Guðbjart í 1. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar

Guðbjartur Hannesson

Það er gott til þess að vita að góður félagi og vinur, Guðbjartur Hannesson alþingismaður, gefi áfram kost á sér til að leiða lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi á komandi kjörtímabili.

Guðbjartur var fyrst kjörin til setu á Alþingi árið 2007. Hann var formaður félags- og tryggingamálanefndar á nýliðnu kjörtímabili, sat í menntamálanefnd og fjárlaganefnd en er nú forseti Alþingis.
Í störfum sínum á Alþingi lagði Guðbjartur þunga áherslu á almannahag og mun halda því áfram fái hann til þess umboð kjósenda. Hann telur baráttuna framundan snúast nýtt og betra samfélag þar sem samábyrgð, jafnrétti og aukið lýðræði eru meðal þeirra gilda sem berjast þarf fyrir.

Guðbjartur leggur einnig ríka áherslu á að auka vægi landsbyggðarinnar, bæði með eflingu atvinnulífsins þar, auknum tækifærum til framhaldsmenntunar í héraði og styrkingu háskólanáms og símenntunar.
Guðbjartur á að baki 25 ára farsælan starfsferil sem skólastjóri Grundaskóla á Akranesi og er sem slíkur mikils metinn bæði af nemendum, foreldrum og starfsfólki. Hann nýtur einnig virðingar innan skólasamfélagsins sem faglegur og sterkur leiðtogi.

Við sem höfum unnið með Guðbjarti í gegnum árin vitum að þar fer góður maður, traustur og trúverðugur. Hann tekur ætíð stöðu með þeim sem minna mega sín og engum treystum við betur en honum til að standa vörð um hag heimilanna og alls almennings í þeirri orrahríð sem framundan er í þjóðmálum. Hann mun takast á við erfiðleikana af óeigingirni og myndugleika.

Tryggjum Guðbjarti 1. sætið á lista Samfylkingarinnar í komandi kosningum með því að veita honum atkvæði okkar í prófkjörinu dagana 6.-8.mars.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir