JÁ vísar veginn áfram
Með JÁ atkvæði mínu í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn vil ég eiga þátt í að stíga gott skref áfram í endurreisn íslensks samfélags. Það skiptir máli að ljúka Icesave málinu, eyða óvissu og takast á við þau verkefni sem bíða, efla atvinnulíf og berjast gegn atvinnuleysinu. Atvinnuleysið og kostnaðurinn sem því fylgir félagslega og fjárhagslega er mesta ógnin við íslenskt velferðarsamfélag. Ein af forsendum þess að liðka fyrir frekari atvinnuuppbyggingu og minnka atvinnuleysi er að ljúka Icesave.
Þetta er þriðja atrena til þess að ljúka þessu máli. Alþingi og forseti Íslands samþykktu á sínum tíma fyrstu lögin, en Bretar og Hollendingar vildu breytingar og því var samningnum breytt, en þjóðin hafnaði þeim samningi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Til að forðast neikvæðar afleiðingar þeirra niðurstöðu gáfu stjórnvöld, forseti Íslands og formenn stjórnmálaflokkanna yfirlýsingar um að Íslendingar myndu standa við sínar skuldbindingar og ljúka málinu, en til að svo mætti verða þyrfti betri samning. Krafist var þverpólitískrar samstöðu um næstu samningalotu og var skipuð ný samninganefnd og náðist sátt allra stjórnmálaflokka um að þaulreyndur samningamaður, Lee Bucheit, leiddi þá vinnu. Stjórnarandstaðan fékk sérstakan fulltrúa í samninganefndinni. Niðurstaðan liggur fyrir og mikill meirihluti þingmanna samþykkti lög um ríkisábyrgð þessa samnings en forsetinn vildi fá úrskurð þjóðarinnar, sem fær tækifæri til að taka afstöðu á laugardag.
Mun betri samningur er nú á borðinu, einkum vegna betri endurgreiðslna úr þrotabúi, hagstæðara gengis og lægri vaxtakostnaðar og eru miklar líkur á að greiðslur úr ríkissjóði verði á bilinu 0-32 milljarðar króna.
Mikið hefur verið skrifað og rætt um Icesave málið og af einhverju ástæðum mun meira en önnur og stærri mál s.s. endurfjármögnun Seðlabankans, endurreisn bankanna og fjármögnun halla ríkissjóðs eftir hrun. Því miður snýst valið ekki um hvort við greiðum Icesave reikninginn heldur hvernig við greiðum og hvenær.
Óvissa fylgir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar á laugardag, hvernig sem fer, en ég met áhættuna miklu meiri ef þjóðin hafnar ríkisábyrgðinni. Nær öruggt er að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, muni úrskurða að við eigum að greiða a.m.k. lágmarkstrygginguna vegna Icesave reikninga. Ef svo fer á eftir að semja um greiðslukjör, en þá staðan lakari til samninga. Ekki er ólíklegt að þá verði íslenska ríkið krafið jafnræðis milli allra viðskiptavina Landsbankans í útibúum bankans, þar með talið í Bretlandi og Hollandi, og þar með að ábyrgjast allar innistæður en ekki aðeins lágmarkstrygginguna. Slík krafa gæti hlaupið á hundruðum milljarða.
Í bæklingi sem dreift hefur verið í öll hús á landinu eru ágætar lýsingar á málinu og um hvað valið stendur. Ég hef engra hagsmuna að gæta í Icesave málinu annarra en að gera það sem í mínu valdi stendur til að koma íslenskri þjóð út úr þeim vanda sem við erum í og ég er fullviss að JÁ á laugardaginn er stórt skref á þeirri leið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.