Fjárgötur myndanna - Allt fram streymir ár og dagar

Reynir, Leifur, Baldi og Itti. Mynd Hörður.
Reynir, Leifur, Baldi og Itti. Mynd Hörður.

Fyrir 56 árum kom Reynir Karlsson Frammari, landsliðsmaður í knattspyrnu síðar íþróttafulltrúi ríkisins á Krókinn að kenna til þjálfunar í yngri flokkum knattspyrnunnar. Reynir lauk knattspyrnuþjálfaraprófi frá Íþróttaháskólanum í Köln 1960. Hann þjálfaði á árunum 1954 -1971 meistaraflokka Fram, ÍBA, ÍBK, Breiðablik og landsliðið um hríð.

Höfundurinn, Hörður Ingimarsson.

Höfundurinn, Hörður Ingimarsson.

Við vorum fjórir sem hlutum eldskírnina hjá Reyni. Ástvaldur Guðmundsson, magnaður varnarmaður talinn jafnast á við Jón Stefánsson í Í.B.A. á Akureyri sem spilaði sömu stöðu í landsliði Íslands. Ástvaldur, eða Itti, stofnaði Radíó og sjónvarpsþjónustuna á Króknum um 1968 og endaði sem yfirmaður tæknimála í Ráðhúsinu í Reykjavík við Tjörnina. Baldi, Baldvin Kristjánsson, var magnaður millivegalengdarhlaupari, góður knattspyrnumaður, bakarameistari, m.a. með bakarí á Blönduósi og náði þar frábærum árangri í skák á þeim árum. Rak matvörubúðina á Króknum. Hefur kennt urmul af fólki á bíl, vinsæll bankamaður og frábær meðhjálpari í Sauðárkrókskirkju á síðari árum. Leifur Ragnarsson var eitilharður með snöggar, óvæntar, hreyfingar með hæfileika eins og George Best. Hefði prýtt landslið Íslands með sóma. Hann var skæðasti sóknarmaður um þvert Norðurland á sínum tíma. Leifur helgaði sig flugumsjón og málefni flugsins syðra.

Sögumaður spilaði lengi vinstri kant og engar frægðarsögur af honum fyrr en Óli B. Jónsson, sem þjálfaði Keflvíkinga 1965 sagði sögumanni að hann ætti að spila miðvörð, jafnvígur á vinstri og hægri fót og góður skallamaður. Sögumanni var boðið það hlutverk hjá Keflvíkingum en Norðurlandið dró meira.

Það var Óli B. Jónsson sem stýrði Völsurum til jafnteflis við Benfica 1968 á Laugardalsvelli sem yfir 18 þúsund manns urðu vitni að. Maður þess leiks var Páll Ragnarsson, tannlæknir og bróðir Leifs, sem hafði öll tök á besta leikmanni heims á þeim tíma, honum Eusébio da Silva Ferreira, og þessa verður lengi minnst í íslenskri knattspyrnu. Palli Ragnars kom á ný heim á Krókinn í knattspyrnuna og varð mikill leiðtogi og frömuður hjá Tindastóli.

Frægðar og sannar grobbsögur liðinnar aldar verða ekki fleiri að sinni en þær mega auðvitað ekki gleymast.

Baldi Kristjáns, Páll Ragnarsson og Hörður eru enn til staðar og gagns á Króknum.

Hörður Ingimarsson

Áður birst í 38. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir