrjótandi í okkar fallega landi.

 

Lilja Rafney Magnúsdóttir, skipar 2. sæti á lista VG í NV-kjördæmi

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir