Hvert liggur þín leið? :: Áskorendapenni Atli Einarsson, Blönduósi

„Hvaðan kom hann?, hvert er hann að fara?, hvað er hann?!“ Með þessum orðum lýsti Adolf Ingi Erlingsson, íþróttafréttamaður, varnarleik íslensks handboltamanns á Evrópumóti í handbolta fyrir rúmum áratug síðan. 
Þessar þrjár spurningar má með mjög einföldum hætti heimfæra upp á hvaða einstakling sem er. Öll eigum við okkur einhverja fortíð sem mótar okkur með einum eða öðrum hætti. Við höfum einhverjar áætlanir um það hvert við stefnum og loks höfum við ákveðnar hugmyndir og væntingar um það hvað og hvernig við viljum vera.

Hvaðan kom hann?
Frá fæðingu upplifum við margt sem á endanum mótar okkur sem einstaklinga. Þessir þættir geta bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif, en allir skilja þeir eftir sig reynslu. Reynslu sem við reynum að draga lærdóm af og nýta okkur.

Í einstaka tilfellum er þessi reynsla þannig að besta leiðin er að halda áfram á sömu braut og reyna með einhverjum hætti að hafa útsýnið út um framrúðuna sambærilegt því sem sést í baksýnisspeglinum. Í öðrum tilfellum getur það reynst best að taka U-beygju og einblína á það sem sést út um framrúðuna, en líta á útsýnið úr baksýnisspeglinum sem verðugt innlegg í reynslubankann.

Það er auðvelt að falla í þá gryfju að dæma fólk af fortíðinni þó svo að við höfum ekki hugmynd um þær forsendur sem búa þar að baki. Þá er nauðsynlegt að átta sig á því að það er ekki okkar að dæma aðra út frá því sem þeir sjálfir, eða þeim tengdir hafa gert eða gengið í gegn um. Það er hins vegar okkar að veita öðrum tækifæri til að sýna þá hæfileika sem viðkomandi hefur, án þess að láta fortíðina hafa áhrif á það tækifæri.

Hvert er hann að fara?
Öll setjum við okkur einhver markmið. Þessi markmið eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg og byggja á forsendum sem við sjálf gefum okkur og aðrir þurfa ekki að skilja. Þær forsendur sem við gefum okkur byggja á blöndu af reynslu úr fortíðinni og væntingum til framtíðarinnar. Til þess að ná þessum markmiðum þurfum við að finna þá leið sem hentar okkur sjálfum til að komast jafn nálægt markmiðunum og við mögulega getum. Það vill oft gerast að þegar við erum búin að finna þá leið sem okkur hentar best þá virðumst við einblína á að sú leið sé sú eina rétta, og höfum því takmarkaðan skilning á því ef aðrir kjósa að nálgast viðfangsefnið eftir öðrum leiðum. Þannig gæti ég haldið því fram að til að komast til Reykjavíkur verði að fara í gegn um Hvalfjarðargöngin, því það er sú leið sem hentar mér. Hins vegar er alveg ljóst að sú leið hentar alls ekki öllum. Fyrir marga hentar betur að fara yfir Hellisheiðina, öðrum hentar betur að keyra Hvalfjörðinn, og enn öðrum hentar betur að ferðast yfir Kjöl. Lykilatriðið í þessu sambandi er að fara þá leið sem hentar manni sjálfum best, en á sama tíma að sýna því skilning að það er ekki eina leiðin sem er í boði, eða sú sem hentar öllum.

Hvað er hann?
Við tökum ótal ákvarðanir á hverjum degi, hvað þá á heilli ævi. Þessar ákvarðanir eru í langflestum tilfellum byggðar á því sem við teljum rétt fyrir okkur sjálf. Það er nefnilega nákvæmlega þannig sem það á að vera, þær ákvarðanir sem við tökum verða að endurspegla það sem okkur langar og við teljum rétt. Það er hins vegar ekki alltaf auðvelt að láta ekki skoðanir annarra stýra þeim ákvörðunum sem við tökum, ekki síst í nútímanum þar sem áhrifavaldar virðast endurspegla allar þær staðalímyndir sem hægt er að láta sér detta í hug. Lausnina við þessu má finna í einni laglínu sem sem SSSól samdi á sínum tíma:
„Vertu þú sjálfur, gerður það sem þú vilt“.
Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir ekki máli hvaðan við erum að koma eða hvaða leið við förum – það sem skiptir máli er að fólk finni þá leið sem hentar því sjálfu til að ná sínum markmiðum, því þannig náum við árangri.

Ég skora á Jóhannes Torfason, framkvæmdastjóra Ámundakinnar, að koma með næsta pistil.

Áður birst í 34. tbl. Feykis 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir