Horfðu á HM veðurtepptir í Drangey :: Liðið mitt Halldór Halldórsson

Hjónakornin sigursæl í golfinu. Ragnheiður Matthíasdóttir og Halldór Halldórsson.
Hjónakornin sigursæl í golfinu. Ragnheiður Matthíasdóttir og Halldór Halldórsson.

Halldór Halldórsson héraðsdómari á Sauðárkróki fékk áskorun frá Hrafnhildi Guðnadóttur að svara nokkrum laufléttum spurningum í þættinum Liðinu mínu hér í Feyki og tók hann því vel. Halldór hefur verið öflugur í starfsemi körfuknattleiksdeildar Tindastóls í gegnum árin en þeir sem komnir eru til vits og ára muna líka eftir honum í markmannsgalla FH og Tindastóls, fyrir, ja, nokkrum árum skulum við segja. Manchester United er í uppáhaldi hjá kappanum og er hann nokkuð sáttur við gengi liðsins í dag.

„Manchester United hefur verið mitt lið frá því ég man eftir mér. Líklegt er að gott gengi liðsins á árunum fyrir 1970, Evrópumeistarar 1968, ráði þar mestu. Svo kann að vera að ég hafi gert uppreisn gegn þremur eldri bræðrum mínum sem allir eru svo furðulegir að þeir halda með liði frá hafnarborg í nágrenni Manchester. Helstu hetjur liðsins á þeim tíma sem ég tók trúna voru Georg Best, Bobby Charlton og Dennis Law. Heimsins bestu leikmenn að mati allra sem eitthvað vit hafa á knattspyrnu.“

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Á þessu tímabili hefur gengið heldur betur en ég átti von á í upphafi og vonast ég til að við lendum ekki neðar en í þriðja sæti.

Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? -Nokkuð sáttur en samt virðist sem liðið geti ekki tengt nægilega marga sigra saman.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Hef auðvitað oft þurft að leiðbeina trúleysingjum sem einhverra hluta vegna sjá ekki ljósið. Undarlegt hversu erfitt svo einfalt verkefni getur verið.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar?- Eric Cantona er í miklu uppáhaldi hjá mér, alger snillingur og hæfilega hrokafullur

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Farið nokkrum sinnum á Old Trafford og líka séð liðið á öðrum völlum

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Á einhverjar treyjur, cover á driverinn og flatarmerki fyrir golfið.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Það hefur gengið vel enda í nokkrum forgangi í uppeldinu

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Fáránleg spurning!

Uppáhalds málsháttur? -Betra er logið last en login hrósun.

Einhver góð saga úr boltanum? -Eitt sinn, fyrir daga farsíma, vorum við FH-ingar í æfingaferð í Bandaríkjunum og staddir á matsölustað. Einn af ungu mönnunum ætlaði að hringja heim og nota til þess tíkallasíma. Hann spurði hvað hann þyrfti að gera og fékk það svar að hann ætti fyrst að hringja í 911 og svo númerið heima hjá sér. Piltur reyndi þrisvar og kom svo og sagði að þetta gæti ekki verið rétt því mamma svaraði ekki þess í stað var alltaf svarað emergency. Skömmu síðar komu lögreglubílar með blikkandi ljós og þá vorum við fljótir að yfirgefa staðinn

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Þegar ég var í Menntaskólanum að Laugarvatni datt einhverjum í hug að setja grjót inn í sprunginn fótbolta og láta hann liggja fyrir utan dyrnar að heimavistinni. Auðvitað spörkuðu nokkrir í boltann sem var heldur óþægilegt fyrir þá en vakti kátínu hjá þeim sem á horfðu.

Spurning frá Rabbý: -Er stefnan að horfa á næsta HM í fótbolta í Drangey?

Svar: -Ég á síður von á því en Rabbý spyr sjálfsagt vegna þess að síðast þegar HM fór fram þá vorum við félagarnir veðurtepptir í Drangey og horfðum á nokkra leiki og notuðum til þess iPad. Raunar horfði Viggó Jónsson á tvo fótboltaleiki sama daginn en samtals hafði hann ekki horft á svo mikinn fótbolta á ævinni.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Vöndu Sig.

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Hefur Kobbi eitthvað vit á fótbolta?

Áður birst í 7. tbl.  Feykis 2021.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir