H-eldri borgarar: mikilvægi góðrar heimaþjónustu

Þjóðin er að eldast og hópur eldri borgara fer sífellt stækkandi. Þó hefur hjúkrunarrýmum og þjónustuíbúðum fyrir aldraða ekki fjölgað í takt við það síðustu ár. Töluvert hátt hlutfall eldri borgara er því tilneytt til að búa í eigin húsnæði mun lengur en þau hafa getu til sökum aldurs eða veikinda.

Það má segja að heimaþjónusta fyrir eldri borgara sé nokkurs konar mótsvar sveitarfélaganna við vöntun á hjúkrunarrýmum og þjónustuíbúðum en markmið heimaþjónustu fyrir eldri borgara í Sveitarfélaginu Skagafirði ,,… er að efla fólk til sjálfsbjargar og gera því kleift að búa sem lengst í heimahúsi við sem eðlilegastar aðstæður.” (Vefsíða Sveitarfélagsins Skagafjarðar, heimaþjónusta). Í þessu samhengi má einnig nefna Dagdvöl aldraðra sem er í boði 5 daga vikunnar frá kl. 8:45 - 15:30, þar sem unnið er frábært starf en einungis 11 rými eru í boði sem deilast niður á í kringum 20 einstaklinga hvert sinn.

Á meðan að ekki er hægt að svara eftirspurn eftir hjúkrunarrýmum og þjónustuíbúðum, er því afar mikilvægt að efla alla þjónustu við eldri borgara og auka þannig lífsgæði þeirra. Þarna er heimaþjónusta sveitarfélagsins við eldri borgara lykilatriði en til hennar teljast heimilishjálp og heimsending matar. Heimilishjálp felur annars vegar í sér aðstoð við heimilishald, t.a.m. þrif og hins vegar félagslegan stuðning (innlit/stutt viðvera). Þegar afi minn var orðinn einstæðingur og þar að auki háaldraður, fékk hann til sín heimilishjálp sem hafði það hlutverk að aðstoða hann við heimilishaldið og veita félagslegan stuðning.

Eitt sinni kom ég til hans daginn áður en von var á heimilishjálpinni, þá var hann að hamast við að þrífa húsið, þegar ég innti hann eftir því afhverju hann leyfði konunni ekki bara að gera þetta á morgun, var hann snöggur að svara; ,,Af því að þá höfum við minni tíma til að spjalla.” Fyrir honum var félagslegi þáttur heimilishjálparinnar því miklu mun mikilvægari og í samtölum mínum við eldra fólk sem þiggur heimilishjálp og aðstandendur þeirra, er þetta svar gegnum gangandi. Ég tel því afar mikilvægt að sveitarfélagið efli félagslega heimaþjónustu fyrir eldri borgara í formi heimsókna og samverustunda og miði þannig að því að auka andlega vellíðan og sporna gegn félagslegri einangrun.

Hvað varðar heimsendingu matar ættu allir eldri borgarar að hafa kost á að því fá heimsendan mat, óháð því hvar í sveitarfélaginu þeir eru búsettir. Einnig er mikilvægt að það sé hvetjandi fyrir eldra fólk að stunda einhverskonar hreyfingu svo lengi sem þau hafa tök á, og því er það ekki síður mikilvægt þar en hjá börnum og unglingum, að í boði séu fjölbreyttar íþróttaæfingar sniðnar að þörfum hvers og eins. Að lokum væri það vissulega óskastaða að fjölga hjúkrunarrýmum og/eða þjónustuíbúðum fyrir aldraða í sveitarfélaginu á næsta kjörtímabili og vonandi að sú ósk verði að veruleika.

Ragnheiður Halldórsdóttir

Höfundur hefur starfað við aðhlynningu á Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki síðustu 8 ár og er mikil áhugamanneskja um velferð eldri borgara, hún skipar jafnframt 4. sæti ByggðaListans fyrir komandi Sveitarstjórnarkosningar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir