Hugrenningar um þorrablót :: Áskorandapenni Jón Kristófer Sigmundsson Hæli

Jón Kristófer Sigmarsson og systir hans Anna Kristrún Sigmarsdóttir á leið á þorrablótið 2023. Aðsend mynd.
Jón Kristófer Sigmarsson og systir hans Anna Kristrún Sigmarsdóttir á leið á þorrablótið 2023. Aðsend mynd.

Rúnar vinur minn hringdi í mig og bað mig um að taka við áskorun um að skrifa pistil í Feyki. Auðvitað sagði ég já við því eins og flestu öðru. Við hinar og þessar sameiningar á sveitarstjórnarstigi í gegnum tíðina hefur sumt staðið af sér allar sameiningar, svo sem Þorrablót og búnaðarfélögin. Þar ríghalda gömlu hreppamörkin ennþá. Og einmitt í kvöld þegar þetta er skrifað er Hreppablótið. Það er alltaf mikil tilhlökkun að koma á hreppablótið enda ein fjölmennasta skemmtun sem fer fram í A-Hún. Og kannski er tilhlökkunin meiri en venjulega vegna þess að blótið hefur ekki hefur verið haldið síðustu ár vegna covid.

Ég fór fyrst á þessa skemmtun í kringum 1990 og hef mætt á hér um bil öll blót síðan. Þarna skemmta sveitungarnir hver öðrum með sínu nefi og leikhæfileikum. Það besta við svona þorrablót er að menn eru komnir til að skemmta sér og þar af leiðandi er frekar auðvelt að skemmta fólkinu.

Leikþættir um mistök og hrakfarir sveitunganna fá að njóta sín og er hláturinn stundum svo innilegur að tárin leka niður kinn. Þeir sem aðeins eldri eru muna ógleymanlegu leikþættina hjá „Möggunum“ fjórum; frá Miðhúsunum, Hnjúki, Steinnesi og Sveinsstöðum. Einn maður stendur þó alltaf uppúr hjá mér sem var svo einstaklega fyndinn og næmur á sveitahúmorinn, en það var Magnús heitinn Blöndal sem átti síðast heima á Snæringsstöðum í Vatnsdal. Var hann eitt sinn að leika Diddu vinkonu sína á Bakka og í næsta atriði Þorvald á Guðrúnarstöðum og voru gervið og leiktilburðirnir slíkir að salurinn hló og hló og Maggi ætlaði aldrei að geta komið sér að efninu. Síðan er annáll sveitarinnar lesinn og er oft einstaklega skemmtilegur á að hlusta. Menn hlæja að bröndurum um nágrannana en bíða líka með smá kvíða í maganum hvort þeir verði teknir fyrir í næsta brandara og hvað verði sagt.

Ég hef horft á annálsritarana í gegnum árin og „drukkið“ inn formið sem menn tileinka sér þegar svona er samið og flutt. Æði misjafn húmor og flutningur eins og gefur að skilja, sumir góðir en aðrir miklu betri. Maggi á Hnjúki, Ásgerður á Geitaskarði, Sigurður sonur hennar og fleiri hafa flutt frábæra pistla. En einhvern veginn kemst enginn upp að hlið Jóns í Ási sem gat flutt klukkutíma pistill þar sem enginn fór á salernið á meðan til að missa ekki af neinu og hláturinn ómaði um Félagsheimilið. Svo einn daginn fyrir furðulega mörgum árum var ég beðinn um að taka pistlaflutninginn að mér. Og gerði ég það og svo nokkrum sinnum eftir það.

Að skrifa svona pistill sem á að gera grín að sveitungum sínum er mjótt einstigi að feta svo maður sé hvorki að særa eða móðga fólk. Og held bara að mér hafi tekist það þokkalega. Það hefur ekki nema ein kona tekið mig á eintal eftir svona pistil og skammað mig en það var hún Anna Magga á Sölvabakka, sem var verulega óánægð með að ég hafði ekki minnst á hana í pistlinum, lofaði ég að það myndi alls ekki koma fyrir aftur. Í kvöld mun Ásmundur vinur minn í Grænuhlíð flytja pistilinn og ég veit að það verður gert með glæsibrag. Já þorrablótin eru góð skemmtun þar sem aldnir og ungir skemmta sér saman og er þetta eitt af því fáa sem haldist hefur tiltölulega óbreytt í áraraðir.

Annars gengur lífið sinn vanagang og allt að skríða í svipað horf og fyrir covid. Kór Íslands er byrjaður að æfa undir stjórn Skarpa og bókasafnið í Dalsminni hefur opnað aftur, meira þurfum við ekki. Nýr sveitarstjóri er tekinn við og reynir að sameina alla þá smákónga sem hér ríktu fyrir sameiningu.

Heyskapur var með betra móti, lömbin aðeins vænni og túristarnir byrjaðir að æða yfir landið á Dusterunum. Vatnsdælingar byggðu sér svo stóran gangnaskála að þegar þeir rjúka út úr kojunni til að skamma náungann, þá eru þeir svo lengi að finna viðkomandi að þeim er löngu runnin reiðin þegar þeir loks finna hann. Og hefur samkomulagið á Grímstunguheiðinni batnað til muna. Og á Auðkúluheiðinni höfðu þeir loksins vit á því að skipta bæði um fjallskilastjóra og gangnaforingja síðasta sumar og gengu göngurnar með eindæmum vel og allir sáttir.

Held að ég láti staðar numið að sinni hér á síðustu metrum Þorra og skora á Ragnhildi Ástu Ragnarsdóttur, bónda í Norður-Haga, sem er yngsti og nýjasti stórbóndinn í A-Hún.

Áður birst í 7. tbl. Feykis 2023

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir