Hafið eða fjöllin - Áskorandi Sigurjón Guðbjartsson Skagaströnd

Ég er aðfluttur Skagstrendingur, fæddur og uppalinn vestur í Arnarfirði. Átti þó mikla tengingu við Skagaströnd, þar sem móðir mín var þaðan. Fyrir nokkrum dögum söng kirkjukór Hólaneskirkju við útför mikils heiðursmanns, sem fæddist hér, starfaði og lifði í 98 ár.  Eitt af lögunum sem kórinn flutti var lagið, „Hafið eða fjöllin“. 

Ég hafði áður tekið þátt í að flytja þetta lag og þennan frábæra texta, Ólafs Ragnarssonar og Huldu Ragnarsdóttir, með félögum í sjómannakórnum á sjómannadegi 2015.  Fannst þetta gott lag og góður texti, og sá aðeins tenginguna við vestfirðina. En sjálfur gat ég  tengt við margt í textanum, eins og : „Er ég kom fyrst á þennan stað, ekki leist mér beint á það“.

Þannig var það einmitt er ég kom hér í fyrsta sinn 1956, fjórtán ára að aldri, leist mér ekkert vel á mig, fjöllin lágkúruleg, ekki nógu brött og tignarleg. En viðmiðin voru auðvitað vestfirsku fjöllin, sem gnæfðu yfir byggðunum án undirlendis. Það sem villti manni sýn, var að fjöllin hér voru í meiri fjarlægð, ekki eins brött, en samt hærri sum hver. Ég stoppaði stutt við að þessu sinni, kom aftur ári síðar. Starfaði um tíma, en yfirgaf staðinn í fimm ár. Kom svo aftur 1962 og hef búið hér síðan. Mér finnst það vera algjör forréttindi að búa í svona samfélagi eins og Skagaströnd, sem er vel í sveit sett.  Þriggja tíma akstur er til Reykjavíkur og rúmlega einn og hálfur til Akureyrar, sem er nógu langt til þess að fara ekki nema brýna nauðsyn beri til. Það er stórkostlegt í björtu og heiðskíru veðri að horfa vestur yfir flóann, til strandafjallanna. Svo má ekki gleyma djásninu okkar Spákonufellsborginni. Langt er síðan að ég taldi mig vera ekki minni Skagstrending en þeir innfæddu. En auðvitað eru taugarnar sterkar til æskustöðvanna. Í viðlagi textans sem nefndur var í upphafi, spyrja höfundar. „Er það hafið eða fjöllin, sem að laða mig hér að - eða er það kannski fólkið á þessum stað“.

Ég held að það hafi verið allt þetta, sem að lokum laðaði mig að Skagaströnd. 

Ég skora á  Magnús Magnússon Staðarbakka 2  Miðfirði að  koma með pistil.

Áður birst í 19. tbl. Feykis 2018.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir