Hvar liggur ábyrgðin?

Fyrir síðustu jól bárust fregnir af fjölskyldu á Hofsósi sem þurfti að yfirgefa húsnæði sitt vegna bensínleka úr tanki frá olíustöð N1 hinu megin við götuna. Þar láku mörg þúsund lítrar af eldsneyti í jarðveginn, en erfitt hefur verið að fá nákvæmar tölur á birgðahaldi frá N1, sem getur ekki talist traustvekjandi. 

Mengunarslysið hefur verið til meðferðar hjá Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra, sem samkvæmt bókunum fyrri hluta árs ýtti á eftir N1 að bæta úr tjóninu og skila hreinsunaráætlun vegna mengunarinnar, án árangurs. Í október síðastliðnum tók Umhverfisstofnum að sér yfirumsjón með hreinsun, vöktun og rannsóknum á olíumenguninni á Hofsósi. Hreinsunarstarf hefur verið ómarkvisst. 

Nú líður að öðrum jólum og staða fjölskyldunnar á Hofsósi er óbreytt. Húsið þeirra stendur í menguðum jarðvegi sem enginn telur sig bera ábyrgð á. Þar hafa þau ekki getað búið en hins vegar borgað af því tilheyrandi gjöld. Eins hefur veitingastaður við hliðina hefur verið lokaður vegna loftmengunar frá ársbyrjun. Heilbrigðiseftirlitið mældi styrk mengunarefna í innilofti íbúðarhússins og veitingastaðarins yfir skilgreindum heilsuverndarmörkum.  

Langur meðferðatími þessa máls er óásættanlegur. Lögin um umhverfisábyrgð eru ekki að virka þegar mengunarslys sem þetta á sér stað. Staðan fyrir eigendur þessara eigna og íbúa Hofsóss er óásættanleg með öllu. Að fólk hrekist af heimilum sínum vegna mengunar án nokkurra bóta er algjörlega ótækt. 

Mér er spurn, yrði öðruvísi brugðist við bensínmengun og eitruðu lofti ef mengunin hefði borist inn í hús í borginni en ekki í þorpinu Hofsósi? 

Álfhildur Leifsdóttir ,
sveitarstjórnarfulltrúi VG og óháðra

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir