Flugið – komið til að vera.

Davíð Jóhannsson.
Davíð Jóhannsson.

„Ég þarf að skreppa aðeins út á flugvöll”. 
Varla var ég búinn að sleppa orðinu við kollega mína á Faxatorginu, þegar ég hugsaði hvað þessi setning hljómaði eitthvað vel. Og af hverju? Jú, það var von á fyrsta áætlunarfluginu til Sauðárkróks í næstum fimm ár. Fljótlega fór ég að heyra hjá fólki hvað því þætti gaman að heyra orðið aftur í flugvél og sjá flugvöllinn upplýstan í vetrarmyrkrinu. Mér er engin launung í því að eitt af því sem lagðist hvað skringilegast í mig þegar ég tók við starfi mínu hér fyrir rúmum tveimur á árum var að hingað væri ekki flogið lengur.  Ekki bara að þetta standi fyrir ákveðin þægindi atvinnu- og búsetusvæðis, heldur þótti mér sú staðreynd að þessi fyrrum kandidat sem varaflugvöllur í millilandaflugi með eina lengstu flugbraut landsins væri orðinn skilgreindur af flugmálayfirvöldum sem „lendingarstaður" líkt og Bakki og Stóri-Kroppur (já, upp með landakortið...) með allri virðingu fyrir þessum flugvöllum. Og sem gamall flugafgreiðslumaður úr innanlandsfluginu mundi ég eftir þeim umsvifum, sem fylgdu fluginu hingað þegar að best lét.

Vissulega hefur ýmislegt breyst, en þegar mér varð ljóst að eiginlega væru allir hlutaðeigandi á því að flug hingað þyrfti að hefjast á ný og að ýmsar forsendur væru talsvert aðrar en þegar það var reynt síðast, voru það nokkur vonbrigði að sjá málið stöðvast að því er virtist alltaf á sama staðnum. Ekki verður farið  út í þá sálma hér, en einhvern veginn hafði maður á tilfinningunni að þetta hlyti að gerast og vitandi af góðu fólki, sem var að vinna að málinu hlyti þetta ferli að bera árangur, þó ótækt hafi reynst að meta einhverja tímasetningu.  Það er svo skemmst frá því að segja að þegar minnst varði var komin ákvörðun og með aukaframlagi í sóknaráætlun landshlutans tókst að losa um ákveðna stíflu, sem hafði aftrað mönnum frá að „keyra þetta í gang".

En hvar stöndum við nú ? Allflestir virðast mjög sáttir við að flugið sé komið og nú er það ekkert nema notkunin/nýtingin sem ræður því hvert framhaldið verður. Það heyrast einstaka úrtöluraddir að þetta verði nú ekkert umfram þennan hálfsárs reynslustíma og ástæðan fyrst og fremst að fólki þyki flugið allt of dýrt með tilheyrandi samlíkingum flugverðs á sólarströnd eða til einhverrar heimsborgar. Þarna erum við auðvitað háð markaðslögmálum, sem væru efni í aðra grein, en fyrst og fremst hjá þeirri staðreynd að vera fámenn þjóð í víðfeðmu landi og um 60.000 íbúar landsbyggðarinnar deila því hlutskipti að búa við dýrt innanlandsflug, sem þó er þeim nauðsynlegt.   En við erum aldeilis ekki eina landið í álfunni, þar sem íbúar svæða utan höfuðborgar þurfa að sækja drjúgan hluta opinberrar þjónustu sinnar þangað. En við erum svolítið ein á báti um að hafa ekki horfst í augu við þessa staðreynd í formi þess að stjórnvöld grípi til aðgerða til jöfnunar þessarar skekkju.

Nú horfir vonandi til betri vegar og svo virðist sem ráðamenn séu fyrir alvöru farnir að ræða aðgerðir eins og t.d. hina svokölluðu „skosku leið” til þess að rétta hlut landsbyggðarfólks með niðurgreiðslu á flugsætum. Hér er afar mikilvægt að Skagafjarðarsvæðið lendi innan þeirrar skilgreiningar og verði hluti af slíku kerfi, en skv. skilgreiningu ráðuneytis er allt að þriggja og hálfs tíma ferðatími ásættanlegur til þess að ná í þjónustu í höfuðborginni. Þessi „mjaltakonuformúla” var meðal þess, sem var notað lengi vel til þess að réttlæta að áætlunarflug á Sauðárkrók væri ekki lífsspursmál.  Þar til einhverjar aðgerðir verða lagðar fram þarf að þreyja þorrann og eitthvað lengur, en höfum við svo mikinn tíma til þess að festa flugið á Sauðárkrók í sessi ?

Það er ekki gefið og það verða eflaust einhverjir, sem sjá þennan tilraunafasa, sem af eða á með framhaldið. Því er því mikilvægt að ákveðnir millileikir verði teknir t.d. í formi samninga stéttarfélaga á afsláttarsætum fyrir sína  félagsmenn, en þessi ráðstöfun hefur t.d. haft mikla þýðingu fyrir nýtingu áætlunarflugs á Húsavík og Vestmannaeyjar og með þessu náðst að skapa ákveðinn grunn. Öll þau fyrirtæki og stofnanir, sem geta nýtt sér flugið í báðar áttir, færa svo sinn skerf í púkkið því hafa ber í huga að bílferð fram og til baka á kílómetragjaldi (skv. skrá Ríkisskattstjóra)  er orðinn hátt í 70.000 krónur.

Undirritaður sannreyndi það einnig nýlega í tengslum við skipulagningu málþings hve mjög vilji fólks að sunnan að koma í dagsferð norður var skýrari þegar flug var í boði. Þá er einnig mikilvægt að hafa í huga að allar staðarvalskannanir fyrir nýja atvinnustarfsemi taka til fjarlægðar frá innanlandsflugvelli.  Sá stutti fyrrvari sem fluginu var komið á með, gerði það að verkum að ferðaþjónustan gat ekki nýtt sér það first um sinn inn í sín prógrömm nema að litlu leyti, en möguleikarnir þar eru vissulega fyrir hendi þegar litið er til lengri tíma. Því er viðbúið að áætlunin í sumar verði eitthvað þynnri og hafa ber skilning á því í ljósi þessara aðstæðna. Flugið kemur þó strax að góðum notum á vissan hátt, því um næstu helgi verður t.d. í fyrsta skipti hægt að fljúga hingað inn erlendum söluaðilum af Midatlantic ferðakaupstefnunnni, sem hefja munu kynnisferð um Norðurland vestra að morgni dags, þræða nokkra af aðal viðkomustöðum svæðisins og enda að kveldi í Reykjavík.  Það er því óskandi að árið í ár, á 130 ára ártíð Alexanders Jóhannessonar og 30 ára afmæli Alexandersflugvallar, sem og tveggja annarra merkisártíða í flugsögu Skagafjarðar, verði árið sem áætlunarflugið kom til að vera.

 

Davíð Jóhannsson.
Höfundur er ráðgjafi á sviði ferðamála hjá SSNV 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir