Kappreiðar, þróun og staða - Kristinn Hugason skrifar
Með þessari grein slæ ég botninn í umfjöllun mína um kappreiðar, ræktun íslenskra hrossa hefur ekki, né kemur til með að snúast um ræktun kappreiðahrossa en þetta er þáttur sem þó má ekki verða hornreka. Það andvaraleysi að láta veðreiðahaldið drabbast niður hefur reynst hestageiranum sem slíkum dýrkeypt. Því staða mála er sú að vítt og breytt um veröldina skapar veðreiðahald miklar tekjur fyrir hestageirann og nýtast þær til margháttaðrar uppbyggingar og fræðastarfs.
Auk þess að skapa þátttakendum atvinnu og hesteigendum tekjur en eitt af vandamálum hrossaræktarinnar hér á landi er að fjármunabindingin er mikil og gripir færa eigendum sínum sjaldnast tekjur nema við beina sölu. Að vísu gefa hestaleigur, reiðskólar og hestatengd ferðaþjónusta tekjur en sú starfsemi er illsamrýmanleg eiginlegu ræktunarstarfi, tamningu og þjálfun. Þó sami aðilinn geti stundað hvoru tveggja aðgreint, þ.e. reiðaskóla- og ferðaþjónustugreinar annars vegar og fyrrnefndar kjarnagreinar hrossaræktarbúa hins vegar.
Þróun keppnisgreinanna og gömul met í brokki og stökki
Í síðustu grein minni hér í blaðinu var rakið hvernig keppnisgreinar á kappreiðum landsmótanna þróuðust en allar voru þær teknar inn í dagskrá landsmótanna eftir að reynsla var komin á þær í almennum keppnum. Alltaf hefur verið keppt í hinni háklassísku grein 250 m skeiði og á fyrstu kappreiðunum var keppt í 350 m stökki en stökkgreinunum fjölgaði þó fljótt, keppt var nokkuð í 300 m stökki og hvað mest var keppt í 250 m stökki sem iðulegast gekk undir nafninu ungfolahlaup, millivegalengdinni 350 m og svo í þolhlaupinu 800 m.
Á landsmótinu 1970 var fyrst keppt í brokki, það var 1500 m sprettur. Brokkgreinarnar náðu svo sem aldrei neinu teljandi flugi og var keppt sitt á hvað í 1500 m, 800 og 300 m brokki. Á landsmótinu 1982 á Vindheimamelum bættist 150 m skeiðið við. Á þessum árum var kappreiðahaldið í mestum blóma og hélst svo um skeið en fór svo að kvarnast úr þessu, brokkið hvarf af dagskrá landsmóta og stökkgreinum var fækkað. Á fimmtánda landsmótinu árið 2002 var 100 m flugskeiðinu bætt við en einungis keppt í 300 m stökki, þátttaka var lítil en þeim mun meiri í skeiðinu. Síðan hafa kappreiðar einungis verið í skeiðgreinum á landsmótunum. Peningaverðlaun voru síðast veitt á landsmótinu 2000 og veðbanki starfaði síðast 2002.
Hvað árangur varðar og þróun þar að lútandi er úr nokkuð vöndu að ráða. Djúpt er á allri tölfræði. Eina sem við höfum handfast hvað stökk og brokk varðar eru skráð Íslandsmet en þau eru öll tekin á handklukku því keppni í þessum greinum lagðist af áður en rafræn tímataka kom til en það var rétt upp úr aldamótunum síðustu.
Til fróðleiks ætla ég að birta hér gildandi Íslandsmet í stökki og brokki en gera svo skeiðinu ögn fyllri skil hér á eftir:
300 m brokk: Neisti frá Hraunbæ og Guðmundur Jónsson; 29,0 sek., sett á landsmótinu á Gaddstaðaflötum 1994.
800 m brokk: Léttir frá Stórulág og Sigfinnur Pálsson; 1 mín 23,3 sek., sett á Fornustekkum 1978.
1500 m brokk: Léttir frá Stórulág og Svanur Guðmundsson; 2 mín 56,0 sek., sett á Fornustekkum 1978.
250 m stökk: Lótus frá Götu og Róbert Jónsson; 17,3 sek., sett á Melgerðismelum 1984.
300 m stökk: Tvistur frá Götu og Anna Dóra Markúsdóttir, 20,5 sek., sett á Melgerðismelum 1984.
350 m stökk: Glóa frá Egilsstöðum og Hörður Þór Harðarson; 23,9 sek., sett á fjórðungsmótinu á Vindheimamelum 1979.
800 m stökk: Gnýfari frá Vestra-Fíflholti og Sigurður Sigurðarson; 55,8 sek., sett á Mánagrund 1981.
Ég hygg að stökkgeta íslenska hestsins hafi ekki þróast fram á við, frekar hitt. Ekki neinn almennur áhugi hefur verið á ræktum stökksins né þjálfun þess og reiðhæfni hefur hrakað hvað það varðar, þ.e. sem hraðagangtegund, það sést vel þegar bornar eru saman sýningar fyrir kynbótadómi fyrr og nú. Án þess að ég hafi nokkrar rannsóknir við að styðjast hygg ég að stökkupplegg hrossa hafi hrakað í takt við lækkaða tíðni hins svokallaða C erfðavísis sem er í því genasæti sem kallað er gangráður. Séu hross með genasamsætuna AA eru þau með alhliða gangupplegg, þau sem eru CA eru klárhross með tölti en CC eru ganglaus. Slík hross eru nær óþekkt í dag en ég minnist slíkra úr röðum snarpra stökkhrossa fyrri tíðar.
Skeiðið, árangur og met
Það liggur fyrir að 250 m skeið er elsta séríslenska keppnisgrein hestamennskunnar. Í bókinni Íslenski hesturinn sem út kom hjá Máli og menningu árið 2004 í samstarfi við SÍH fjallar einn kaflinn um keppnir á hestum, undir yfirskriftinni Í keppni og sýningum, höfundur Þorgeir Guðlaugsson og byggi ég það sem ég fer yfir hér á eftir m.a. á þeirri heimild.
Fyrsta skráða Íslandsmetið setti Hörður frá Stokkseyri, knapi: Karl Þorsteinsson árið 1924; 24,4 sek. Það var svo jafnað og loks bætt af Sjúss frá Oddhóli, knapi: Árni Gunnlaugsson árið 1928; 24,2 sek. Stóð það met óhaggað í 18 ár eða til 1946 en þá var það bætt í 23,9 sek. af Randver frá Varmadal, knapi: Jón Jónsson. Það met var svo stórbætt tveimur árum síðar af hryssunni Glettu frá Dönustöðum (iðulegast kennd við Laugarnes í Reykjavík) knapi var Sigurður Ólafsson söngvari. Glettumetið stóð óhaggað í hátt í þrjá áratugi en árið 1976 var það bætt um eitt sekúndubrot af Óðni frá Gufunesi, knapi Aðalsteinn Aðalsteinsson.
Eigandi Óðins og þjálfari var þjóðkunnur garpur um sína daga; Þorgeir Jónsson í Gufunesi, bróðir fyrrnefnds Jóns í Varmadal en þeir bræður voru ásamt með Sigurði Ólafssyni fremstu skeiðmenn sinnar tíðar, sannir skeiðlistamenn. Of langt mál er að rekja þessa sögu öllu nánar en núgildandi Íslands- og um leið heimsmet, því öll keppni á íslenskum hestum er nú orðin alþjóðleg undir merkjum FEIF, á Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu og Konráð Valur Sveinsson; 21,15 sek. Metið var sett á landsmótinu í Reykjavík 2018.
Á sama móti setti Vökull frá Tunguhálsi og Sigurbjörn Bárðarson Íslands- og heimsmet 21,16 sek. en það stóð eðlilega stutt. Sigurbjörn Bárðarson á fágætan listaferil sem skeiðmaður sem í öðrum greinum hestamennskunnar en hann hefur að mér telst til bætt metið í þessari grein fjórum sinnum á jafnmörgum hestum.
Eldri tímarnir sem ég rakti hér að ofan eru eðlilega allir teknir á handklukku en Íslands- og heimsmet Kjarks er tekið með rafrænni tímatöku. Nokkrir tímar eru þannig til skráðir sem eru betri en met Kjarks og Konráðs en þeir eru allir teknir með handklukku.
Saga 150 m skeiðsins er vitaskuld ekki eins svipmikil, a.m.k. ekki eins löng, og 250 m skeiðsins en keppni í 150 m skeiði hófst seint á áttunda áratugnum, fyrst var keppnin ætluð ungum og óhörðnuðum hestum en varð síðar almenn keppnisgrein án aldurstakmarkana. Fyrst var keppt í greininni á landsmótinu 1982, eins og áður segir. Þó greinin hafi svona seint fengið viðurkenningu var barist fyrir tilurð hennar af hugsjónamönnum um bætta meðferð hesta um áratugi. En Sigurður Gíslason (1889 – 1947) lögregluþjónn og hestamaður í Reykjavík bar upp tillögu í þessa átt.
Hann sat í stjórn Hestamannafélagsins Fáks 1934 til 1946, sat áður í skeiðvallarnefnd félagsins 1922 til 1934, var ræsir á kappreiðum Fáks í 24 ár. Sigurður var heiðursfélagi Fáks og einnig heiðursfélagi Dýraverndunarfélags Íslands, þar sem hann sat í stjórn samfellt frá 1929. Sigurður lét sér sem lögregluþjónn mjög varða meðferð dýra, ekki aðeins í Reykjavík heldur og víðsvegar um land. Ásgeir Jónsson frá Gottorp hélt tillögunni vakandi hjá Fáki og talaði fyrir henni, m.a. í riti sínu Samskipti manns og hests sem út kom 1951.
Núverandi Íslandsmet í 150 m skeiði á Tumi frá Borgarhóli og Teitur Árnason; 13,74 sek., var það sett á Íslandsmótinu í Víðidal 2014. Heimsmetið á hins vegar Blökk frá Kambi og Catherine Gratzl; 13,47 sek., sett 2011 í Austurríki.
Saga 100 metra flugskeiðsins er enn styttri, þarna er um spretthlaup að ræða með fljúgandi starti og af því er nafnið dregið. Keppnisgrein þessi var fyrst meira höfð til gamans, s.s. ljósaskeiðið á haustmóti Andvara, hinu svokallaða metamóti, á árum áður. Greinin festi sig síðan í sessi og varð fullgild og vinsæl keppnisgrein.
Íslandsmetið í dag á Glúmur frá Þóroddsstöðum og Guðmundur Björgvinsson; 7,08 sek., sett á Íslandsmóti á Gaddstaðaflötum 2017. Heimsmetið á hins vegar Frami frá St. Oswald og Carina Mayerhofer; 6,95 sek., sett í Þýskalandi 2012.
Í næstu greinum verður þessi sami vefur ofinn áfram en nú verður athyglinni beint að hringvallargreinunum, s.s. íslensku gæðingakeppninni sem hófst reyndar ekki sem hringvallargrein og svo íþróttakeppninni, þ.m.t. er gæðingaskeið.
Kristinn Hugason.
Áður birst í 42. tbl. Feykis 2019
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.