Í hamingjunnar bænum | Leiðari 25. tölublaðs Feykis

Hamingjan er pínu milli tannanna á fólki þessa dagana eftir að í ljós kom í íbúakönnun landshlutanna að Skagfirðingar, ásamt íbúum á Snæfellsnesi og á Héraði, eru öðrum Íslendingum hamingjusamari að meðaltali. Þegar þessi íbúakönnun er skoðuð má einnig sjá að það er talsverður munur á hamingju fólks eftir því hvort það býr í Skagafirði eða Húnavatnssýslum. Hvernig má það vera?

Og hvað er nú hamingja? Ætli hún sé kennd, kemur hún með móðurmjólkinni? Hefur hún nokkuð að gera með hversu mikla peninga maður geymir í banka eða hversu mörg hlutabréf þú átt í Icelandair? Eða í hversu mörgum ástarsamböndum maður er eða hefur verið, nú eða eftir fjölda barnabarna eða hversu oft maður skreppur til Tene?

„Hamingja er val, ekki afleiðing. Ekkert mun gleðja þig fyrr en þú velur að vera hamingjusamur. Engin manneskja mun gleðja þig nema þú ákveðir að vera hamingjusamur. Hamingja þín mun ekki koma til þín, hún getur bara komið frá þér,“ er haft eftir Ralph Marston sem er eins konar kvótaeigandi. Hann semsagt framleiðir kvót eða tilvitnanir og heldur úti netsíðunni Hin daglega hvatning (The Daily Motivator). Þar birtir hann daglega hvatningu til lesenda. Ég veit ekki hvort það er eitthvað vit í þessu en kannski gerir þetta hann hamingjusaman.

Heimspekingurinn Immanuel Kant kom upp með þrjár reglur til að öðlast hamingju; að hafa eitthvað að gera, einhvern til að elska og eitthvað til að vonast eftir. Dalai Lama segir tilgang lífs okkar að öðlast hamingju á meðan Gabriel Garcia Marquez sagði ekkert lyf geta læknað það sem hamingjan geti ekki læknað. Bítlarnir sungu hins vegar um að hamingjan væri heit byssa (Happiness is a Warm Gun) en það er einhver annar sannleikur.

Hamingjan er ekki einfalt hugtak því mörgum vefst tunga um tönn þegar spurt er hvað hamingja sé. Gísli Einarsson minntist á það í uppistandi í Gránu í byrjun árs að þeir ferðafélagar, Eggert og Bjarni, sem túruðu Ísland fyrir um 270 árum, hefðu talið Skagfirðinga góða með sig og glaðsinna á meðan Húnvetningar væru rólegri og yfirvegaðri.

Kannski er það þá ein niðurstaða Íbúakönnunar landshlutanna að persónueinkenni Skagfirðinga og Húnvetninga hafi lítið breyst í gegnum aldirnar – Skagfirðingar séu sem fyrr snöggir til svars en Húnvetningar hugsi sig betur um?

Óli Arnar Brynjarsson,
Sauðárkróki

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir