Hjartað slær í Skagafirði :: Áskorandinn Vilhjálmur Árnason brottfluttur Skagfirðingur

Mynd. Vilhjálmur Árnason við grillið. Ásmundur Friðriksson.
Mynd. Vilhjálmur Árnason við grillið. Ásmundur Friðriksson.

Skagafjörðurinn skipar stóran sess í hjarta mínu, en það líður varla sá dagur sem ég hugsa ekki heim. Þegar ég fékk áskorunina um að skrifa þennan pistil frá Páli Jens vini mínum fann ég mig knúinn til að koma á blað því sem Skagafjörður hefur gert fyrir mig og hvernig sá staður hefur mótað mig sem einstakling.

Samfélagið í Skagafirði hefur upp á mikinn fjölbreytileika að bjóða, fjölbreytni sem endurspeglar íslenskt raunhagkerfi vel. Það er einmitt nálægðin við fólkið í firðinum sem gerir það að verkum að maður fékk verulega góða tilfinningu fyrir raunhagkerfinu. Sem dæmi þá var einfalt að fara út í sláturhús og sjá kjötvinnsluna, fara niður á höfn og sjá togarana landa og flutningaskipin flytja steinullina á brott. Það kom einnig fyrir að við vinirnir mættum klukkan sex á laugardagsmorgnum í Mjólkursamlagið og fengum að fara í sveitina með mjólkurbílnum. Nálægðin við sveitina gefur manni mikið en það voru mikil forréttindi að geta verið í sveit hjá hjá frændfólki öll sumur.

Breyting í mínu lífi

Þegar ég var tólf ára gamall fluttist ég frá Sauðárkróki yfir á Hofsós. Það að flytjast frá Sauðárkróki, stóra höfuðstaðnum, yfir á Hofsós var mikil breyting í mínu lífi en þar tók Árni Egilsson, faðir minn við starfi sveitarstjóra.

Að alast upp í litlu samfélagi var mjög gefandi enda skipta allir miklu meira máli en samkenndin eykst eðli málsins samkvæmt. Þú einfaldlega varðst að taka þátt í öllu; æfa þær íþróttir sem í boði voru, starfa í björgunarsveitinni, mæta á alla viðburði og í raun var gert ráð fyrir því að við krakkarnir myndum troða upp á öllum skemmtunum. Við félagarnir vorum ekki nema um 14 ára þegar við hófum að veita tölvu- og prentþjónustu fyrir fólkið í bænum, já, stofnuðum fyrirtækið Hofsprent.

Fjölbrautaárin á Bárustígnum

Svo voru það árin í Fjölbrautaskólanum, skóli þar sem nemendur koma af stóru svæði frá nokkrum bæjarfélögum. Stór hluti nemenda var að flytja í fyrsta sinn að heiman inn á heimavist eða til ættingja. Sjálfur flutti ég til afa og ömmu á Bárustíg. Þarna birtist fjölbreytileikinn einmitt aftur. Þetta var ekki eins og að skipta um bekk í grunnskóla, þ.e.a.s. sömu nemendurnir sem gengu áfram sömu leið í skólann. Þarna gafst manni tækifæri á að víkka út tengslanetið enda margir nemendanna komnir héðan og þaðan frá mismunandi stöðum, m.a. frá Vestfjörðum, úr fjölbreyttum aðstæðum og umhverfi, nemendur sem mynduðu fjölbreytt og virkt skólasamfélag.

Örlagavaldurinn Bjössi Mikk

Þegar ég lauk skólagöngu minni í fjölbraut vissi ég ekki hvað myndi taka við. Örlögin gripu hins vegar inn í og stýrðu því að ég hitti yfirlögregluþjóninn, Bjössa Mikk, úti á götu og spurði hvort þá vantaði ekki mann í lögregluna. Úr varð að ég hóf störf þar stuttu síðar og var þar næstu tíu árin á eftir. Þaðan lá svo leiðin inn á Alþingi.

Í störfum mínum sem lögreglu- og alþingismaður hefur reynslan mín, þekkingin og tengslanetið úr Skagafirðinum nýst vel, enda lærði ég þar að þekkja mismunandi aðstæður og verkefni.

Það að alast upp í Skagafirði hefur hjálpað mér að takast á við lífið; verkefnin en ekki síður reynslan úr sveitinni sem hafa reynst mér svo ómetanlega hefur þroskað mig á alla lund. Það sakar ekki í pólitíkinni að geta tengt við fólk og aðstæður í gegnum Skagafjörðinn hvar sem maður er staddur hverju sinni.

Ég vil ljúka þessu með því að sendi hlýjar kveðjur héðan úr Grindavíkinni heim í Skagafjörðinn og skora ég á félaga minn Óla Björn Kárason, Skagfirðing og alþingismann, að rita næsta pistil.

Áður birst í 37. tbl.  Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir