Frá hugmynd að veruleika :: Áskorendapenninn Kolbrún Dögg Sigurðardóttir Sauðárkróki

Kolbrún Dögg t.h ásamt Kötlu dóttur sinni.
Kolbrún Dögg t.h ásamt Kötlu dóttur sinni.

Við hjónin erum dugleg að láta okkur dreyma og kasta á milli okkar hinum ýmsu hugmyndum sem skjóta upp kollinum. Við leyfum ímyndunaraflinu að toga okkur áfram og leiða okkur á ótroðnar slóðir. Engin hugmynd er óraunhæf, en auðvitað eru þær misgóðar. Við reynum svo að grisja úr þeim hugmyndum sem við fáum, sumar verða svo að veruleika, aðrar ekki. Sumar toga meira í mann, yfirleitt þær sem eru stórtækar og krefjast þess að maður fari út fyrir þægindarammann. Okkur finnst hollt að henda okkur stundum út í djúpu laugina og láta draumana rætast og hugmyndir verða að veruleika. Að fara út fyrir þægindarammann gefur manni tækifæri á að vaxa í lífi og starfi og öðlast breiðari sýn á heiminn.

Það að flytja á Krókinn úr höfuðborginni var t.d. ein af þessum hugmyndum okkar sem við létum verða að veruleika. Við ætluðum að prófa í eitt ár, þau eru orðin sex og við sjáum ekki fyrir endann á því ævintýri.

Einn daginn, eftir að hafa keyrt fram hjá gömlu hlöðunni við Sauðárhlíð, fór okkur enn á ný að dreyma. Dreyma um að finna hlöðunni nýtt hlutverk. Eitthvað sem myndi gagnast íbúum á svæðinu og mögulega fá fleira fólk til að stoppa við á Króknum á leið sinni um landið. Við byrjuðum að kasta á milli okkar hugmyndum og áttuðum okkur fljótt á því að veitingastaður væri eina vitið. Staður þar sem fólk gæti setið og notið matar og drykkjar með náttúruna við gluggann, svona eins konar félagsmiðstöð fyrir bæjarbúa. Fólk gæti þá komið gangandi úr öllum hverfum bæjarins, enda staðsetningin afar hentug. Við vissum að þetta yrði gríðarleg vinna en hugmyndin var of góð til að sleppa henni þannig að við létum slag standa. Við fengum til liðs við okkur öflugt fólk sem hjálpaði okkur að láta drauminn verða að veruleika.

Þetta síðasta ár er búið að vera strembið en líka skemmtilegt og með eindæmum lærdómsríkt. Gamla hlaðan er nú orðin að veitingastaðnum Sauðá og móttökurnar hafa farið fram úr okkar björtustu vonum. Takk allir sem hafa lagt leið sína til okkar.

Við hjónin erum ekki af baki dottin og erum uppfull af hugmyndum sem okkur langar að framkvæma í tengslum við Sauðá, við erum bara rétt að byrja!

Ég ætla að skora á samstarfskonu mína Emmu Sif Björnsdóttur að taka við pennanum.

Áður birst í 33. tbl.  Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir