Hafnargarður á Eyrinni :: Lífæð Sauðárkróks forsenda sjósóknar viðskipta og framfara

Frá uppbyggingu Sauðárkrókshafnar 1937. Myndirnar hér á síðunni eru úr búi Sveins Friðvinssonar og Ingibjargar Jósafatsdóttur, líklega úr fórum þáverandi vitamálastjóra, Emils Jónssonar, síðar þingmanns og ráðherra.
Frá uppbyggingu Sauðárkrókshafnar 1937. Myndirnar hér á síðunni eru úr búi Sveins Friðvinssonar og Ingibjargar Jósafatsdóttur, líklega úr fórum þáverandi vitamálastjóra, Emils Jónssonar, síðar þingmanns og ráðherra.

Kosin var hafnarnefnd 1935 í Sauðárkrókshreppi, Friðrik Hansen formaður og jafnframt oddviti (1934-1946), Pétur Hannesson gjaldkeri sparisjóðsstjóri, Sigurður Sigurðsson sýslumaður, kosinn af sýslunefnd en Steindór Jónsson smiður tók fljótlega við af Sigurði. Friðrik og Pétur fóru til Reykjavíkur vorið 1935 og fengu því framgengt að hafin yrði gerð Eyrarvegar sem var forsenda fyrir aðkomu að gerð hafnargarðs á Eyrinni. Sjórinn gekk upp í „Eyrarbrekkuna“ sem nú heita Gránumóar og nagaði sig inn í brekkuræturnar. Steyptur var 120 metra langur garður í framhaldi gamla sjóvarnargarðsins sumarið 1935 síðan fyllt upp milli brekkurótanna og garðsins, Steindór smiður stóð fyrir verkinu. Þar með var kominn akfær vegur út á Eyrina.

Árið er 1937

Hafin er hafnargerð út á Eyrinni. Magnús Konráðsson, bróðir séra Helga sóknarprests á Króknum, er ráðinn verkfræðingur. Eyþór Þórarinsson, úr Vestmannaeyjum, sér um allan undirbúning og áhaldakaup syðra og hefur alla verkstjórn með höndum við gerð hafnargarðsins. Vinna við verkið hófst um miðjan apríl. Smíðaðir voru tveir timburflekar, 8x10 metrar að stærð, undir fallhamrana. Fastráðnir voru 24 menn á flekana en vinna að öðru leyti jafnað niður milli verkamanna á Króknum. Niðurrekstur stauranna hófst 25. maí og lauk rúmum mánuði síðar. Niðurrekstur hliðarveggja hófst um miðjan júlí. Tólf bílar voru í einu við akstur við fyllinguna við garðinn, fluttu 200 – 350 m3 á dag. Steypt var þekja á 36 klukkustundum um haustið og síðan skjólveggur að norðan og vinnu hætt í byrjun nóvember 1937 og þá fullgerðir 138 metrar af hafnargarðinum. Kostnaðurinn um haustið 350 þúsund og þar af vinnulaun 125 þúsund sem skipti sköpum fyrir verkamenn á kreppuárunum.

Og áfram hélt verkið

Í maí 1938 hófst vinna að nýju við hafnargarðinn, Eyþór Þórarinsson verkstjóri sem fyrr. Garðurinn varð 200 metra langur fram að olnboga en þá breytt um stefnu til suðurs um 35 gráðu frávik en heildar lengd garðsins 280 metrar. Verkefnið gekk vel en hætt í byrjun nóvember 1938. Goðafoss, fyrst skipa, lagðist að garðinum 6. nóvember þetta ár. Vinna hófst að nýju í apríl 1939 en þá var Albert Sölvason ráðinn verkstjóri, einn hinna kunnu Sölvabræðra. Þetta sumar var endanlega gengið frá hafnargarðinum og mikið þrekvirki að baki. Heildarkostnaðurinn var um 640 þúsund, aðeins farið um 15 þúsund krónur fram úr áætlun eða um tvö og hálft prósent sem er til eftirbreytni við nútíma framkvæmdir.

32200 bílhlöss, 18000 dagsverk

Í hafnargarðinn, að bryggjupalli meðtöldum, fóru 1570 rúmmetrar timburs, 90 tonn af járni, 5000 tunnur af sementi, 25 þúsund bílhlöss af sandi og möl, en 7200 bílhlöss af grjóti. Alls steyptir 2400 rúmmetrar og þar af 1000 rúmmetrar járnbent steypa. Rúmlega 2800 staurar reknir niður, 105 akkerisboltum og 12 þúsund öðrum komið fyrir. Um 18000 dagsverk verkamanna og smiða auk bílavinnu. Steypuklumparnir, fimm tonn hver, sunnan við hafnarhúsið segja mikla sögu um verksvitið að koma því öllu fyrir án tækjabúnaðar sem við þekkjum í dag til slíkra verka.

Ytraplanið var byggt sumarið 1939 áfast við hafnargarðinn ofarlega og tímasetur gamlar myndir vel. Síðar kom Syðraplanið og Gamla bryggjan frá 1916, þjónaði lengi. Hafnarmannvirkin eru í sífelldri sköpun og endurgerð enn þann dag í dag.

Úr búi Sveins og Ingibjargar

Myndirnar sem eru uppsprettan að þessari upprifjun um hafnarframkvæmdir á Sauðárkróki eru komnar úr búi Sveins Friðvinssonar og Ingibjargar Jósafatsdóttur. Gunnar Bragi sonur þeirra vildi gjarnan að þær væru birtar. Gunnar Bragi telur myndirnar komnar frá þáverandi vitamálastjóra, Emil Jónssyni, síðar þingmanni og ráðherra. Myndirnar eru allar teknar 1937 nema ein sem er frá 1939. Myndin tekin norðan hafnargarðsins til hánorðurs um fjörukambinn og sýnir Eyrartjörnina vinstra megin við kambinn (þar er hringtorgið í dag) er fágæt heimild. Þá er myndin af 120 metra steingarðinum mjög fágæt sem gerði kleift að byggja Eyrarveginn. Heimildir þessa greinarstúfs sem stuðst er við eru úr Sögu Sauðárkróks og komnar úr ritgerð Magnúsar Konráðssonar um hafnargerð á Sauðárkróki. Magnús var ættaður af Efribyggðinni í Lýtingsstaðahreppi „hinum forna“.

Hörður Ingimars

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir