Hvaðan kemur skáldskapurinn?

Oddvitar meirihluta lögðu fyrir mig spurningu í grein sinni á Feyki.is þann 12. september síðastliðinn. Ég skorast að sjálfsögðu ekki undan því að svara spurningunni sem þó virðist hafa það helsta hlutverk að beina umræðunni frá kjarna málsins.

Ýmislegt vakti athygli mína í umræddri grein. Það er til dæmis áhugavert að hægt sé að leggja mér orð í munn hvað varðar afstöðu til framkvæmda við Aðalgötu 21, mánuðum áður en ég tek við hlutverki sveitarstjórnarmanns. Það er ekki síður áhugavert að hægt sé að skilja bókanir fundargerða og blaðaskrif fulltrúa Vinstra grænna og óháðra á þann hátt að 770 milljónir verði að 23 milljörðum. Nú getur hver dæmt fyrir sig hvaðan sá skáldskapur kemur sem oddvitar meirihluta vísa í.

Fyrirspurnin vekur fleiri spurningar hjá íbúum
Reyndar hef ég fengið talsvert af spurningum frá íbúum sveitarfélagsins í kjölfar fyrirspurna minna, m.a. nokkrar sem ég hef því miður ekki svör við. En það er mér ljúft og skylt að koma þeim til meirihluta hér með:

Geta aðrir veitingahúsaeigendur sveitarfélagsins fengið starfsmenn á launum hjá sveitarfélaginu til þess að þjóna til borðs líkt og Sýndarveruleiki ehf.?

Geta önnur fyrirtæki sem koma með ný störf og þekkingu til sveitarfélagsins fengið húsnæði hjá sveitarfélaginu endurgert og aðlagað að sínum þörfum á kostnað sveitarfélagsins leigulaust í 15 ár og greitt hálfa leigu næstu 15 ár eftir það?

Á hvaða forsendum er samningur Sýndarveruleika ehf. og sveitarfélagsins að hluta til bundinn trúnaði? Er eðlilegt að það sé leynd yfir opinberum fjármunum?

Hvað er á bak við þessar 70 milljónir króna við kostnað verksins sem skilgreint er sem „önnur vörukaup“ án frekari skýringa?

Oddviti meirihluta sjálfstæðismanna vék af fundi byggðarráðs þann 4. september síðastliðinn þegar meirihluti samþykkti viðauka við fjárhagsáætlun vegna Aðalgötu 21. Hvers vegna hafði hann aldrei fyrr vikið af fundi við samþykktir fyrri viðauka vegna þessa verks, verandi framkvæmdarstjóri fyrirtækis sem fær greiðslur vegna framkvæmda við Aðalgötu 21?

Lögbundnar skyldur sveitarfélaga eða hundruð milljóna í samning við einkafyrirtæki?
En aftur að spurningunni frá oddvitum meirihluta til mín sem hljóðar svo: „Ef sveitarstjórnarfulltrúi VG væri í meirihluta, myndi hún leggja til riftun á þeim samningi sem til staðar er við Sýndarveruleika ehf.?“

Upphaflega hefði ég aldrei skrifað undir samning sem þennan. Sveitarfélög eiga að mínu mati að halda sig við lögbundnar skyldur sínar en ekki leggja óhemju fjármagn til samstarfs við einkafyrirtæki. Tækifærin liggja vissulega víða. Þau hafa til dæmis verið talin liggja í bátasmíðum úr trefjaplasti eins og ævintýrið Mótun forðum daga, sem kostaði heldur betur sitt og skildi ekkert eftir nema skuldir fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð.

Til að svara spurningunni þyrfti ég auk þess að vita rekstrarforsendur Sýndarveruleika, en við þeirri spurningu fékk ég ekki svar í fyrirspurnum mínum. Það eru jú ákveðin ákvæði í samningum við Sýndarveruleika ehf. sem mér er furða að fallist hafi verið á, en í ljósi þess að hluti samningsins er bundinn trúnaði þá er mér því miður ókleift að gera grein fyrir þeim atriðum.

Það er undarlegt að umræddur samningur sé ekki enn aðgengilegur almenningi, en haft var eftir formanni byggðarráðs í fréttum RÚV þann 14. desember 2018 að hann yrði gerður opinber, þá á næstu dögum. Það var ekki gert.

Það að meirihluti geri samning við einkafyrirtæki, samning sem að hluta til er bundinn trúnaði, samning þar sem hundruð milljóna af fjármunum sveitarfélagsins eru lagðar að veði, er að mínu mati ekki hugrekki eins og haldið er fram af oddvitum meirihluta. Þvert á móti er það brot á trúnaði við íbúana að halda upplýsingum frá þeim. Það eru íbúar sveitarfélagsins sem raunverulega greiða kostnað vegna samningsins við Sýndarveruleika ehf. en fengu ekkert val um það þar sem meirihluti féllst ekki á íbúakosningu eins og minnihluti óskaði eftir. Íbúar Sveitarfélagsins Skagafjarðar eiga skýlausan rétt bæði á ábyrgri og gagnsærri stjórnsýslu sem og íbúalýðræði í stórum ákvörðunum líkt og þessari.

Álfhildur Leifsdóttir
Sveitarstjórnarmaður Vinstri grænna og óháðra

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir