Hefur mikinn áhuga á byggðamálum og jafnrétti til búsetu

Í síðustu alþingiskosningum eignuðust íbúar Norðvesturkjördæmis þrjá nýja þingmenn, einn sem kom á ný auk þeirra sem náðu endurkjöri frá síðustu kosningum. Feykir ákvað að draga fram gamlan þátt sem ber heitið Þingmaðurinn þar sem lesendur geta kynnst þingmönnunum örlítið betur.

Fyrst til að svara er Framsóknarkonan Halla Signý Kristjánsdóttir en hún býr í Bolungarvík, gift Sigurði G. Sverrissyni, verkstjóra hjá Vegagerðinni á Ísafirði og eiga þau fjögur börn og fjögur barnabörn.

Menntun: -Viðskiptafræðingur frá Bifröst og diploma gráðu frá HÍ í opinberri stjórnsýslu.

Starf áður en þingmennskan kallaði: Fjármálastjóri Bolungarvíkurkaupstaðar. 

Hvenær og hvernig vaknaði áhugi þinn á pólitík? -Mjög snemma, drakk það í mig við eldhúsborðið heima í sveitinni, gekk í Framsóknarflokkinn 16 ára.

Hvenær settist þú fyrst á þing? - 29. október 2017.

Hvaða máli værir þú líkleg til að beita þér fyrir á Alþingi framar öðrum? -Ég hef mikinn áhuga á byggðamálum og jafnrétti til búsetu, jafnrétti kynjana og samfélagsmálum.

Telur þú að stjórnmálaumhverfið hafi breyst eða sé að breytast frá því sem áður var? -Stjórnmálaumhverfið tekur auðvitað breytingum með öðrum samfélagsbreytingum, eins og opnari umhverfi, meiri nálægðar  stjórnmálamanna við almenning í gegnum samfélagsmiðla og fleiri fjölmiðla. Meiri kröfur um opnari stjórnsýslu og upplýsingagjöf veitir stjórnmálamönnum aðhald og gefur líka tækifæri.

Telur þú að fjölmiðlar, Facebook og aðrir samfélagsmiðlar, hafi áhrif á skoðanir og gjörðir þingmanna?

-Umræðan um stjórnmál hefur kannski ekki breyst heldur bara gerst meira opinber með tilkomu samfélagsmiðla. Já, ég held að hún geti haft áhrif bæði til hins betra og verra. Það verður meiri nálægð.

Hvaða verkefni bíður helst íbúa Norðvesturkjördæmis að þínu mati? -Það eru endalaus verkefni í byggðamálum um allt kjördæmið. Samgöngumál, raforkuöryggi og atvinnumál skiptir okkur miklu máli. Efla þarf heilbrigðisstofnanir okkar um landið til að skapa öryggi.

Hvaða málefni telur þú að brenni helst á íbúum Norðurlands vestra? -Atvinnuöryggi, jafnrétti til búsetu,  stöðuleiki í grunnþjónustu, samgöngur og heilbrigðismál. 

Hvaða áhugamál áttu fyrir utan pólitíkina? -Samvera með fjölskyldunni, kórastarf og útivist.

Hver er uppáhalds tónlistarmaðurinn?  -Adele og Diddú.

Hver er uppáhalds kvikmyndin? -Börn náttúrunnar er besta íslenska myndin.

Hvert er uppáhalds íþróttafélagið? -Vestri.

Áður birst í 42. tbl. Feykis 2017

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir