Kæru vinir, ættingjar og stuðningsfólk

Það var á haustmánuðum sem að við í Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps ákváðum að taka þátt í keppninni Kórar Íslands sem að haldin er á Stöð 2 eins og kunnugt er. Við vorum ekki of bjartsýnir í fyrstu með að við næðum að safna liði í þetta verkefni en það leystist og það vel. Við tóku strangar æfingar og svo undankeppnin 8. október sl. 

Það var mikil gleði í okkar herbúðum er við komumst áfram og ekki laust við að menn hafi fengið smá kusk í augun og fundist þeir „kóngar um stund“. 

Við tók undirbúningur fyrir undanúrslitakvöldið sem haldið var sunnudaginn 5. nóv. sl. eins og flestum er kunnugt um, og aftur komumst við áfram sem sigurvegarar símakosningarinnar og kórinn kominn í úrslit keppninnar sem haldin verða nk. sunnudag 12. nóvember.

Það er ekki einfalt að taka þátt í svona uppákomum fyrir lítinn kór norðan af landi eða svo sem hvaðan sem er af landinu. Því fylgir mikill kostnaður sem erfitt er að kljúfa. 

Því fór það svo að kórmenn hafa ferðast á einkabílum til og frá keppnisstað og enginn talið það eftir sér að gera það og tekið á sig allan kostnað.

Það sem ég hef einnig tekið eftir er að þetta verkefni er mikil lyftistöng fyrir kórinn okkar og allir spenntir fyrir því að taka þátt.

Andinn og stemningin er frábær. Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps er eini kórinn sem eftir er í keppninni af landsbyggðinni og finnst okkur dálítið mikið varið í það líka.

Nú eru úrslitin framundan og mikið þætti okkur vænt um ef að þeir sem að þetta lesa gætu hugsað sér að „splæsa“ á okkur atkvæði ef að flutningur þess lags sem við flytjum er þeim að skapi.

Annars viljum við þakka öllum þeim sem lagt hafa okkur lið í haust við þátttöku okkar í Kórar Íslands, hvort sem er með atkvæðum eða með öðrum hætti.

X-Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps.

Höskuldur Birkir Erlingsson

Formaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir